Brian May í Þúsaldarhvelfingunni

London 2022

Það var fyrir næstum tveimur og hálfu ári að tilkynnt var um tónleikaferðalag eftirlifandi meðlima Queen með söngvaranum Adam Lambert. Við ræddum möguleikann á fjölskylduferð á tónleika en þar sem tal um ákveðinn vírus var farið að verða áberandi ákváðum við að sleppa því þá. Það fór líka þannig að tónleikaferðinni var frestað. Fyrst um ár. Síðan um annað ár.

Þegar varð ljóst að tónleikaferðin yrði nær örugglega á þessu ári fór ég að grafast fyrir um möguleikann á fjölskylduferð. Ég skoðaði ýmsa staði og hvergi virtist vera hægt að redda miðum fyrir okkur fjögur saman í sæti. En það var hægt að redda stökum miðum. Þannig að ég ákvað að bíða með fjölskylduferðina og skreppa bara einn til London. Ég bókaði miða fyrir tónleika í Þúsaldarhvelfingunni (sem þykist núna heita eftir einhverju símafyrirtæki).

Ég velti fyrir mér hótelum og ákvað að velja Garden View Hotel sem var á fínu verði nálægt Earl’s Court neðanjarðarlestarstöðinni. Í London skiptir það auðvitað einna mestu máli að hafa aðgengi að Undirgrundinni og þessi stöð er fínn tengipunktur, meðal annars til og frá Heathrow.

Lítið að segja um flugið út eða nokkuð fyrren ég kom á hótelið. Ég innritaði mig og var síðan sagt að nota stigana til að fara upp á þriðju hæð (semsagt fjórðu hæð). Stiga? Já. Lyftan var biluð og virtist hafa verið það í einhvern tíma. Ég dröslaði töskunni alla leið upp í gegnum völundarhús stiga með óljósum merkingum. Ljósunum var stýrt af hreyfiskynjurum þannig að ég þurfti stundum að vera í myrkri þar til hreyfingin var numin. Þegar ég kom að herberginu var ennþá verið að taka allt til. Ég þurfti að bíða vandræðalegur í herberginu.

Ég tel mig ekki kröfuharðan á hótelherbergi. Í fyrsta lagi vil ég að það sé allt í góðu með hreinlætið og í öðru lagi að það sé sturta. Ég hafði þá tilfinningu að það væri ekki gert mikið meira en bara að skipta á rúminu. Þegar á leið komst ég að því að herbergið væri hitakista og þá sérstaklega eftir að ég fór í sturtu. Eina leiðin til að hafa herbergið lífvænlegt var að galopna glugga og draga frá. Sturtan sjálf var síðan með ákaflega litlu vatnsflæði, meðal annars af því að töluvert af vatninu lak út áður en það náði að sturtuhausnum.

En hvað um það. Fyrir utan að taka stutt rölt að og framhjá Garden Lodge, sem var heimili Freddie Mercury, afrekaði ég ekki mikið á mánudeginum. En fyrsta leikhúsferðin var um kvöldið, Back to the Future söngleikurinn. Ég hafði séð mjög jákvæða dóma um sýninguna en hún stóð ekki sérstaklega vel undir væntingum. Reyndar skánaði flest þegar á leið. Ýmsu var breytt í söguþræðinum, sumt fínt en annað ekki. Verst þótti mér hve mikið var treyst á brandara sem brutu fjórðuvíddarvegginn. Í myndunum eru brandararnir út frá muninum á 1985 og 1955. Marty veit hvernig framtíðin er og vísanirnar virka þannig. En það var bara endalaust af einhverju um hvernig tuttugasta og fyrsta öldin yrði. Auðvitað hefði mátt hafa einhverja svoleiðis en þetta var allt of mikið.

Höfuðpersónurnar þrjár, Marty, Doc og George voru túlkaðar á mismunandi hátt. Sá sem lék Marty var bara nokkuð einföld eftirherma af Michael J. Fox en þó án persónutöfra. Leikarinn sem túlkaði George var nær fullkomin eftirherma af Crispin Glover. Það virkaði að mestu nema kannski þegar hann hló of lengi þessum asnalega hlátri. En sá sem lék Doc Brown var frumlegri. Hann túlkaði persónuna upp á nýtt. Það mætti segja að hann hafi verið meira Mel Brooks en Christopher Lloyd. Það virkaði eiginlega best. Af hinum… Persóna Lorraine hefði mátt fá meira að gera. Biff var óspennandi. Hann var alltaf ógnandi af því að hann var vöðvastæltur en þeim virðist hafa þótt fyndnara að hafa hann bara feitan.

Frumsamda tónlistin var óeftirminnileg. Ég bókstaflega man ekki eftir neinu lagi. Tæknibrellurnar voru á köflum skemmtilegar þó mér hafi þótt of mikið treyst á skær blikkandi ljós.

Það var ekki heldur mikið afrekað á þriðjudeginum. Ráfaði um. Veðrið gott og ég settist reglulega og naut lífsins. Sýning kvöldsins var Six sem fjallar um eiginkonur Hinriks VIII. Ég heyrði fyrst um sýninguna í hlaðvarpinu Not Just the Tudors. Ég nota orðið sýning af því að þetta er varla söngleikur í hefðbundnum skilningi. Persónurnar lýsa sambandi sínu við fræga eiginmann sinn og það er á köflum skemmtileg endurhugsun á þeim. Ég sat alveg fremst fyrir miðju. Ég vildi fótarými. Þegar salurinn var að fyllast hugsaði ég með sjálfum mér að ég virtist vera eini staki karlmaðurinn á svæðinu. En síðan kom ungur maður og settist við hliðina á mér. Hann hafði séð sýninguna þrisvar áður, þar af tvisvar í einhverri skemmtisiglingu.

Þar sem ég þekki ágætlega söguna af Hinrik áttunda gat ég alveg látið fara í taugarnar á mér að stundum voru klisjur látnar ráða frekar en nákvæmari sagnfræði. Boleyn var túlkuð sem tálkvendi og sagan af Cleves mjög hefðbundin þannig að það hafi bara verið útlit hennar sem varð til þess að hjónabandið var lýst ógilt þó í raun hafi það verið flóknara. En ég lét þetta ekki fara í taugarnar á mér af því að þetta var allt stórskemmtilegt. Ég er ennþá að raula lögin. Sérstaklega var Haus of Holbein eftirminnilegt. Á ákveðnum punkti í sýningunni benti ein drottningin á áhorfanda og lét hann dansa. Það var gaurinn við hliðina á mér. Ég var ánægður fyrir hans hönd enda virtist hann njóta þess í botn og ég var ennþá glaðari að ég varð ekki fyrir valinu. Ég er vissulega oft til í eitthvað sprell en ég var ekki í stuði til að dansa.

En sögunördinn var ekki alveg dauður, sérstaklega þegar það var brandari um að enginn vissi hver eiginkona Hinriks sjöunda hefði verið og ég hugsaði strax: “Það var Elísabet af York, dóttir Játvarðs fjórða og systir prinsanna í turninum, sem gaf konunginum töluverðan styrk enda hafði hún eiginlega betra tilkall til krúnunnar en Hinrik sem byggði kröfu sína á því að hafa sigrað Rósastríðið.”

Ég ráfaði bara aðeins um á miðvikudaginn enda þurfti ég að hafa góðan tíma til að komast á tónleikana. Ég var sérstaklega taugaóstyrkur af því að miðinn minn var ekki ennþá “kominn”. Ég hafði sumsé keypt miða í gegnum endursölukerfi Ticketmaster. Af einhverjum ástæðum taldi fyrirtækið best að láta kaupandann senda mér miðann í pósti frekar en ógilda þann gamla og senda mér nýjan. Ég beið og beið eftir miðanum.

Að lokum ákvað ég hafa samband og bað um rafmiða enda þótti mér loforð þeirra um að miðinn kæmi í síðasta lagi fimm dögum fyrir tónleika frekar tæpt. Hjálparkerfi Ticketmaster var ekki hjálplegt. Endalaus frumskógur, fram og til baka. Þegar ég hélt að ég væri komin að því að geta sent fyrirspurn var ég sendur á einhverja nýja hjálparsíðu með tillögum sem pössuðu ekki við mitt tilfelli. Að lokum fékk ég hjálp með því að bögga fyrirtækið á Twitter. Og ég fékk tilkynningu um að ég fengi rafmiða. Frábært! Ekki satt?

Þegar nær dró tónleikanum fékk ég póst um að til þess að fá rafmiða þyrfti ég að sækja app tónleikastaðarins. Þegar ég fór að setja það inn tók ég eftir því að notendur voru á nær einu máli um gagnsleysi og ömurleika forritsins. Ég var fljótur að sannreyna þá dóma. Ég þurfti að stofna reikning hjá tónleikastaðnum. Síðan þurfti ég að stofna reikning hjá einhverri annarri miðaþjónustu sem heitir Axs. Í hvert skipti sem ég opnaði forritið þurfti ég að skrá mig inn hjá Axs. Miðinn átti að birtast sjálfkrafa í appinu. Það gerðist ekki. Ég hafði samband við Ticketmaster og fékk svarið að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur, það myndi gerast fimm dögum fyrir tónleika. Það gerðist ekki. Ég hafði aftur samband. Þá var mér sagt að það gerðist í síðasta lagi 48 klukkustundum fyrir tónleika. Það gerðist ekki. Þá var mér sagt að það myndi gerast samdægurs.

Að morgni tónleikadagsins fékk ég tilkynningu frá Axs að miðinn minn væri kominn inn á reikninginn minn. Ég staðfesti það með því að opna vefaðganginn. Þá þurfti ég bara að staðfesta að miðinn kæmi í forritinu. Auðvitað kom hann ekki þar. En appið var samt meðvitað um að ég ætti miða og reyndi að selja mér varning fyrirfram. Miðinn birtist bara ekki. Svarið sem ég fékk var að ég þyrfti bara að redda þessu í miðasölunni hjá tónleikastaðnum.

Þannig að ég fór snemma af stað. Þetta var töluverður spotti en ég þurfti bara einu sinni að skipta um lest. Þannig að ég fór af stað og þegar ég kom út á stoppinu heyrði ég tilkynningu um að það væru vandræði á seinni línunni, líklega hafði einhver gleymt töskunni sinni. Ég endurreiknaði ferðina og sá að ég gæti bara haldið áfram með sömu línu og ég kom með og farið austur fyrir vandræðin, þaðan gæti ég tekið hina línuna vestur að tónleikastaðnum. Ég hoppaði í næstu lest sem síðan stoppaði strax á næstu stöð og tilkynnti að hún færi ekki lengra. Ekki út af einhverju veseni. Bara að sumar lestir fara ekki alla línuna til enda. Þannig að ég beið eftir lest sem færi alla leið að stöðinni sem á þurfti að stoppa á (West Ham). Þar var vissulega seinkun en ég gat samt tekið næstu lest að tónleikastaðnum.

Þar byrjaði ég á miðasölunni. Þar þurfti grey maðurinn að fara fram og til baka þar til að honum datt í hug að leita að miða skráðan á Gneisti frekar en Sóleyjarson. Glæsilegt kerfi. Þannig að ég er þakklátur þeim manni en allt hitt var asnalegt klúður.

Ég rölti að innganginum mínum, fékk mér ís á leiðinni, og fór í völundarhúsið til að bíða eftir að salurinn opnaði. Ég var voðalega glaður þegar fólkið fyrir framan mig settist bara á gólfið á meðan það beið. Ég geri það gjarnan en það er stundum horft á mig eins og ég sé eitthvað skrýtinn. Núna gat ég bara sest og verið eins og hinir. Og beið. Ég hafði klárað allt vatnið mitt áður en ég fór í röðina og var orðinn svolítið þyrstur þegar við loksins komum inn. Ég hoppaði strax á barinn og bað um sódavatn. Það var ekki til en ég gat keypt rándýrt volgt vatn í tappalausri flösku.

Ég var frekar snemma á ferðinni og ákvað að standa bara fremst. Mér líkar það ágætlega þó ég sé alltaf með samviskubit yfir því að vera hávaxinn enda get ég hallað mér fram á öryggisgirðinguna þannig að fólk sjái frekar yfir mig. Gaurinn við hliðina á mér var álíka stór og ég en var nær alla tónleikana með símann í loftinu til að taka upp tónleikana. Þannig að ég var bara náttúruleg hindrun á útsýni frekar en viljandi.

Tónleikarnir voru fínir. Það var ekki annað hægt en að bera þá saman við tónleikana sem ég fór á með Roger Taylor (trommara Queen) í fyrra. Það var minna um brellur en það var alltaf hann að syngja. Það er ekki það sama að hafa Adam Lambert í hlutverki söngvara og satt best að segja var hann ekki jafn góður og hann var 2017 þegar ég sá hann á Írlandi. Hápunkturinn var að þegar Roger og Brian sungu, og þá sérstaklega þegar Brian tók ’39. Það gladdi mig líka mjög að heyra In the Lap of the Gods (Revisited).

Það var mikill troðningur á heimleiðinni. Ég náði að komast í fyrstu lestina frá staðnum. Alveg troðfull. Einn kall ákvað að vera sniðugur og hoppa inn þegar allir hinir á lestarpallinum höfðu komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert vit í slíkum æfingum. Hann komst inn en bakpokinn hans klemmdist þegar hurðina lokaðist. Það var mikið vesen hjá nærstöddum að losa hann. Kallinn reyndi að grínast með þetta en það var ljóst að engum öðrum þótti þetta skemmtilegt.

Troðningurinn var þannig að stór hópur farþega þurfti að standa. En ég hef tekið eftir því að í slíkum aðstæðum er alltaf til fólk sem heldur að það sé betra að standa þó það séu laus sæti. Það stendur jafnvel og blokkar laus sæti og ímyndar sér væntanlega að það sé að fórna sér með því að setjast ekki niður. Ó nei, þú ert í raun að taka tvöfalt meira pláss.

Þegar ég var kominn í lestina sem færði mig að hótelinu byrjaði gaur í vagninum að hnerra aftur og aftur. Ég mætti augum manns hinum megin við ganginn og við vorum greinilega að hugsa nákvæmlega það sama. En það var bara á síðasta spottanum þannig að ég slapp fljótt.

Á hótelinu gladdi það mig að það var búið að koma með ný handklæði. Það hafði sumsé ekki verið skipt um handklæði daginn áður. Það var frekar slæmt þegar ég kom heim eftir gönguferðir í sólinni og lestartroðning. Ég hefði helst vilja fara í sturtu tvisvar á dag. Ég tók seinna eftir því að á blaðinu, sem ég fékk með þeim orðum að þarna væru upplýsingar um þráðlausa netið, var klausa um að gestir þyrftu sérstaklega biðja um að herbergið væri þrifið fyrir klukkan átta kvöldið áður. Ég hef aldrei áður kynnst slíku á hóteli.

Í fyrra tók ég átak í að lesa Sherlock Holmes aftur. Ég ákvað því að heimsækja Sherlock Holmes safnið sem er í 221B (samt ekki í númeraröðinni) Baker Street. Ég bókaði því heimsókn á fimmtudagsmorgni. Á leiðinni voru aftur tafir á lestarkerfinu. Í þetta skiptið var tekið fram að það hefði orðið dauðsfall á teinunum. Þar sem ég sat á pallinum heyrði ég ítrekað hljóð. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er en það hljómar eins og að það sé verið að losa gufu. En þarna sá ég fyrir mér að þetta væri hljóð í háþrýstidælu sem væri að þrífa teinana. Algjört bull auðvitað. Það var ekkert vandamál á þessari stöð en hausinn var samt að tengja þetta.

Þegar lestin kom loksins fann ég mér sæti en heyrði fljótlega íslensku. Ég leit til hliðar og sá þar gamlan félaga. Spjallaði aðeins. Hann var að fara á vaxmyndasafn með krakkana. Þannig að við vorum báðir mjög túristalegir.

Lukkulega náði ég á Sherlock Holmes safnið á þeim tíma sem ég hafði bókað. Ég hafði ekki miklar væntingar og það stóðst alveg. Þetta er sett upp eins og um sé að ræða heimili Sherlock Holmes (þó húsið sé reyndar mun yngra). Það er nær ekkert um raunverulegan bakgrunn sagnanna. Það er ekkert um Arthur Conan Doyle eða kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Þarna er samansafn af ýmsum forngripum sem hafa mismikil, eða lítil, tengsl við Sherlock Holmes. Þarna eru svefnherbergi, stofa og svo framvegis. Mér fannst uppsetningin ekki passa sérstaklega vel við sögurnar. Síðan voru nokkrar misvel heppnaðar vaxmyndir á efstu hæðinni.

Gestir eiga að klára heimsóknina á um fimmtán mínútum og það passar alveg fínt. Ég kíkti í gjafabúðina og það var nær allt sama fjöldaframleidda draslið sem er í öllum gjafabúðum með mismunandi lógóum. Það eina sem mér þótti smá spennandi voru styttur af Holmes en þær voru allar uppseldar.

Eftir hádegi var það söngleikurinn Hamilton. Fyrst sagði fólk að hann væri það besta í heimi og síðan var bakslag og hann var sagður alveg skelfilega vondur. Ég hafði því hóflegar væntingar. Ef þið vitið ekki er umfjöllunarefnið Alexander Hamilton, einn af landsfeðrum Bandaríkjanna. Áður en söngleikurinn sló í gegn vissi eiginlega enginn neitt um manninn. Hann er á tíudollara seðlinum en hann var aldrei forseti, bara fjármálaráðherra. Ef þú ert sögunörd vissir þú líklega að hann var drepinn í einvígi af Aaron Burr sem var þáverandi varaforseti Bandaríkjanna. Fyrir Íslendinga er reyndar skemmtilegt að vita að mamma hans bjó um tíma á St. Croix sem tilheyrði þá dönsku krúnunni og varð seinna fæðingarstaður Hans Jónatans.

Lin-Manuel Miranda samdi söngleikinn upp úr ævisögu Hamilton. Það hefur reglulega verið bent á að sú mynd sem dregin er upp á landsföðurnum eigi á stundum meira skilt við skoðanir höfundarins heldur en sögulegu persónunar. Reyndar hefur áhugi á Hamilton aukist til muna síðustu ár þannig að sagnfræðingar hafa mun betri skilning á honum heldur en þegar Miranda var að semja handritið.

Söngleikurinn er frægur fyrir að velja leikara án þess að líta til húðlitar. Þetta hefur orðið sífellt algengari og það má meðal annars sjá á leikavalinu í sýningunni Six. Mér finnst þetta virka misvel eftir efnisvali. Í Hamilton er það hálfskrýtið að tala um þrælahald þegar aðalpersónan er leikin af svörtum manni. Það gerir sögulegar persónur sem voru svartar ósýnilegar. Mér finnst það vera betur heppnað þegar við endurhugsum sögur eins og Les Mis með aðalpersónum sem eru svartar. Það minnir okkur á að sagan er ekki jafn snjóhvít og við ímyndum okkur. Þegar fólk kvartaði yfir því að svartir leikarar væru fengir til leika í Les Mis var það algjörlega laust við að skilja að það var alveg fullt af svörtu fólki í Frakklandi þess tíma og er Dumas-fjölskyldan alltaf augljósa dæmið. En átti einhver persóna í söngleiknum Hamilton að vera svört? Engin leið til að vita bara með því að horfa.

Hvað þótti mér um söngleikinn? Ég átti stundum erfitt með að fylgja hraðskreiða rappinu. Ég þekki söguna hins vegar það vel að ég hélt samt þræði. Það sem skiptir kannski helst máli er að það voru mörg góð lög og sum sem ég hef sönglað með sjálfum mér.

Þar sem þráðlausa netið var eiginlega ónýtt á hótelinu var lítið um afþreyingarmöguleika annað en að kveikja á sjónvarpinu. Það var stillt á stöð sem heitir Dave sem endursýnir aðallega gamla grínþætti meðfram endalausum auglýsingum. Þegar auglýsingahléi lauk hafði ég almennt alveg gleymt hvað ég hefði verið að horfa á.
Það vildi reyndar svo til að á mánudagskvöldið og fimmtudagskvöldið var sami þátturinn af QI sýndur. Ég hefði haldið að það væri auðvelt að koma í veg fyrir svona tíðar endurtekningar. Lukkulega horfði ég bara á kynninguna á þættinum á mánudaginn þannig að ég var ekki sérstaklega pirraður að fá annað tækifæri. En síðan útskýrði Stephen Fry að það tæki eld 90 sekúndur að breiðast út um flugvél þannig að flughræðslan fékk smá fóður.

Á föstudeginum byrjaði ég á því að pakka í tösku og setja í geymslu á hótelinu. Ég ákvað að fara í Hamley’s leikfangaverslunina. Ég rölti upp og niður og rakst á dróna sem ég ákvað að kaupa handa strákunum mínum. Þar sem ég greip tvö stykki var mér tilkynnt að ég fengi ókeypis eitthvað svifdót, sem væri skemmtilegt að kasta úti við. Það minnti helst á svona ljósaspegla sem ljósmyndarar nota í myndatöku. Það var samt ekki einhver speglunarlitur á þessu heldur breski fáninn. Allt í flötum en stórum kassa.

Ég rölti í gegnum Karnabæ niður að leikhúsinu (og næsta klósetti). Þar sem ég beið eftir að fara inn settist ég niður á Leicester Square rétt hjá götupredikara. Hann var með gjallarhorn og talaði stanslaust og vitlaust um trúarhugmyndir sínar. Þegar hann fór að tala um múslíma sendi ég honum fingurinn mjög vandlega. Þegar hann fór að halda því fram að Opinberunarbókin fjallaði um Illuminati hló ég hátt og innilega að honum.

Núna var ég að fara á Book of Mormon. Ekki í fyrsta sinn. Þetta er mjög vel heppnaður söngleikur um Mormóna í Afríku og þó sumt af því sem er sýnt frá Afríku sé ekki frábært er ég á því að það sé til þess að gera grín að hugmyndum vestræns fólks frekar en á kostnað innfæddra. Þessi söngleikur er skemmtilegur að því leyti að hann er hefðbundinn að forminu til með grípandi lögum er sagan og efnistökin á skjön við hið venjulega.

Á sýningunni lenti ég í því sama og ég oft áður. Ég vel mér sæti út frá fótaplássi. Þess vegna sat ég fremst á Six og þess vegna sat ég við ganginn á Book of Mormon. Það versta er ekki að þurfa að standa á fætur og hleypa fólki. Það versta er að þurfa að fá endalausar afsökunarbeiðnir frá fólkinu. Ég valdi sætið. Ég vissi að þyrfti að hleypa fólki. En í þetta sinn svaraði ég afsökunarbeiðni með orðunum: “It’s the nature of the thing” sem náði einhvern veginn að gleðja fólkið.

Ég nefndi fyrr svifdótið sem ég fékk í Hamley’s. Var það óþarfa útúrdúr? Nei, það var til að útskýra hvað gerðist nú. Í hléinu fann ég mér stað aftast í salnum þar sem ég gat staðið á meðan fólk streymdi út. En ég var líka með stóran, léttan, flatan pakka með mynd af breska fánanum. Það var frekar heitt í salnum þannig að ég tók upp á því að nota pakkann eins og blævæng. Fólkinu sem gekk þarna framhjá þótti þetta mjög skondið, sérstaklega af því þetta leit svolítið út eins og ég væri að veifa breska fánanum.

Þar sem þetta var síðasti dagurinn var ég meðvitaður um að vera tímanlega á leiðinni á flugvöllinn. Ég kíkti reglulega á þjónustutilkynningar Undirgrundarinnar til að vera viss um að ég væri öruggur. Allt í góðu þannig að ég þurfti ekki að stinga af snemma úr leikhúsinu. Ég tók lestina beint að hótelinu og fór síðan með lestinni að Heathrow. Allt á góðum tíma og bara smá innritun og öryggishliðið eftir.

Það var allt í rugli á Heathrow. Kerfið sem flutti og flokkaði farangurinn var bilað. Þannig að ég þurfti að troðaast að innritunarborðinu þar sem mér var sagt að fara sjálfur með farangurinn niður fimm hæðir (lukkulega með lyftu). Mér var bent í rétta átt en það var enginn sem útskýrði neitt meira. Engum hafði dottið í hug að nota upplýsingaskjái til að hjálpa farþegum að skilja stöðuna. Ég tróð mér í átt að lyftunni og áttaði mig þá á að ég hafði verið að troða mér framhjá röðinni að lyftunni. Þannig að ég þurfti að koma mér aftur til baka og bíða og bíða eftir að komast í lyftuna.

Síðan þurfti ég að ramba á réttan stað með töskuna. Þar var tekið á móti okkur og töskunum hrúgað saman. Ég hélt að það hlyti að vera kerfi…

Allt vesenið, troðningurinn og þrengslin urðu til þess að ég ákvað að sleppa því að yfirfara það sem væri í handfarangri og innrituðum farangri. Það var enginn staður til þess að gera neitt svoleiðis. Ég passaði bara að ég væri með vegabréfið.

Röðin að öryggishliðinu var lengst og versta völundarhús sem ég hef komið í. Algjör martröð. Það voru alls staðar merkingar um að hafa pláss á milli fólks hreinlætisins vegna en um leið voru starfsmenn að skamma farþega fyrir að troða sér ekki nógu þröngt. Það sem gerði stöðuna verri var að farþegar höfðu ekki tíma eða pláss til að fara í gegnum handfarangurinn í ró. Þannig að það var ekki fyrren það kom að þegar fólk var að setja draslið sitt í bakka í öryggisskoðunni að það gat hent vatnsflöskum og að sett aðra vökva í litla töfrapoka sem varna gegn hryðjuverkum.

Þegar ég fór að nálgast öryggishliðið sjálft heyrði ég í konunni sem var á vakt þar. Hún var að segja ömurlega brandara sem enginn hafði húmor fyrir. Það var líka þannig að rétt fyrir aftan mig var fjölskylda og meðal annars táningstúlka sem var greinilega í uppnámi og var farin að gráta. Fjölskyldan reyndi að biðja konuna um að hleypa þeim fram fyrir. Svörin voru andstyggileg. Ég fór óvart að hrópa á hana af því mér þótti hún svo ósanngjörn. En það sem gerðist næst var að farþegarnir einfaldlega hleyptu fjölskyldunni fram fyrir. Þegar fjölskyldan var komin í öryggiskoðunina hélt konan áfram dólgshætti sínum kvartandi að það væri allt vitlaust gert. Ég var farinn að kvíða því að lenda á konunni en þá voru fleiri öryggishlið opnuð þannig að ég slapp.

Ég nennti ekki að finna mest spennandi matinn í flugstöðinni heldur greip ég bara samloku og vatn á Pret og fékk frekar þægilegt sæti til að hvíla mig. Ég náði síðan að eyða nokkrum tíupundaseðlunum sem ég var með. Ég er alltaf svo smeykur við að treysta bara á kort að ég tek út peninga en síðan er yfirleitt svo auðvelt að borga með korti að ég nota það ekki nema þegar ég vanda mig að muna eftir því.

Síðan fór ég að hliðinu og beið í töluverðan tíma. Okkur var loksins hleypt inn í vélina en ég var með þeim síðustu inn. Þegar ég kom að sætinu mínu sat þar kona sem hafði eitthvað verið að semja við aðra farþega svo hún gæti setið hjá sínu fólki. Einhvern veginn endaði það þannig að fólkið hægra megin fór allt vinstra megin og öfugt. Þegar ég var nýsestur en ekki búinn að koma mér fyrir kemur allt í einu flugfreyja og segist vera í vandræðum og þurfa farþegar annars staðar. Ég ákvað að gefa eftir og þá var mér komið fyrir við neyðarútgang þar sem ég var einn í röð. Mér þótti ágætt að vera einn, sérstaklega þar sem ég var meðvitaður um að hafa svitnað töluvert í öllu veseninu og þótti ágætt að bjóða ekki neinum upp á mögulega keim. Fótaplássið hjálpaði líka.

Nú er ég ekki aðdáandi þess að fljúga. Ég er flughræddur. Þannig að ég hlýt að vera sérstaklega hræddur þegar ég þarf að sitja við neyðarútgang með þá skyldu að hjálpa til ef neyðarástand kemur upp? Þvert á móti. Flughræðslan hverfur næstum. Ég verð rólegur. Ég skoða leiðbeiningar um hvað ég eigi að gera og tek þetta alvarlega. Það að hugsa um hvað ég þurfi að gera ef allt fer á versta veg dregur hugann frá hættunni. Hausinn er sumsé undarlegur.

Á leiðinni horfði ég þrjá þætti af Atlantic Crossing þar sem Svíar eru helstu óþokkarnir. Sérstaklega kóngurinn. Ég ætti kannski að lesa mér til um sögulega nákvæmni.

Við lentum og ég hoppaði snöggt í gegnum fríhöfnina (ekki kaupi ég áfengi eða sígarettur) og fór síðan að færibandinu. Þar kom fram að töskur frá London væru á leiðinni á bandið. Þannig að ég beið. Og beið. Loksins kom einn bakpoki og skiltið tilkynnti að allar töskurnar væru komnar. Ég var gáttaður. Ég fór að þjónustuborðinu þar var mér sagt að einungis tuttugu töskur hefðu verið settar í vélina í London.

Það fer óendanlega í taugarnar á mér að Icelandair hafi vitað að flestar töskurnar hafi orðið eftir í London en látið vera að tilkynna okkur það. Bara létu okkur standa og bíða við færibandið. Það er líka ömurlegt að það var enginn sem varaði okkur við að allt væri í rugli á Heathrow. Það var ekki óvænt það virtist hafa staðið yfir í töluverðan tíma.

Fyrir utan að það er ömurlegt að fá ekki töskuna var ég í vandræðum af því að ég hafði ekki tekið lyklana úr ferðatöskunni eins og ég ætlaði. Ruglið á Heathrow (og þrengslin á hótelinu) kom í veg fyrir það. Verra var að það var enginn heima. Ég nefndi við starfsmann að ég væri mögulega læstur úti og hann brást við með því að útskýra fyrir mér að það væri ekki góð hugmynd að hafa húslykla í innrituðum farangri. Ég hvæsti smá að honum en ég stoppaði mig áður en ég útskýrði ítarlega fyrir honum að smá viðvörun um ástandið á Heathrow hefði komið í veg fyrir þetta.

Þannig að klukkan var um miðnætti og ég þurfti að fara að bögga fólk til að redda varalyklum. Lukkulega var Árný frænka í borginni og gat komið útidyralyklinum heim til mín en hún hefir haft varalykilinn svo lengi að það var ekki lykill að nýja lásnum á forstofuhurðinni á kippunni. Þannig að ég hafði samband við þann nágranna sem mér þótti líklegastur til að vera vakandi og mér var reddað inn um forstofudyrnar og komst því heim. Gott að eiga góða granna og frænku.

Næstu daga fylgdist ég með fréttum af Heathrow. Það var ekki bara allt í rugli hjá brottfararfarþegum heldur þurftu komufarþegar líka að þola að töskurnar þeirra týndust. Á mánudeginum voru ótal flug felld niður og þá virðist hafa náðst að finna til eitthvað af farangrinum, allavega fékk ég töskuna mína í dag, þriðjudag og allt var á sínum stað þó ég hafi smá áhyggjur af óhreinu fötunum sem hafa fengið að gerjast þarna síðan á föstudaginn.