Þessar löngu ferðasögur sem ég skrifa eru aldrei vinsælustu bloggfærslurnar mínar. En ég veit að það eru nokkrir sem lesa og hafa ánægju af frásagnarstíl mínum. En í þessu ferðalagi sem ég er að skrifa um hér fór sonur minn að tala um það sem ég skrifaði um London-ferðina um daginn. Ég brást við með því að senda honum tengla á eldri ferðasögur mínar þar sem hann var með í för. Þannig að ég er kannski að skrifa fyrir framtíðina. Annars er skrýtið að hafa bloggað í tuttugu ár og eiga allt í einu son sem er farinn að lesa eitthvað af þessu.
Það eru þrjú ár síðan við höfum farið í fjölskylduferð til útlanda. Í þetta sinn ákváðum við að fara til Svíþjóðar. Auðvitað til að hitta Önnu systur. Strákarnir hafa báðir komið þarna áður en hvorugur man eftir því.
Þar sem við hjónin vorum að stíga upp úr veikindum náðum við ekki pæla mikið í hvað ætti að koma með. Daginn fyrir brottför hrúgaði ég saman fötum en tók allt í einu eftir því að stuttbuxurnar mínar voru rifnar (á hliðinni! hvernig gerist það?). Smá skoðun í viðbót leiddi í ljós að ég átti eiginlega engan fatnað sem hentaði til að vera í um eða yfir 18 gráðu hita. Ég dreif mig í búð og keypti föt í flýti og tróð með hinu í töskuna. Engin nákvæmni og alltof mikið af drasli. Eftir að hafa lent að hafa þurft að bíða fjóra daga eftir töskunni frá London vandaði ég mig við að pakka öllu nauðsynlegasta og verðmætasta í handfarangur sem var því líka vel troðinn.
Við lögðum af stað á föstudagsmorgun, 1. júlí. Á flugvellinum náðum við að finna mann frá fyrirtækinu sem ætlaði að þrífa og geyma bílinn okkar á meðan við værum í burtu. Við reyndum að spyrja hann spurninga en hann virtist hvorki tala ensku né íslensku.
Flugið var á góðum tíma. Við þurftum ekki að vakna snemma og það var engin örtröð á flugvellinum. Fátt var eftirminnilegt þarna að mati strákana en spilakassi hjá Elkó hefur verið nefndur nokkrum sinnum.
Við keyptum okkur smá snarl og það leiðir mig að þessu: Skjáir með skyggnusýningum eru ekki ígildi matseðils. Ég vil geta rennt yfir lista í stað þess að stara á skjá í von um að eitthvað spennandi birtist. Ef þið getið ekki sett matseðil á skjá ætti að hafa hann tiltækan í efnislegu formi.
Flugið var óeftirminnilegt. Ég horfði á Shazam! (fín) og nokkra gamla þætti af Simspsons og strákarnir höfðu gaman af sínu skemmtiefni líka. Ég var alveg búinn að steingleyma hve áberandi tvíburaturnarnir voru í New York-þættinum. Homer eyðir heilum degi á torginu milli þeirra. Þegar ég flýg velti ég oft fyrir mér hvernig efnið er valið fyrir þessi tæki. Ég hefði til dæmis haldið að hugrenningartengslin við 11. september væru ekki eitthvað sem þú vildir vekja hjá farþegum.
Við villtumst smá um á Arlanda. Það er merkt vel og vandlega hvar hraðlestin til Stokkhólms er staðsett en skiltin á aðrar lestir benda stundum í mjög villandi áttir. Við fundum þó stöðina á góðum tíma. Við gátum hvergi sest niður af því að ungur maður hafði ákveðið að leggja sig á bekk. Ég spurði Eygló hvort ég mætti vera leiðinlegur við hann til að redda plássi en henni leyst ekki á það.
Þegar við komumst inn í lestina lentum við í veseni af því að þegar við komum að sætisnúmerunum okkar var einhver gaur í einu sætinu. Ég vandaði mig í leikrænum tilburðum að benda á númerin þegar ég talaði við Eygló til að sjá hvort gaurinn fattaði að við héldum að við ættum að vera þarna. Hann sýndi engin viðbrögð þannig að ég hélt að við hefðum kannski farið í rangan vagn.
Við röltum til baka en lestin fór af stað. Ég ákvað að spyrja gaurinn hreint út hvort hann væri kannski í röngu sæti og hann sagðist hafa fært sig þangað.
Sko, ef þú veist að þú ert í röngu sæti og þú sérð fólk sem er að leita að sínu sæti þá lætur þú vita. Ég hef gaurinn líka grunaðan um að hafa verið að borða lyktarsterkan mat og hent umbúðunum í ruslið okkar megin. Hann varð erkióvinur minn um tíma.
Eftir að hafa bakkað til Borlänge tóku Anna og Martin á móti okkur á lestarstöðinni. Þau leiddu okkur yfir götuna þar sem hótelið okkar var staðsett. Það er Best Western hótel kennt við Gustav Wasa. Ég reyndi að nota tækifærið til að upplýsa drengina um söguleg tengsl Íslands við Svíþjóð í gegnum Kalmarsambandið og hvernig þessi Gustav gerði uppreisn gegn því.
Eftir að hafa innritað okkur og komið farangrinum fyrir röltum við með Önnu og Martin inn í bæ í leit að mat. Við enduðum á stað sem heitir Pincho’s (varist rugling við Pitcher’s sem er við hliðina). Á þessum stað eru í boði ýmsir smáir réttir sem pantaðir eru í gegnum forrit sem við gátum líka notað til að borga með í lok máltíðar.
Við pöntuðum hitt og þetta. Ég fékk örlitla steik sem er eiginlega fínn skammtur af kjöti fyrir minn smekk. Eftirminnilegast er samt að Gunnsteinn fékk pínkulitla Margarítu. Flest fengum við okkur ís með karamellusósu og kartöfluflögum í eftirrétt.
Síðan röltum við hægt og rólega heim. Ég var mjög fljótur að rifja upp hugarkort mitt af Borlänge. Lestarteinarnir sem liggja í gegnum bæinn gera rötun merkilega auðvelda og síðan er Kupolen verslunarmiðstöðin alltaf gott kennileiti (þó ég ruglist stundum þegar ég kem út þaðan).
Hótelið var fínt að mestu leyti. Við vorum samt bara á annarri hæð og þar var hávært fólk langt fram á kvöld. Það væri í lagi ef við hefðum ekki þurft að hafa gluggana opna til að kæla niður herbergið.
Það var morgunverðarhlaðborð á hótelinu sem við prufuðum fyrst á laugardagsmorgni. Frekar óspennandi að mestu leyti þannig að ég hélt mig helst við harðsoðin egg.
Fyrsti ákvörðunarstaður dagsins var vísindatæknisetur með svona “plane-erium”. Drengirnir höfðu merkilega gaman af sýningunni enda gerð til þess að fikta. Mér fannst einföldu gripirnir best heppnaðir, sérstaklega þeir sem sýndu hvernig vogarafl virkar sem og hvernig talíur létta á þegar lyfta þarf með reipi. Ég hafði líka gaman af því að öskra í hávaðamælinn og toppa alla aðra sem reyndu. Tækið sem tók upp og spilaði aftur á bak var einfalt en skemmtilegt. Auðvitað sagði ég ítrekað “Red Rum”.
Við höfðum ákveðið að fara á sýningu í “plane-arium”. Við komum í salinn tilbúin að horfa á mynd um sólkerfið okkar. En það var ekki mynd. Það var fyrirlestur með skemmtilegum klippum og myndum. Við sátum eiginlega beint fyrir framan unga manninn sem var að uppfræða okkur á sænsku. Ég hló næstum upphátt þegar þetta byrjaði af því að það var alveg ljóst að þetta væri ekki að ná til drengjanna.
Þó stjörnufræðisænska sé ekki mín sterka hlið reyndi ég að þýða aðalatriðin fyrir Gunnstein sem sat við hliðina á mér. Þegar ég byrjaði að hvísla að honum upplýsingum Ólympusarfjall tók ég eftir því að hann var steinsofandi. Sætin hölluðu líka þægilega aftur á bak. Ingimar sofnaði líka á kafla og síðan varð ég hálfsjóveikur af sýningunni og þurfti að loka augunum þannig að um stund virtumst við þrír líklega vera sofnaðir beint fyrir framan fyrirlesarann. Góður lúr segja strákarnir.
Næsti áfangastaður var heimili Önnu og Martin. Á leiðinni var hitinn um 25 gráður sem er eiginlega of mikið fyrir mig. Ég var farinn að hafa áhyggjur af kæfandi hita alla ferðina en lukkulega var yfirleitt bara 17°-20° á þeim stöðum sem við vorum (nema í rigningu). Samt nógu heitt til að réttlæta regluleg ískaup. Ég var glaður með saltlakkrísísinn sem fékkst út um allt. Spáný tegund.
Við komum við í búð á leiðinni og keyptum okkur eitthvað gott “með kaffinu”. Við höfðum nefnilega áttað okkur á að það var akkúrat afmælisdagur ömmu, það voru 110 ár síðan hún fæddist. Afmæliskaffi var því við hæfi.
Eftir þetta fórum við í ICA-verslunina í Kupolen og kvöddum síðan Önnu og Martin. Við ákváðum að fara á pizzustað í nágrenni við hótelið sem heitir Tre Kronor og var með háa einkunn hjá Google. Akkúrat svona innflytjendastaður sem ég tel höfuðprýði sænskrar matarmenningar.
Drengirnir vildu báðir margarítu þannig að ég ákvað að kaupa eina handa þeim báðum og til þess að vera viss um að það væri nóg bað ég um fjölskyldustærð. Ég fékk kebab en Eygló grænmetispizzu. Afgreiðslumanninum þótti þetta greinilega eitthvað skrýtin pöntun en ég fattaði ekki hvers vegna. Síðan kom fjölskyldupizzan á borðið. Hún var ógnarstór. Með minni hjálp kláraðist hálf pizzan. Við fengum síðan 12″ pizzukassa undir afganginn. Við þurftum að brjóta saman helminginn í fjórðung og þá passaði hún akkúrat. Þannig að ég myndi giska á að þetta hafi verið 24″ pizzu.
Sænska og íslenska eru auðvitað mjög lík mál en stundum er skemmtilegast hvernig sama orðið hefur tvær ólíkar merkingar. Þannig velti ég reglulega fyrir mér hvað Svíarnir héldu þegar ég var að segja strákunum að vera rólegir.
Laugardagskvöldið var hápunktur partístandsins í garðinum. Gluggarnir voru nærri lokaðir og ég vaknaði um miðja nótt, ekki við partí heldur var ógeðslega heitt í herberginu. Ég var lengi að sofna þannig að ég var ekki upp á mitt besta á sunnudeginum.
Við strákarnir slepptum morgunmatnum á hótelinu á sunnudagsmorgun en þegar Eygló kom aftur hvellsprakk halógen-pera í náttborðslampanum með þeim afleiðingum að rafmagnið fór. Halógen-perur voru alltaf slæm hugmynd.
Strákarnir okkar hafa alist upp við þá staðreynd að það sé ekkert McDonald’s á Íslandi. Þeir hafa aldrei farið þangað (nema Gunnsteinn mögulega pínulítill). Ég hef einu sinni á ævinni farið á McDonald’s að eigin frumkvæði og fékk þá vondan hamborgara. Ég hef farið nokkrum sinnum síðan en þá alltaf með einhverjum sem vildi fara.
Við völdum McDonald’s í Kupolen frekar en McDonald’s hinum megin við bílastæði. Ég ákvað að prufa McNuggets í fyrsta sinn. Ingimar fékk Happy Meal. Allt voða spennandi í útlöndum. Næst skulum við banna M&M.
En ég varð mér til skammar þegar við vorum að panta drykki/eftirrétti. Drengurinn í afgreiðslunni var ekki rosalega skarpur og þegar ég fékk mitt var það vitlaust. Það er engin afsökun en ég var dauðþreyttur og pirraður þannig að ég byrsti mig á hann þegar hann hélt því fram að ég hefði pantað það sem ég fékk.
Ég er mjög óvanur að missa svona stjórn á skapi mínu. Ég fékk rétta drykkinn en var sannfærður um að gaurinn hefði hrækt í hann og var jafn sannfærður um að ég ætti það skilið. Ég lét drykkinn því ódrukkinn. Reyndi að fara að biðjast afsökunar en það var alltof mikið að gera þannig að ég þurfti bara að skammast mín í hljóði.
Við fórum í nokkrar búðir í Kupolen. Í leikfangaverslun fann Ingimar skemmtilegan kremjubolta en ég fann Prúðuleikara-Legó og hóf atlögu að því að reyna að fá Gonzo. Ég rakst á sömu poka í öðrum verslunum í ferðinni og að lokum hafði ég einhvern veginn ná að kaupa mér tíu blindpoka af Legó án þess að finna þann rétta. Við strákarnir komum okkur fljótlega aftur á hótelið þannig að við gátum aðeins hvílst.
Kvöldmaturinn var á stað sem er oft kallaður sá besti í Borlänge og heitir Basta. Ítalskur staður með “alvöru” ítölskum pizzum. Strákarnir voru ekkert rosalega hrifnir af því. Of mikil sósa, of lítill (og ekki góður) ostur.
Á leiðinni heim kíktum við inn í stóra sælgætisverslun. Þar var mikið val um nammi og þar að auki Pokemon-spjöld og Pop-fígúrur. Strákarnir enduðu með risasleikjóa.
Á mánudaginn var byrjað á að heimsækja IKEA til að fá ekta sænska máltíð. Ég reyndi að sannfæra drengina um að Svíarnir yrðu allir sármóðgaðir ef þeir myndu ekki fá sér kartöflustöppu, lyngonsultu og baunir með. Þeir voru ekki sannfærðir.
Þegar við vorum að panta umræddar kjötbollur fór stúlkan í afgreiðslunni að rökræða heilmikið við Eygló um hvort við vildum örugglega ekki kartöflustöppu og útlistaði fyrir okkur vel og vandlega að við fengjum sko ekki afslátt. Í miðjum klíðum spyr strákurinn okkur: “Eruð þið frá Íslandi?” Ég yfirheyrði hann ekki um uppruna hans en hann talaði mjög góða íslensku þó hreimurinn væri vissulega til staðar.
Eftir þetta fór ég að redda hengilásum á meðan restin af fjölskyldunni skoðaði hvort IKEA í Svíþjóð væri öðruvísi en á Íslandi. Strákarnir redduðu sér líka 13 blýöntum í einhverjum leik.
En aðalskemmtun dagsins var Aqua Nova, lítill sundlaugagarður. Ég lenti í smá veseni með að koma okkur á áfangastað af því að við þurftum að krækja fyrir framkvæmdir. Þetta var reyndar ekki mjög stór krókur.
Ég fór með strákana að búningsklefunum og akkúrat þegar við komum var einhver að koma út. Ég greip hurðina og við drifum okkur inn. Á meðan við vorum að klæða okkur úr nefndu drengirnir að það væri nú heppilegt að við værum einir þarna. Þegar við ætluðum að fara í sturtu lentum við á læstri hurð. Skrýtið en ég gat snúið litlu handfangi og við komumst í gegn.
Þegar við komum að sturtunum sáum við að það var enginn staður til að geyma handklæði. Við ákváðum því að fara með handklæðin aftur í skápinn. Þá var hurðin læst og ekkert handfang til að opna. Við sáum líka skilti sem upplýsti okkur um að búningsherbergið okkar væri bara fyrir meðlimi. Ekki skrýtið að það hafi verið rólegt þarna. Ég laumaði handklæðunum okkar í tóman skáp og við komum okkur út (sturta fyrst).
Um leið og út var komið var fossinn fyrsta “laugin”. Við komum okkur ofan í. Það var töluverður straumur þar og hindranir á leiðinni. Við komumst niður frekar ósködduð. Ingimar fór síðan einn í fossinn áður en við tókum eftir að 12 ára og yngri ættu ekki að fara þarna ein. Mig grunar reyndar að það sé vegna þess að sundkunnátta er ekki almenn í Svíþjóð en Ingimar er flugsyntur eftir námskeiðin í vetur.
Strákarnir fóru í rennibrautirnar aftur og aftur og náðu að plata Eygló með nokkrum sinnum. Anna systir hafði lýst fyrir okkur einni brautinni sem stórhættulegri af því að hún var svo þröng og hröð. Við fengum sögu af manni sem þurfti að troða sér framhjá stelpu sem hafði náð að stoppa sig í hræðslukasti. En það var greinilega komið betra kerfi. Ég áttaði mig á því meðan ég beið eftir strákunum. Það var lítil stelpa sem stór við bakkann á þeirri braut og beið eftir einhverjum. Ég benti henni á að fara út um hliðið og þá liðu ekki nema nokkrar sekúndur áður en systir/mamma hennar kom.
Þeir fóru oftast í breiða rennibraut þar sem hægt var að fara niður á “kleinuhringjum” en best þótti þeim “Svartholtið” sem var alveg myrkvuð nema að á köflum komu glitrandi ljós sem voru eins og stjörnur. Uppáhaldslaugin mín var einföld útivið með straum meðfram bakkanum þannig að ég gat látið mig fljóta, yfirleitt rólega, í hring eftir hring.
Það var ekki langt í kvöldmatartíma þegar við komum uppúr og röltum aftur að hótelinu. Við ákváðum öll saman að það væri fín hugmynd að strákarnir myndu bara fá Subway á leiðinni og við foreldrarnir færum á veitingastaðinn sem er sambyggður hótelinu.
Þegar ég fór að skoða matseðilinn á þessum stað runnu á mig tvær grímur. Staðurinn heitir “Broken Dreams” en matseðillinn bara á sænsku. En það sem mér fannst besta vísbendingin um að staðurinn væri ekki fyrir mig var að það var ekki bara nafn og lýsing á réttunum heldur einhver saga um réttinn. Mér þykir það bara fráhrindandi. Eygló skoðaði hvað var í boði og var sammála.
Við leituðum að öðrum valkosti og enduðum á innflytjendastaðnum Rhodos sem var með eiginlega allt það sama og hinir slíkir staðir að viðbættum grískum réttum. Þannig að ég pantaði mér gyros. Mjög fínt alveg. Strákarnir lifðu líka af að vera tveir saman á hótelherbergi í klukkutíma.
Þriðjudagurinn var brottfarardagur. Anna hitti okkur áður en við fórum. Við komumst að því að hún hafði einmitt ætlað á veitingastað brostinna drauma fyrir einhverjum mánuðum en varð líka fyrir vonbrigðum þegar hún sá hve tilgerðarlegur matseðill var orðinn.
Dómur drengjanna var að það hafi verið best að fara í Aqua Nova, vísindasetið og hitta Önnu og Martin.
Lestarferðin til Stokkhólms var óeftirminnileg. Á lestarstöðinni keyptum við strax vikukort í almenningssamgöngur. Við komum okkur á T-Centralinn og tókum tunelbanann í átt að hótelinu. Ég verð að segja að það er erfitt að nota þessar lestir fjögur saman. Ef það eru laus fjögur sæti saman er alltaf keppni meðal farþega að ná sæti sem snýr í akstursstefnu. Ég er ekki að ýkja að ég hafi ítrekað séð hálfu vagnanna þar sem voru örfáir farþegar og allir með þrjú sæti laus í kringum sig.
Hótelið okkar var Sky-Hotel Apartments. Við vorum þar í stúdíóíbúð með ísskáp og eldunaraðstöðu. Strákunum þótti þetta betri aðstaða en Borlänge þó þeir hafi rifist töluvert vegna þess að þeir deildu rúmi. Ásakanir um sængurstuld gengu á víxl og umdeilt hvort það sé verra að stela sæng óvart í svefni eða viljandi vakandi.
Það var veitingastaður örstutt frá hótelinu sem heitir Marino’s og er, enn og aftur, týpískur innflytjendastaður með kebab, pizzur og pasta. Mjög fínt. Aðspurðir um álit gáfu drengirnir fyrst tvo þumla upp hvor og reyndu síðan að bæta við aukatám og fingrum.
Síðan var bara að versla í ICA-Maxi sem var aðeins lengra í burtu en veitingastaðurinn. Okkur þótti misgaman af því að rölta um búðina. Eygló finnst svoleiðis stórskemmtilegt og ég hef alveg gaman af því líka. Strákarnir voru ekki jafn glaðir, sérstaklega ekki þegar mamma þeirra þurfti að skoða eitthvað mjög vandlega.
Það var ekkert meira afrekað á þriðjudeginum. Höfðum það bara kósí á hótelinu sem var mjög auðvelt að kæla með því að opna glugga. Umferðarhljóðin voru líka mun þægilegri en fulla fólkið.
Ég hef lengi verið spenntur fyrir því að fara til Birka. Það er staður á eyju þar sem var stór verslunarstaður frá áttundu fram á tíundu öld. Þar hefur fundist mikið af fornminjum og þá sérstaklega í þeim mörgu grafhaugum sem þar finnast. Þar sem staðurinn er á eyju í nokkurri fjarlægð frá Stokkhólmi bókuðum við siglingu þangað með leiðsögn á miðvikudaginn.
Við komum okkur í bátinn og hófum tveggja tíma siglingu. Ég byrjaði fljótlega að tortryggja leiðsögumanninn. Það sem ég þekkti til af sögunum hans var alltaf aðeins skekkt.
Við drifum okkur í leiðsögn um svæðið strax og við komum. Við vorum með sama leiðsögumann og í bátnum. Eftir á sagði Gunnsteinn að það hefði verið gaman að heyra hann tala og láta mig síðan útskýra hvað hefði verið rangt hjá honum.
Gaurinn þekkti greinilega ágætlega til fornleifafræði en mjög yfirborðskennda þekkingu á menningu og sögu. Útskýringar hans á orðsifjafræði orðsins víkingur var til dæmis mjög vafasöm og lýsingar hans því hvernig það var notað á víkingatímanum beinlínis rangar.
Ég var næstum farinn út í að vera leiðinlegur þegar hann sagði að orð víkinga um Miklagarð væri vísun í norræna orðið fyrir bóndabæ. Það leiddi mig reyndar í pælingar um hvað orðið sjálft þýddi. Ég hef alltaf hugsað að “garður” vísaði í varnarveggi en fór allt í einu að hugsað að það vísaði kannski frekar í afmarkaða svæðið.
Ég gerði þau mistök að nefna þessar pælingar á Twitter og fékk nokkur góð svör en líka athugasemdir sem gerðu ráð fyrir að ég vissi nákvæmlega ekkert um efnið og nokkrar sem fullyrtu hluti sem ekki er hægt að vita fyrir víst. Ég fell einstaka sinnum fyrir þeirri hugmynd að vandað orðalag í tísti komi í veg fyrir svona en það er ekki þannig. Stundum langar mig næstum að botna ákveðin skrif með vísun í að ég hafi háskólamenntun á sviðinu til að sleppa við óþarfar athugasemdir.
Síðasta stoppið á leiðsögninni var sá haugur sem er í dag sá frægasti í Birka. Þar hvíldi hin svokallaða “víkingastríðskonan”. Sumsé, þarna fannst, fyrir meira en öld, beinagrind og vopn með. Það var strax ályktað að þarna væri stríðsmaður.
Síðan gerðist það fyrir nokkrum árum að einhver tók eftir því að beinin bentu til þess að þessi einstaklingur hafi eignast barn. Það var síðan staðfest með genarannsóknum. Í kjölfarið var skrifuð mjög fræg grein þar sem var fullyrt að þetta hefði verið stríðskona. Auðvitað eru mistökin sú að treysta upprunalegu greiningunni. Þú getur ekki fullyrt að einstaklingur sem finnst með vopn hafi tekið þátt í bardögum. Það væri til dæmis miklu betra að finna gróin sár á beinum.
Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið konur sem hafi barist á víkingaöld. Ég er að segja að þessi túlkun sé ekki sjálfgefin. Miðað við vísbendingarnar myndi ég frekar giska að konan hafi frekar verið mikilvæg, jafnvel höfðingi, heldur að hún hafi tekið þátt í bardögum. En það selur að koma með stórar yfirlýsingar.
Við fórum líka á “safnið” í Birka. Það var ekki safn. Það voru eiginlega engir alvöru gripur. Ég myndi kalla þetta, í besta falli, einhverskonar fræðslusetur.
Þessi ferð tók næstum allan daginn. Mér þótti merkilega lítið að sjá en aftur á móti var fallegt þarna. Okkur Ingimari tókst samt báðum að brenna okkur á netlum. Fyrsta skiptið hans og fyrsta skiptið mitt í áratugi. Ingimar var öllu hrifnari að því að sjá vatnaliljur í eigin persónu og náði að veiða eitt laufblað og nota það sem hatt.
Í Stokkhólmi gripum við kvöldmat á öðrum innflytjendastað sem Ingimar elskaði af því að hann fékk risastóran skammt af frönskum en ég þoldi illa af því að steikingarlyktin var kæfandi.
Við ákváðum að byrja fimmtudaginn á safnaferðum þar sem spáin var ekki nógu góð. Við blotnuðum líka vel og vandlega á leiðinni úr sporvagninum inn á Vasasafnið.
Drengirnir voru ekki jafn spenntir fyrir skipinu og ég hefði vonað. Þeim fannst það vissulega flott en voru kannski ekki í réttu stuði. Við vorum því ekki nema í mesta lagi tvö klukkutíma þar. Ingimar féll fyrir flöskuskipsútgáfu af Vasa í gjafabúðinni og við keyptum það fyrir hann.
Hádegismaturinn var á McDonald’s. Ég var mjög ánægður með að geta bara pantað í sjálfsafgreiðslutölvu. Miklu rólegra og ég gerði mig ekki að fífli. Á öllum þessum McDonald’s ferðum voru drengirnar voru að metast um hvort Daim eða Oreo McFlurry væri betri. Þeir prufuðu báðir báðar tegundir. Ingimar fílaði Oreo en Gunnsteinn Daim.
Eftir mat röltum við inn á Gamla Stan í helliriginingu. Áfangastaðurinn var lítið safn sem fólk missir oft af. Það er í höllinni og heitir Livrustkammaren en ég kalla það yfirleitt búningasafnið. Það tilheyrir ekki aðalsýningunni í höllinni og það er meira að segja ókeypis inn.
Á þessu safni eru föt og brynjur kóngafólksins. Þarna eru meðal annars föt sem tveir kóngar klæddust þegar þeir voru drepnir. Það var líka eitthvað Manga dæmi með teikningum af kóngafólkinu í búningunum. Ingimar féll alveg fyrir þeim og fékk að lokum ísskápssegul með mynd af Óskari fyrsta. Eftirminnilegustu gripirnir að mati strákana var gullbrynja fyrir hest og mann (notuð við útför konungs) og undarlegur hjálmur með andliti og áberandi yfirvaraskeggi. Þeim fannst líka gaman að prufa búninga. Síðan þótti öllum skemmtilegt að skoða vagna kóngafólksins í kjallaranum, bæði dagsdaglegu farartækin sem og krýningarvagnar.
Þetta var skemmtun fyrir alla fjölskylduna og næstu daga gat ég vísað í það sem strákanir sáu þarna þegar ég var með einhverja sögulexíu.
Lokaáfangastaður dagsins var síðan uppáhaldsbúðin mín í borginni, SF Bokhandeln (þar fékk ég áritun frá Neil Gaiman fyrir átta árum). Ég keypti fjölskylduhlutverkaleikinn Mausritter og Ingimar fann bjölluhnapp með óhjóðum til að nota við að spila Exploding Kittens. Ég hefði getað eytt miklum tíma þarna en allir voru frekar þreyttir þannig að við komum okkur fljótlega heim á hótel.
Veðurspáin fyrir föstudag var góð þannig að við ákváðum að fara í Gröna Lund. Það var reyndar vesen að kaupa miða á netinu þannig að við þurftum að kaupa á staðnum. Sumir fóru í margar ferðir og aðrir biðu yfirleitt með stafla af töskum í kringum sig.
Veðurspáin gekk ekki alveg eftir. Það byrjaði að hellirigna. Ekki í smá tíma heldur í hátt í klukkustund. Við ákváðum samt að halda áfram og fórum í röð í “bláu lestina” sem er gamaldags draugahús. Það var merkilega skemmtilegt. Best var samt þegar það kom upp eldgusa og ég reyndi að komast nær enda gegnblautur og kaldur.
Fyrir 16 árum fórum við Eygló í Gröna Lund með þjóðfræðinemum og ég eyddi tíma mínum umkringdur bakpokum og veskjum. En ég fór samt í skrýtna húsið. Þar er speglasalur, skökk herbergi, gangur sem virðist snúast og endapunkturinn er fljúgandi teppi (rennibraut þar sem þú situr á teppi). Árið 2006 lenti ég í því að setjast eitthvað vitlaust á teppið þannig að annar sandalakæddur fótur minn var fyrir framan teppið og núningsbrann á niðurleiðinni. Myndin af okkur þar er glæsileg enda var ég að öskra af einskærum sársauka.
Við ákváðum að fara aftur núna. Húsið skemmtilegt og þegar kom að teppið ákvað ég að fara með Ingimar. Þegar ég sest á teppið og horfi niður fæ á smá óþægilega tilfinningu og fer að hugsa að ég sé of gamall fyrir þetta. Síðast sest Ingimar á mig áður en ég er búinn að koma mér fyrir þannig að við erum í asnalegri stellingu. Mér brá aðeins hve hratt við fórum niður þannig að myndin af okkur feðgum er frekar skemmtileg. Á hinni myndinni var Eygló öskrandi meðan Gunnsteinn var ógnarsvalur og rólegur með sólgleraugu. Við keyptum myndirnar.
Rétt áður en við fórum út ákváðu drengirnir að þeir vildu taka þátt í lukkuhjóli þar sem hægt var að vinna risastóran kassa af Daim (eða Toblerone en það þótti ekki spennandi). Við ákváðum að kaupa þannig að við værum með fimmtán númer af hundrað. Ég var alveg tilbúinn að takast á við grát og gnístran tanna og kenna þeim verðmæta lexíu en síðan unnu þeir bara tvö kíló af Daim og voru rosalega glaðir. Þetta leiðir mögulega til fjárhættuspils seinna á ævinni.
Eftirminnilegast þótti strákunum að fara í Twister, Villtu músina (sem minnti þá Roblox tölvuleiki) og að hlusta á mömmu sína öskra í tækjunum.
Gunnsteinn hafði farið í flest öfgakenndu tækin af öllum og á leiðinni heim var hann aðeins farinn að grænka. Fyrst var það strætó á T-Centralen og síðan neðanjarðarlestin.
Þegar við vorum komin svona hálfa leið að stöðinni okkar segir Gunnsteinn að hann vilji fara út. Ég segi við hann að það sé nú betra að halda áfram nema að hann sé að fara að gubba. Hann gaf í skyn að ælan væri á leiðinni þannig að við hoppuðum út. Hann gubbaði strax og hann kom út, lagðist á bekk og endurtók uppsölurnar nokkrum sinnum í viðbót.
Þegar ég leit við og í kringum mig var ég hissa að sjá hvorki Eygló né Ingimar. Þau höfðu sumsé, að eigin sögn, ekki verið nógu snögg út og héldu því bara áfram á leiðarenda. Mig grunar að þau hafi bara viljað nota tækifærið til þess að taka sætin okkar svo þau þyrftu ekki að bakka á áfangastað.
Á meðan ég beið eftir að Gunnsteinn jafnaði sig stóð ég vörð þannig að enginn myndi stíga í gubbið. Að lokum birtist starfsmaður og ég þurfti að útskýra stöðuna fyrir honum. Hann virtist ekki glaður með þetta en hafði samband við einhvern í gegnum talstöðina.
Á sama tíma byrjaði Gunnsteinn að jafna sig og fór að hlæja að sjálfum sér. Ég bað hann um að gera það ekki fyrir framan grey starfsmanninn. Við gripum næstu lest og komumst alla leið á okkar stöð þar sem Ingimar og Eygló biðu.
Ég var búinn að tannbursta og koma mér upp í rúm þegar brunakerfið á hótelinu fór af stað. Ég ákvað að fara í buxur og leit fram á gang sem var að fyllast að öðrum óákveðnum gestum að kíkja út. Engin brunalykt. Við vorum ekki mjög snögg út en komum okkur samt.
Úti við sýndi ég gott fordæmi og kom okkur yfir götuna til að gefa slökkviliðinu pláss til að athafna sig. Flestir fylgdu með. Slökkviliðið var svona fimm eða tíu mínútur að komast að þeirri niðurstöðu að það væri enginn eldur. Svona er þetta víst bara á hótelum þar sem gestum er treyst fyrir eldunaraðstöðu. Drengjunum fannst þetta að lokum bara spennandi viðburður. Við sofnuðum óvenju seint þetta kvöld.
Við vorum ekki snögg út á laugardagsmorgun. Fyrsti áfangastaðurinn var Þjóðminjasafnið. Ég var búinn að gleyma því hve ofhlaðið safn það er. Við þurfum ekki tíu gripi sem eru eiginlega eins. Það var smá hjálplegt að geta notað upplýsingaskjái til að fá fróðleik um gripina. En það var oft þannig að það stóð ekki einu sinni hvar gripurinn fannst eða frá hvaða tíma hann væri.
Ekki góð framsetning.
Það var hins vegar góð framsetning á sumum rúna- og myndasteinum, sérstaklega Stora Hammars III þó það hafi ekki verið sjáanlegar frekari upplýsingar um þessa steina. Það var skjávarpi notaður til þess að sýna betur myndirnar. Ekkert flókið, bara svart þar sem grár litur er núna. Síðan voru líka notaðar skuggamyndir til að sýna ákveðna hluta betur og jafnvel hreyfa þá til. Strákunum þótti það líka flottast.
Ég var löngu búinn að ákveða að skoða bara víkingaöldina og síðan vonaði ég að gullherbergið væri spennandi fyrir strákana en þeir voru ekki alveg nógu hressir þar.
Hvar var borðað í síðbúinn hádegismat? McDonald’s. Hvað borðaði ég. McNuggets (eina spurningin hvort þær væru sterkir eða ekki).
Við komum okkur næst á Skansen og skoðuðum aðallega dýrin. Elgurinn var merkilega góður að fela sig en birnirnir voru að njóta lífsins. Ég náði að gera Ingimar spenntan að sjá jarfa og svo vel vildi til að dýrið sýndi sig vel og vandlega. Ég held að það hafi ekki gerst í fyrri heimsóknum mínum þar. Gaupan náði hins vegar að fela sig jafnvel og elgurinn.
Lokapunkturinn var að fara að skoða lemúra, bavíana, dvergapa og síðan litla sædýrasafnið. Líklega var kúbverski krókódíllinn mest spennandi en hann hreyfði sig ekki úr stað þó hann hafi nú opnað auga til að skoða okkur. Á leiðinni út klöppuðum við strákarnir slöngu en létum kóngulóna vera.
Allir nema ég voru sáttir við snarl í kvöldmatinn. Þau hin borða greinilega nógu vel á McDonald’s en ég fékk mér ekki mikið. Ég tók því á mig að rölta í ICA til að kaupa vistir og greip pizzu á Marino’s. Þar fékk ég skilaboð um að fjölskyldan hefði aftur þurft að fara út vegna brunabjöllu. Þau voru komin aftur inn þegar ég kom. Brunaútköll verða ekki meira spennandi eftir því sem þau eru endurtekin oftar.
Sunnudagurinn var síðasti heili dagurinn. Við vorum ekki rosalega hress þannig að við fórum frekar seint af stað.
Upprunalega markmið dagsins var að taka hádegisverð í IKEA. Við fórum því í Gallerian en þá kom í ljós að það var ekki hægt að panta nákvæmlega það sem Ingimar vildi. Þannig, að tillögu Gunnsteins, fór að síðbúni hádegismaturinn var á Pizza Hut.
Ég ætlaði að prufa að nota vefinn þeirra til panta og síðan appið en hvorugt virkaði. Þannig að ég fór bara í afgreiðsluna þar sem lærlingur afgreiddi mig, hann missti alveg af því að ég bað um bolognese og rukkaði mig of mikið fyrir matinn hans Ingimars.
Þegar maturinn hennar Eyglóar kom ekki varð ég smá stressaður að þurfa að kvarta eftir að hafa verið svona ömurlegur á McDonald’s viku fyrr en það reddaðist.
Áfangastaðurinn var tæknisafnið. Á leiðinni tók ég eftir því að hinum megin við götuna var “etnógrafíska safnið” og í gríni stakk ég upp á að fara þangað í staðinn. Eygló spurði hvað væri þar. Ég svaraði að þær væru gripir sem hefði verið stolið héðan og þaðan úr heiminum. Eygló: “Þú hefur einmitt svo gaman af svoleiðis”.
Skák og mát.
Tæknisafnið var alveg ágætt. Sumt var mjög flott og annað frekar óspennandi. Mér þótti það fulláberandi að sýningarnar voru styrktar af ákveðnum fyrirtækjum þannig að þeirra tæki voru settir í sviðsljósið. Á svona safni hefði ég reyndar haldið að merkasta framlag Svía til tölvualdarinnar væri áberandi en ég sá hvergi talað um Linux (hefðu væntanlega þurft að borga til að vera með). Drengirnir voru auðvitað glaðastir með tölvuleikjasýninguna. Þar var reyndar mikil áhersla á sænska leiki (sumir greinilega styrktaraðilar) en ég fékk að spila Space Invaders í spilakassa.
Það var líka “náma” þarna sem var mjög dimm og Ingimar leysti það með því að kveikja á símaljósinu. Gunnsteini þótti það hálfgert svindl og ganga gegn tilgangi svæðisins. Í kjölfar námunnar var hægt að spila tölvuleik sem minnti töluvert á Boulder Dash, bara ekki jafn skemmtilegur.
Á neðstu hæðinni var svæði til að mæla líkamlegan styrk og sveigjanleika. Mig langaði í svigherminn (skíði sumsé) en það sátu margir um hann. Ég virðist líka vera með sterkt grip miðað við mælingar. Síðan var róðrarkeppnistæki þar sem ég keppti bæði við Gunnstein og Eygló, sigraði bæði, en fékk áminningu um að stóri strákurinn minn er ekki svo lítill lengur. Það munaði bara sekúndubrotum á mínum besta tíma og hans.
Við breyttum til á heimleiðinni og tókum McDonald’s með okkur á hótelið frekar en að borða á staðnum. Ég náði að verja McFlurry’ið á leiðinni þó Ingimar hafi gert góða tilraun til að kýla pokann óvart þar sem hann sveiflaði handleggjunum.
Enginn hafði orku til að gera nokkuð á mánudagsmorgun. Við tókum til og pökkuðum áður en við yfirgáfum hótelið (og töskurnar okkar í geymslunni). Afrek mitt var að koma stóra Daim-kassanum ofan í töskuna mína. Við röltum að leikvelli í nágrenninu. Ingimar hafði gaman af því að klifra og Gunnsteinn sýndi meira að segja smá lit þó hann telji sig augljóslega alltof fullorðinn fyrir svona.
Síðasta máltíðin í Stokkhólmi var á Marino’s. Gunnsteinn lýsti yfir að pizzan þar hafi verið besta máltíð ferðarinnar. Eftir það var bara að koma sér á hótelið og draga farangurinn á neðanjarðarlestarstöð og í Arlanda Express af T-Centralinn. Strákarnir segja mér að það hafi verið barn að stara á þá á leiðinni. Gunnsteinn kallaði barnið sætt en Ingimar sagði að það hefði verið hræðilegt.
Vegna einhverra öryggisráðstafanna gat lestin ekki stoppað við okkar álmu þannig við þurftum að labba í svona fimmtán mínútur til að komast á réttan stað. Það var allt hægvirkt þarna en ég gat alltaf hugsað um Heathrow sem róaði mig. Allt betra en það. Auðvitað er erfiðara að gera þetta með fjölskylduna en samt betra yfir heildina.
Í flugvélinni tókum við strákarnir okkur til og horfðum saman á Free Guy. Við samstilltum okkur og það þurfti nokkrar tilraunir til að vera nokkurn veginn á sama tíma í myndinni. Hún er ennþá nokkuð góð skemmtun.
Ég fann ekkert til að horfa á sem passaði fyrir þennan rétt rúma klukkutíma sem var eftir af fluginu. Mér datt í hug að horfa á mynd sem ég hefði séð það oft að það væri í lagi að missa af endinum.
Þó ég hafi ekki séð Lethal Weapon í nær tvo áratugi sá ég hana nógu oft þar áður til að sleppa endinum. Þegar myndin byrjaði var varað við að myndin hefði verið klippt til, bæði hlutföll og efni, til þess að hægt væri að sýna hana í flugvél. Síðan byrjaði myndin. Hún passaði ekki á skjáinn í níu á móti sextán. Hún var eiginlega hærri en hún var breið. Í besta falli einn á móti einum. Ég tók mynd af skjánum en lét vera að horfa á þennan glæp gegn kvikmyndalistinni.
Eftir að hafa beðið í fjóra daga eftir að fá töskuna sem ég var með í London var ég mjög taugastrekktur við farangursbandið. En það kom allt. Ég hugsaði samt, sem fyrr, að ég þyrfti að spreyja þessar svörtu ferðatöskur sem við eigum með áberandi lit svo hægt sé að þekkja þær án þess að líta á merkimiðana.
Við þurftum að fara af komusvæðinu yfir á brottfararsvæðið til að ná í bílinn okkar. Þar sat hann einn og yfirgefinn, í gangi, með opinn glugga, á svæði sem hefði verið hægt að sekta okkur fyrir að vera of lengi á. Ég er ekki spenntur að nota þessa þjónustu aftur.
Það var rosalega gott að komast heim. Góð sturta. Gott rúm.