Veggspjald myndarinnar Windows.

Kvenhatarar og blóðþyrstu lesbíurnar þeirra

Ég væri til í gagnasafn með dagskrá sjónvarpsstöðvanna hér á árum áður. Í staðinn dunda ég mér að skoða þetta á Tímarit.

Ég rakst á eftirfarandi lýsingu á kvikmyndinni Windows (1980) og fannst hún áhugaverð. Miðað við að flest blöð birtu nokkurn veginn þennan texta geri ég ráð fyrir að þetta hafi komið svona frá Stöð 2.

Gluggagægir. Windows. Spennumynd sem fjallar um Andreu, blóðþyrsta lesbíu, sem fellir hug til ungrar hlédrægrar nágrannastúlku sinnar. Þegar unga stúlkan verður fyrir barðinu á óþekktum árásarmanni leitar hún á náðir Andreu, sér ómeðvituð um hvaða mann hún hefur að geyma. Lögregla nokkur fær veður af árásinni og hefur þegar rannsókn málsins. Unga stúlkan vekur hrifningu hans, en þegar lesbían kemst á snoðir um það fyllist hún öfund og afbrýðisemi. Aðalhlutverk: Talia Shire og Elizabeth Ashley. Leikstjóri: Gordon Willis. United Artists 1980. Sýningartími 95 mín. Ekki við hæfi barna.

Sumt fólk var greinilega ekkert hrifið af myndinni. Í DV stendur til að mynda:

Mynd þessi á að heita þriller. Maltin segir hana afturhaldssama og móðgandi og honum er um megn að skilja hvers vegna hún var yfirhöfuð framleidd.

Leonard Maltin fær prik fyrir þetta ásamt þeim sem laumaði þessu inn.

Pressan var ekki svona örlát. Dómurinn þar var:

Algjörlega misheppnuð mynd um blóðþyrsta lesbíu sem girnist hlédrægan nágranna sinn. Þessi mynd hefur líklega verið gerð af illa upplýstum kvenhatara. Eini dularfulli punkturinn við myndina er hvers vegna hún var yfirleitt gerð. Alls ekki við hæfi barna (og varla þenkjandi fullorðinna heldur).

Fyrir utan „blóðþyrstu lesbíuna“ verður að segja að samúð áhorfenda fer æ þverrandi þegar kemur að lögreglumönnum sem verða ástfangnir af fórnarlömbum glæpa sem þeir eru að rannsaka.