Being There (1979) 👍👍🖖
{64-ø-ø-17}

Ætli ég hafi ekki séð Being There 25. nóvember 1994. Gott að geta fletta því bara upp í dagskránni. Það var mánaður tileinkaður Peter Sellers á Stöð 2. Líklega hefur hún verið valinn af því að Forrest Gump var oft líkt við myndina. Ætli ég hafi ekki sé Gump fyrst? Allavega er líklegt að ég hafi komið mér til Reykjavíkur fljótlega eftir að myndin var frumsýnd í október.

Það er gott að láta eins og Being There hafi verið síðasta mynd Peter Sellers. Það kom önnur út stuttu eftir dauða hans en hún er best gleymd.

Ég mun höskulda. Þessi mynd kom út árið sem ég fæddist. Ef þið hafið ekki séð hana ættuð þið kannski að stoppa hér. En ég mæli með henni.

Chance er einfaldur garðyrkjumaður sem skilur heiminn í gegnum sjónvarpið og plöntur. Hann neyðist til að flytja að heiman. Einfaldleikinn í tali hans er talinn bera vott um dýpt og hann kynnist valdmiklu fólki.

Myndin er á svipuðum slóðum og A Face in the Crowd með Andy Griffith (vel þess virði að sjá, Matlock sem skíthæll er skrýtið) þó Chance sé auðvitað ekki undirförull og slægur. Tengingin er auðvitað þessi einfalda speki sem Bandaríkjamenn virðast dýrka enn þann dag í dag.

Chance virkar eins og spegill. Óljós tjáning hans er túlkuð sem samþykki á skoðunum þess sem hlustar eða gagnrýni sem passar við eigin efasemdir. Á sínum tíma fannst mér myndin vissulega fyndin en það sem ég sé í dag er að hún er líka ádeila á ástríðu Bandaríkjamanna fyrir viðskiptum og einkaframtakinu. Það er fólkið sem fellur fyrir speki Chance.

Fyndnustu línur myndarinnar á ráðskonan Louise þegar hún sér þennan einfalda dreng sem hún ól upp í sjónvarpinu og hvernig spjallþáttastjórnandinn og áhorfendur láta eins og hann sé djúpvitur.

Peter Sellers er ekki í stellingu gamanleikarans. Persóna hans skilur nær ekkert hvað er á seyði og nennir því varla. Það sama gildir um flesta leikara myndarinnar með ákveðnum undantekningum, það eru Shirley MacLaine og Jack Warden (forsetinn).

Also Sprach Zarathustra atriðið er mjög skemmtilegt. Gunnsteinn sá þetta í réttri röð, ólíkt mér. Fyrst 2001 og síðan þessi. Samt Barbie alveg fyrst sem er órökrétt.

Mér þótti Being There miklu betri í dag en þegar ég sá hana fyrst. Hún á líka betur við núna. Dýrkun á einfeldni er í tísku. Það er bannað að vera vel upplýstur („woke“ – það er það sem orðið merkir). Ef ég hefði átt að slumpa á einkunn þá hefði ég gefið henni einn þumall upp áður en ég sá hana aftur en núna er hún hiklaust tveir þumlar upp og klassík.

Ég veit ekki hvað mér á að þykja um lokaatriðið. Kannski ætti ég að lesa bókina.

En atriðið yfir lokatitlunum er ógurlega fyndið og hjartnæmt í ljósi andláts Sellers.

Viðbót

Ég gleymdi að nefna að Maltin gefur ★★½ og segir Being There of langa.