Ég sá þessa mynd of ungur. Hve ungur veit ég ekki. Ég held að ég hafi séð hana þegar ég bjó í Melgerði og uppfletting bendir til þess að það sé rétt hjá m´ér (nema að mig misminni hvenær við fluttum þaðan). Fílamaðurinn var á dagskrá Sjónvarpsins þann 25. janúar 1986. Rúmri viku áður en ég varð sjö ára.
Myndin hræddi mig. Ekki útlitið á aðalpersónunni. Mér þótti hann þvert á móti miklu meira ógnvekjandi með þennan hauspoka. Upphafsatriði myndarinnar festist í mér í mörg ár. Það eru fílarnir og mamman. Það er frekar Lynch’ískt atriði. Hann nær að lauma nokkrum slíkum inn í mynd sem er að mörgu leyti „hefðbundin“.
Mig langar að segja að myndin hafi, ólíkt mér, ekki breyst. Það er samt ekki beint satt. Það gæti verið að ég hafi aldrei séð ókroppaðan breiðskjá. Ég hef allavega aldrei séð hana í bíó áður. Þannig að myndin er, líkt sjálfum mér, breytt frá því síðast. Ég hugsa öðruvísi um hlutina og er betur upplýstur. Breytti það skoðun minni á myndinni?
The Elephant Man er með hjartað á réttum stað. Sem er töluvert öðruvísi en þegar eitthvað er vel meint. Hryllingur myndarinnar er aldrei hinn svokallaði Fílamaður. Það sem vekur óhug er meðferðin á honum. Fólk sem vill stara. Fólk sem vill meiða andlega og líkamlega.
Stóra spurningin sem myndin reynir að svara er hvort læknirinn (án efa fyrsta skiptið sem ég sá Anthony Hopkins) sé raunverulega ólíkur þeim sem sýndu Joseph (oft, þ.á.m. í myndinni, kallaður John) Merrick á fyrirbærasýningum. Sjálfur er ég ekki viss um svarið en ég held að það hljóti að hafa verið betra fyrir Merrick að vera á spítalanum.
Myndin byggir auðvitað meðal annars á skrifum læknisins Frederick Treves þannig að hún er honum frekar í hag. Það sem mér finnst samt erfiðast við að gúddera hann sem góðan gæja er að vita að hann lét varðveit beinagrindina af Merrick. Það hljómar ekki vinalega. Hann hefur samt líklega verið sannfærður um að tilgangurinn væri góður, að þessi gjörningur gæti hjálpað öðrum í framtíðinni.
Gríman sem John Hurt notar í myndinni er síðan gerð af afsteypum af höfði Merrick. Mér þykir það frekar óhugnanlegt. Ef þessi mynd væri gerð í dag væru líklega farnar aðrar leiðir.
Það væri hægt að sjá efristéttarfólkið sem aðstoðar Merrick sem hetjur myndarinnar. Ég held að það sé ekki rétt túlkun. Flestir úr þeirra röðum er frekar að falla að tískubylgju. Ríka og fína fólkið hefur líka efni á að vera almennilegt.
Leikkonan Madge Kendal er sú sem opnar þennan heim fyrir Merrick en þó hún hafi verið vinsæl þá voru konur úr hennar stétt ennþá taldar mjög siðferðislega vafasamar á þessum tíma.
Ef myndin á sér hetjur er það fólkið sem hjálpar Joseph Merrick þrátt fyrir að vera sjálft í erfiðum aðstæðum og á það á hættu að vera refsað fyrir vikið. Það eru hinir meðlimir fyrirbærasýningarinnar með sjálfan Kenny Baker (úr Star Wars, R2D2!) fremstan í flokki.
Merrick sjálfur er næstum grátlega þakklátur fyrir það þegar honum er sýnd mannúð. Það er eiginlega erfitt að horfa upp á það en það virkar samt ekki falskt. Bara mjög sorglegt.
Myndin var framleidd af sjálfum Mel Brooks. Hann virðist hafa náð að vinna vel með David Lynch. Eiginkona Brooks, Anne Bancroft leikur Madge Kendal. Svo er skemmtileg tenging við Spaceballs því John Hurt kom fram í þeirri mynd Mel Brooks.
Það eru fleiri góðir leikarar í myndinni, s.s. John Gielgud (sjúkrahússtjórinn) og Wendy Hiller (forstöðukonan á spítalanum).
Myndatakan, sviðsmynd og andrúmsloft eru lykilþættir í myndinni. Það er allt frábært. Stundum held ég að myndir í lit geti aldrei verið jafn fallegar og þær svarthvítu.
David Lynch var að mínu mati mistækur. Eða get ég sagt það um leikstjóra sem á svona harða aðdáendur? Kannski tókst honum að ná til fólksins sem hann vildi ná til. En þessi mynd er ein af þeim bestu í kvikmyndasögunni.
Maltin gefur ★★★½. Það er næstum innan skekkjumarka.