Interstellar (2014)👎
{74-54-ø-22}

Það er alveg ástæða fyrir því að ég hef látið þessa mynd vera til þessa. Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af Christopher Nolan, allavega ekki miðað við fólk almennt, og ég hef takmarkað þol fyrir Matthew McConaughey. Fínn í True Detective. Annars svolítið eins og Nicolas Cage ef Cage væri alltaf fastur á sömu nótunni.

Tíu ára gömul mynd. Höskuldar framundan.

Ég bjóst ekki við miklu en ég bjóst við meiru. Það er eins og Nolan hafi séð 2001 og hugsað með sér að sú mynd hefði verið betri ef endirinn hefði verið útskýrður í þaula með vísindaskáldskap og svo troðið inn „lifðu hamingjusöm til æviloka“.

Myndin byrjaði að pirra mig strax með sífelldum endurtekningum um að jörðin vildi losna við mannfólkið og við ættum að koma okkur af jörðinni. Sem er ekki frábært þegar við upplifum þá tíma að við ættum að vera að einbeita okkur að takast á við vandamálin okkar. Voðalega Elon Muskískur boðskapur.

Eðlisfræðin í myndinni á víst að vera voðalega flott. Samt virðist enginn vísindamaður í myndinni skilja eða vita neitt. Það er hvergi vit að finna í neinum plönum. Það verður jafnvel verra þegar við skiljum plottið á bak við plottið. Djöfull er það þunnt og vitlaust.

Myndin er samt best þegar hún leyfir sér að vera spennumynd.

Þegar myndin byrjar að nálgast endalokin, sem tekur óbærilega langan tíma, hverfur eðlisfræðin og í stað kemur þvæla um að mannfólkið þróist upp í fimmvíddarverur. Arg.

Ef myndin hefði endað í svartholinu, allavega fyrir geimfarann, hefði ég verið sáttari. En myndin þarf að enda fallega og þá fer þvælan í botn. Gaurinn lifir af svartholið og myndin er teygð og teygð.

Síðan þarf myndin að enda fallega. Gaurinn lifir af svartholið. Og tónlistin gerir reynir að sannfæra okkur um að það skipti ekki máli hve vitlaust þetta sé og að við ættum bara að leyfa Nolan að mjólka tilfinningar okkar. Mögulega missti ég af einhverju því ég gat ekki hætt að ranghvolfa augunum.

Það er erfitt að hætta að bera myndina saman við 2001. Kannski sérstaklega fyrir mig þar sem ég sá þá mynd í þessum sama bíósal í fyrra. Það er ekkert í Interstellar sem nálgast glæsileika 2001.

Nolan hefði aldrei haft hugrekki til að troða kosmísku fóstri út í geiminn án útskýringa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *