Leikstjóri rifjar upp æsku og uppvöxt, sér í lagi í tengslum við kvikmyndahúsið (Nuovo) Cinema Paradiso.
Ég sá þessa ekki í bíó á sínum tíma en heyrði líklega fyrst um hana þegar hún fékk Óskarinn sem besta erlenda myndin (fyrir) árið 1989. Líklega sá ég hana fyrst á RÚV þann 25. desember 1992.
Myndin náði mér strax og ég sá hana fyrst. Þetta er samt ekki mynd sem ég horfi oft á. Ég átti hana aldrei á dvd eða spólu. Hún hefur alltaf verið spari.
Ég veit nákvæmlega hvenær ég horfði síðast á hana. Hún var á RÚV þann 26. janúar 2019. Ég bauð Gunnsteini níu og hálfs árs að horfa með mér og hann þáði það, entist alla myndina og þótti góð. Á Facebook bætti ég við:
Honum fannst samt frekar ótrúlegt að þetta væri stutta útgáfan af myndinni.
Mig grunar að ég hafi bara aldrei séð löngu leikstjóraútgáfuna (hún er til í mörgum útgáfum).
Þegar ég sá að myndin væri sýnd í Bíó Paradís sem hluti af Stockfish gat ég ekki sleppt því. Gunnsteinn kom með en því miður passaði þetta ekki við plön Ingimars (Minecraft-myndin).
Nuovo Cinema Paradiso er nostalgísk þroskasaga um að elska kvikmyndir og sérstaklega bíó. Sögusviðið er aðallega Sikiley (viðeigandi eftir að hafa séð Godfather-myndirnar).
Endurlitshluti myndarinnar byrjar rétt eftir lok seinna stríðs. Drengurinn Totò bíður óþreyjufullur eftir því að faðir sinn snúi aftur frá Rússlandi. Ástríða hans er bíó. Ekki bara kvikmyndir heldur líka bara töfrarnir sem felast í tækninni, filmunni og sýningarvélinni.
Myndin af uppfull af eftirminnilegum persónum og atriðum. Hún er bæði fyndin og dramatísk. Jafnaldri minn sem leikur ungu útgáfuna af söguhetjunni er einfaldlega stórkostlegur. Ein besta frammistaða barnaleikara sem ég man eftir (The Fall er kannski í efsta sætinu).
Tónlistin er eftir Ennio Morricone og þarf ég að segja meira? Meginstefin eru yndislega falleg.
Það að myndinni tekst að tengjast minni persónulegu (og margra annara) nostalgíu og bíóást er að hún gerist á stað og stund sem er mjög fjarri mér. Þar að auki tengi ég ekki við ítölsku kvikmyndirnar sem eru sýndar í hinu Sikileyska Bíó Paradís. Myndinni tekst samt að brúa þetta bil.
Ég játa að ég tengdi líka við tilfinninguna sem ég fékk þegar ég fór framhjá Borgarbíó núna síðast þegar ég var á Akureyri. Húsið þar sem ég sá flestar bíómyndir fyrstu tuttugu ár lífs míns er ekki lengur bíó. Ég hafði ekki einu sinni geð í mér að skoða hvað væri þar núna.
Þessi mynd er ein af mínum allra uppáhalds. Stendur með Matinee með bestu myndirnar sem hafa verið gerðar um bíóást.
Maltin gefur ★★★½ sem mér þykir nirfilslegt.