Frances McDormand leikur ekkju sem hefur misst heimili sitt. Hún býr í sendiferðabíl og notar hann til að ferðast um Bandaríkin og vinna sem farandverkamaður. Hún tilheyrir samfélagi flakkara og við kynnumst ýmsum úr hennar heimi. Margir þeirra eru að leika sig sjálfa (eða útgáfu af sjálfum sér).
Það eru líka ýmsir atvinnuleikarar með og þar verð ég að nefna David Strathairn sem leikur mögulegan rómantískan valkost. Hann er alltaf í svolitlu uppáhaldi hjá mér (sérstaklega í þeim myndum sem hann hefur gert með John Sayles) og þið hafið örugglega séð hann í ótal myndum þó þið þekkið ekki nafnið.
Myndin er að einhverju leyti ádeila á kapítalisma þó það sé yfirleitt í bakgrunninum. Amazon sleppur síðan frekar létt frá myndinni sem tímabundinn vinnuveitandi aðalsögupersónunnar. Myndin gerist reyndar um 2011 eða svo þannig að kannski var fólk á þeim tíma ekki farið að pissa í flöskur vegna óhóflegs eftirlits.
Það sem er kannski í aðalhlutverki er sú togstreita sem persóna McDormand býr við. Hún virðist þrá að tilheyra samfélagi og byggja upp sambönd en hefur einnig sterka löngun til þess að vera á eigin vegum, sjálfri sér næg.
Ég mæli alveg með myndinni. Hún er á köflum þung en líka hlý og það eru alveg fyndin atriði inn á milli.