Maður gengur út úr eyðimörk, hvað var hann að flýja?
Paris, Texas er ein af þessum kvikmyndum sem hefur verið að eilífu á listanum mínum þannig að þegar við sáum hana á dagskrá hjá Bíó Paradís ákváðum við feðgar að drífa okkur.
Wim Wenders leikstýrði Paris, Texas. Sam Shepard skrifaði handritið en L.M. Kit Carson aðlagaði það (ég er ekki alveg að fatta verkaskiptinguna). Harry Dean Stanton (Alien, Repo Men) og Dean Stockwell (Quantum Leap, Blue Velvet) leika bræður og hæðast þannig að meinloku minni sem lýsir sér þannig að ég rugla saman nöfnum þeirra. Svo er það auðvitað Nastassja Kinski.
Hunter Carson leikur átta ára strák. Foreldrar hans voru leikkonan Karen Black og fyrrnefndur L.M. Kit Carson. Mamma hans fylgdi honum við tökur og hjálpaði honum að negla hlutverkið.
Paris, Texas greip mig alveg frá upphafi. Það er fínt jafnvægi í tóninum sem leyfir henni að sveiflast frá drama yfir í húmor og aftur í drama. Þetta er líka gullfalleg mynd. Það sem sló mig sérstaklega var í lokin þegar spegill sameinar tvær manneskjur í eina.
Einfaldur bílaeltingaleikur í Paris, Texas náði að vera gríðarlega spennandi af því að mér fannst eitthvað raunverulegt vera í húfi.
Stóra uppgjör myndarinnar og endalok hennar höfðu greinilega mikil áhrif á áhorfendur því að í þögninni heyrði ég nokkrum sinnum „sniff“ frá fólki sem átti í erfiðleikum með að halda aftur af tárunum.
Maltin gefur ★★½ en tekur fram að hans sé jaðarskoðun. Það má skilja á honum að vandamálið sé kannski að hann sé ekki hrifinn af verkum Sam Shepard.
Óli gefur ★★★★★👍👍🖖 enda myndi Paris, Texas lenda ofarlega á lista hans yfir bestu myndir sem hann hefur séð.