Árið er 1941 og pólskir leikarar flækjast inn í klækjavef. Gamanmynd.
Þetta var skrýtið áhorf. Ég hef séð To Be or Not to Be (1983) með Mel Brooks svo oft að ég vissi nær alltaf hvað var að fara að gerast og hvað fólk var að fara að segja. Sú er sumsé frekar trú hinni upprunalegu. Ég held ég skilji samt hvers vegna fólk taldi þörf á endurgerð en sú pæling á kannski heima í umfjöllun um þá útgáfu.
Í To Be or Not to Be sést desember 1941 á dagatali. Það er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að þá hófu Bandaríkin þátttöku sína í Seinni heimsstyrjöldinni (eftir hvatningu frá japanska flughernum). Upptökum á myndinni var væntanlega lokið þegar árásin var gerð á Pearl Harbour. Það var því töluverður munur á stemmingunni í landinu þegar myndin var í framleiðslu og þegar hún var frumsýnd.
Það má segja að einn helsti galli To Be or Not to Be sé að hún er mjög síns tíma sögulega séð. Hún passar ekki í það sögulega samhengi sem við höfum um Seinni heimstyrjöldina almennt og nasista¹ sérstaklega.
Það að plottið sé algjör þvæla er alveg fyrirgefanlegt því brandararnir ganga svo vel upp.
Ernst Lubitsch leikstýrði To Be or Not to Be og ef ég hefði séð fleiri myndir eftir hann myndi ég kannski segja eitthvað gáfulegt um hans fræga stíl.
Í aðalhlutverkum í To Be or Not to Be eru grínistinn Jack Benny, Carole Lombard og mér fannst ungi flughermaðurinn kunnuglegur en áttaði mig ekki á að þarna væri á ferðinni Robert Stack. Hann varð frægur fyrir að leika í sjónvarpsseríunni The Untouchables en fólk af minni kynslóð sem var með Stöð 2 þekkir hann fyrst og fremst sem kynninn í Óráðnum gátum.
To Be or Not to Be var síðasta mynd Carole Lombard sem lést í flugslysi um mánuði fyrir frumsýningu. Hún hafði verið að selja stríðsskuldabréf. Eiginmaður hennar Clark Gable heiðraði minningu Lombard með því að ganga í herinn líkt og hún hafði svo oft hvatt hann til.
Maltin gefur ★★★½.
Óli gefur ★★★★☆👍👍🖖 sem er svolítið litað af því að hafa séð endurgerðina fyrst.
¹ Það er alltaf sagt nasís frekar en natsís. Held að það hafi verið frekar útbreitt á þessum tíma.