The Banshees of Inisherin (2022)★★★★★👍👍

Brestir koma í vináttu tveggja manna á afskekktri írskri eyju á tímum borgarastríðsins.

Inisherin er ekki alvöru eyja. Eyjurnar Inis Mór, Inis Meáin og Inis Oírr eru kallaðar Aran-eyjar. Þær liggja við vesturströnd Írlands og tilheyra Galway. Þær eru bæði afskekktar og sumir telja menninguna þar „ekta“. The Banshees of Inisherin gerist á hálfgerðri Aran-eyju.

Brendan Gleeson og Colin Farrell leiða hér í annað skiptið saman hesta sína (asna og hund) í mynd eftir Martin McDonagh. Sú fyrri var In Bruges (sem er í Belgíu).

Martin McDonagh hefur ekki gert nema fjórar myndir í fullri lengd og mér hefur líkað við þær allar.

  • In Bruges (2008)
  • Seven Psychopaths (2012)
  • Three Billboards Outside Ebbing, Missouri 2017
  • The Banshees of Inisherin (2022)

Mig langar að finna stuttmyndina Six Shooter eftir Martin McDonagh frá árinu 2005 (með Brendan Gleeson í aðalhlutverki).

Ef ég hefði tekið eftir The Banshees of Inisherin hefði ég farið á hana í bíó. Á fyrstu mögulegu sýningu. Síðan fór hún bara á listann og ég ákvað að horfa fyrst á In Bruges með Gunnsteini þannig að hún frestaðist aðeins lengur.

Þegar ég heyrði að The Banshees of Inisherin gerðist á tímum Írska borgarastríðsins (1922-23)¹ fékk ég ákveðna hugmynd um hvað myndin snerist. Það var allt rangt. Átökin falla þó innan þema myndarinnar.

The Banshees of Inisherin fjallar um örvæntingu, vináttu og einmanaleika. Hún er bæði ógeðslega fyndin og ákaflega sorgleg. Það er erfitt að ná slíkri blöndu án þess að tónninn fari í óhljóð.

Það eru ekki bara aðalleikararnir tveir sem gera The Banshees of Inisherin frábæra. Kerry Condon (Three Billboards Outside Ebbing, Missouri) leikur systur Farrell, Barry Keoghan er einfaldur en oft indæll ungur maður og Sheila Flitton er eldri kona sem gæti verið holdgervingur bansjí-óvættanna.

Það eru nokkur mjög óþægileg atriði með blóði og ofbeldi. Síðan eru verri atriði þar sem aðstæður eru alveg rosalega vandræðalegar.²

Gunnsteini þótti stundum erfitt að skilja talað mál í myndinni þannig að við settum texta. Það hjálpaði reyndar ekki við að skilja hvað orð eins og „gom“ þýða.

Óli gefur ★★★★★👍👍

¹ Þegar fyrrum samherjar í uppreisninni gegn Bretum börðust um hvort ætti að sætta sig við Fríríkið eða reyna að fá fullt sjálfstæði. Sjá Michael Collins og The Wind That Shakes The Barley.

² Ekki jafn vandræðalegt og í Saltburn með Barry Keoghan í aðalhluverki þar sem ég hætti í miðri mynd því ég bara gat ekki meir. Blóð er miklu þægilegra.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *