Hér á eftir fer ítarleg ferðasaga mín frá London. Hún er kaflaskipt þannig að Queen aðdáendur geta skrollað niður að kaflanum um tónleikana í Brixton. Þeim sem finnst þetta of langt fyrir almenna lesendur er bent á að ég er fyrst og fremst að skrifa þetta fyrir sjálfan mig.
Undirbúningur
Í desember í fyrra þá var staðfestur orðrómur um að Roger Taylor og Brian May myndu spila með söngvaranum Paul Rodgers undir nafninu Queen. Þetta voru að sjálfssögðu stórfréttir og ég þurfti að horfa nokkrum sinnum á viðtölin við Brian og Roger til að ná þessu almennilega. Þegar þeir byrjuðu að auglýsa túrinn þá voru tveir sem vöktu hjá mér áhuga. Annars vegar sérstakir tónleikar í London sem voru aðeins fyrir mikla aðdáendur og hins vegar í Stokkhólmi. Ég skráði mig í lotterí til að hafa möguleika að kaupa miða í Brixton Academy en það virtist ekkert ganga enda virtist þetta ferli voðalega gallað. Ég fór þá að skoða almennilega möguleikann á Stokkhólmsferð. Eygló velti líka fyrir sér að koma með. Ekkert var samt bókað strax.
Brixton Academy tónleikarnir voru fyrstu tónleikarnir í túrnum. Þeir voru settir bara fyrir aðdáendur, tæpir fimm þúsund miðar í boði og mikil eftirspurn. Brixton Academy er líka frábær staður, glæsilegur salur. Þetta er líka staðurinn sem tónleikaplata Brian May var tekin upp á, Live at the Brixton Academy.
Þann 11. mars fékk ég loks tilboð að kaupa miða í Brixton og þurfti að ákveða mig fljótt (tónleikarnir voru 28. mars). Ég skoðaði flugferðir og ákvað að láta vaða. Eygló var þá búinn að bóka sig yfir Páskana þannig að ég keypti bara miða fyrir sjálfan mig. Ég skoðaði möguleikana miðað við vinnuna mína og skólann. Ég var í vinnu á laugardegi, gat flogið út á sunnudegi, tónleikarnir á mánudegi, flogið heim á þriðjudagskvöld, vinna og skóli á miðvikudag. Strangt prógram.
Viku fyrir tónleikana rakst ég á frétt um skotárás í Brixton Academy. Einhver hafði stokkið á sviðið á rapptónleikum þar og skotið á áhorfendur, enginn skaddaðist. Lagið Guns of Brixton hljómaði í höfðinu á mér.
Með hjálp frá formanni Stúdentaráðs þá fann ég mér ódýrt hótel, það kostaði bara 23 pund nóttin og morgunverður innifalinn. Eygló reddaði mér túristabókum um London áður en hún fór austur. Sigrún vinkona Hafdísar hitti mig í vinnunni laugardaginn fyrir ferðina og bauðst til að lána mér fleira túristadót. Fékk Time Out tímarit, Time Out bók, pop-up kort og regnhlíf hjá henni. Regnhlífina þurfti ég reyndar aldrei að nota.
Útferð
Ég hafði aldrei áður farið til London og ég hafði heldur aldrei farið einn til útlanda, skrýtið að fara allt í einu á eigin spítur. Fyrsta skiptið utan Norðurlanda líka. Ég lagði af stað til Keflavíkur rétt um klukkan eitt á Páskadag. Ferðinni var reyndar fyrst heitið heim til Danivals. Aldrei hafði ég komið þangað og litlu munaði að ég kæmist ekki núna. Ég kom inn í bæjinn og stoppaði við kortaskilti. Þarna hringdi í Danna og spurði hann hvar hann ætti heima, síðan ók ég af stað. Ég ók svoltið lengi og mér varð fljótt ljóst að eitthvað væri skrýtið. Ég kom mér fyrir við búð þarna og hringdi aftur í Danna. Þetta reyndi mikið á en að lokum komst ég heim til hans. Vandamálið var einfalt, einhver hafði sett punkt á vitlausum stað á kortaskiltinu þannig að ég hélt að upphafsstaðurinn væri allt annars staðar. Ég hékk í smá tíma heima hjá Danna en fór síðan á flugstöðina.
Ég skilaði bíllyklinum í kassa til að hann yrði þrifinn og bónaður á meðan ég væri úti. Síðan fór ég og tjékkaði mig inn. Ég var reyndar smá tíma að finna afgreiðsluna hjá Iceland Express þar sem hún var falin út í horni. Ég hef aldrei áður þurft að sýna vegabréf en ég þurfti að gera það reglulega núna. Enginn spurði mig hvers vegna ég hefði hætt að lita hárið mitt blátt (vegabréfsmyndin er svoltið undarlega lýst). Reyndar er það bara þannig að ég hafði einmitt fengið mér vegabréf í fyrra til öryggis og það borgaði sig núna. Annars hefði ég þurft að borga marga peninga til að fá það í flýtimeðferð. Matsalan á Leifsstöð hélt upp á Páskadag með því að hafa góðan mat, það er greinilegt að dauðir þurfa upp að rísa til að slíkt gerist.
Ég keypti mér myndavélatösku í fríhöfninni en líka millistykkjapakka svo ég geti ferðast um heiminn með öll helstu heimilistæki mín. Ég keypti líka svona Taverners kaffimola, jömmí. Á leið út í vél þá hitti ég Eyþór vinnufélaga Eyglóar sem hafði verið í London með foreldrum sínum að horfa á Stuðmenn. Hann skemmti sér víst vel þarna með öllum hinum Íslendingunum. Þegar í vélina kom þá vaknaði von sem var fullnægt, ég var einn með þrjú sæti. Þetta notaði ég vel, lagði mig alveg í smá tíma í öllum sætunum. Ég var líka með hljóðbók á mp3-spilaranum, Steve Martin að lesa bók sína Shop Girl. Bókin var góð skemmtun en ég mæli samt með því að byrja á fyrsta hlutanum en ekki þeim síðasta. Ég náði plottinu reyndar alveg en samt þá er verra að hlusta á þrjá fjórðu bókarinnar eftir að hafa heyrt síðasta fjórðunginn. Næst kíki ég á skjáinn áður en ég ýti á Play. Flugið var indælt.
Einn í stórborginni
Á Stansted flýtti ég mér mikið og var eftir skamman tíma laus frá öllum Íslendingum. Lestin var auðfundin og ég hafði keypt miða í flugvélinni þannig að þetta gekk fljótt fyrir sig. Enginn vildi sitja við hlið mér. Á leiðinni las ég Times sem mér var gefið, þar á meðal umfjöllun um Bobby Fischer. Á Liverpool Street fékk ég óhjálpsama hjálp frá starfsmanni en þetta reddaðist reyndar þrátt fyrir það. Á heimasíðu hótelsins voru góðar leiðbeiningar um hvernig átti að komast þangað frá lestarstöð sem var þar rétt hjá, vandinn var að sú stöð var lokuð. Ég endaði með að fara á Tottenham Court Road. Þegar ég kom upp úr grundinni þá sé ég Freddie standa þarna fyrir ofan mig. Þetta var þá Dominionleikhúsið þar sem We will rock you söngleikurinn er sýndur. Reyndar finnst mér styttan ekkert of lík honum en þetta var samt viðeigandi að fá Freddie til að taka á móti mér.
Ég tók mig til að átta mig á því hvernig ég gæti komist á hótelið. Ég sá engin götunöfn og reyndi því að sjá á kortinu hvar ég væri. Ég miðaði við staðsetningu neðanjarðarlestarstöðvarinnar á kortinu og fór síðan af stað. Sú tilfinning að ég væri að fara eitthvað vitlaust hvarf ekki og að lokum náði ég að fá það staðfest að ég hefði farið Charing Cross í staðinn fyrir Tottenham Court. Ég sneri því við. Nú var ég reyndar svoltið miður mín á þessum tímapunkti, einn hálfvilltur í fyrsta sinn í stórborginni.
Þegar ég hafði gengið dulítinn tíma á Tottenham Court án þess að finna hótelið. Reyndar var kortið sem ég fékk af heimasíðu hótelsins lélegt og ekkert af þeim kortum sem ég var með sýndu litlu götuna sem hótelið mitt var við. Ég tók því sveig út af aðalgötunni inn í litla hliðargötu sem virtist vera sirkabát á réttum stað. Ég hafði heppnina með mér. Þarna var ég kominn á Chorlotte Street sem verður að Fitzroy Street (án þess að nokkur ástæða sé fyrir nafnabreytingunni) og þar er hótelið mitt. Ég gekk götuna og fann hótelið.
Feginn var ég þegar ég kom inn á hótelið. Í afgreiðslunni var indæll asískur maður sem gerði mikið grín af nafnabreytingu götunnar. Allt var á hreinu þarna og ég fékk herbergi á sjöttu hæð, herbergi 502 (óþarfi að sleppa smáatriðunum). Næst fór ég aftur niður og bað afgreiðslumanninn um leiðbeiningar á næsta matsölustað, hann benti mér á pizzastað í götunni. Ég fór þangað og fékk ætan ódýran mat.
Ég fór aftur á hótelið og skoðaði mig aðeins um þar. Það heitir Carr-Saunders Hall. Hótel er kannski ekki alveg rétt orðið yfir þetta, á ensku er þetta kallaði hostel en þetta var greinilega heimavist. Mikið af sætum stelpum á hótelinu. Ég mæli með því fyrir einhleypa unga karlmenn. Eldhús eru á hverri hæð (ísskápur fyrir kókómjólkina). Klósettið var fínt og sturturnar þægilega afmarkaðar. Á morgnanna er boðið upp á enskan morgunverð þar sem hægt er að velja sex misógeðslegra hluti sem saman mynda hinn hefðbundna enska morgunverð. Aðalgalli hótelsins var að ég heyrði mikið í loftræstikerfinu að nóttu til, reyndar truflaði það mig ekkert sérstaklega mikið.
Sturtuaðstaðan var nýtt og síðan fór ég að plana morgundaginn. Ég kláraði síðan Robert Rankin bókina sem ég var að lesa. Eitt af því sem ég hafði velt fyrir mér að gera í ferðinni var að skoða Brentford sem er sögusvið flestallra bóka þessa ritsnillings. En Brentford hefði tekið of mikinn tíma frá mér. Kannski að ég fari þarna einhvern tímann með einhverjum svipað þenkjandi.
Mánudagur fyrir tónleika
Vekjaraklukkan hringdi klukkan hálfníu og ég var mættur í morgunmatinn rétt eftir níu. Reyndar byrjar morgunverðurinn venjulega fyrr en þetta var bank holiday, heilagur dagur bankans. Kannski reis bankinn upp frá dauðum daginn áður. Ég reyndi við klassíska enska morgunverðinn. Baunirnar voru frekar vondar, pylsan var frekar léleg, eggin ógeðfelld en beikonið í lagi. Ég ákvað að nota mér brauðið sem helstu næringu mína yfir daginn.
Ég tölti af stað og byrjaði á að fara niður Tottenham Court Road. Það var lítið af spennandi búðum þar, reyndar nokkrar lokaðar. Ég ákvað að skreppa á netkaffihús að tjékka á póstinum mínum og skrifa eina færslu í dagbókina mína.
Eftir þetta fór ég á British Museum. Það er svoltið stórt. Það kostar ekkert inn en það er mælt með að fólk gefi allavega þrjú pund. Ég gaf ekkert þar sem ég hef ákveðnar skoðanir á því hvernig þeir hafa eignast suma gripina. Kannski að þeir neyðist til að skila dóti ef þeir fá ekki næga peninga, eða að þeir gerist þýfissalar. En þarna er margt að skoða. Ég byrjaði á að skoða Rossettasteininn og grískuminjarnar, það vakti upp dáltið af andúð hjá mér. Ég sneri mér næst að svoltlu sem á heima á bresku safni, Sutton Hoo minjarnar. Þær koma við sögu í áfanganum Norræn trú þannig að það var gaman að líta á þær. Lestrarherbergið er að sjálfssögðu eitthvað sem maður verður að skoða. Ég notaði tímastillinguna til að taka af mér myndir sitjandi við borð þarna með bókahillurnar í bakgrunni.
Næst fór ég að rölta niður í Westminster eftir Charing Cross. Þarna var töluvert af skemmtilegum búðum en ég keypti ekki neitt. Ég endaði á Trafalgartorgi og ég verð að segja að stemmingin þar var mjög indæl. Ég var orðinn svoltið þreyttur þannig að ég klifraði upp á rætur súlunnar hans Nelsons og settist þar. Veðrið var gott og ég átti þarna góða stund. En ég hélt samt áfram að rölta eftir smátíma. Ég fór í gegnum St. James garðinn, það var ágætt. Keypti mér Fanta og fór að Buckingham höll. Það var voða ómerkilegt. Reyndar var ágætt að hanga þarna í smástund. Indæll indverskur náungi bauðst til að taka mynd af mér þarna og ég leyfði honum það. Það var annars fyndið að krakkar sem voru þarna bentu á að einhver hafði misst myndavélina sína í gosbrunninn (eða kannski hélt hann að þetta væri óskabrunnur). Ég sá ekki vaktskiptin enda frekar áhugalaus um slíkt.
Síðan fór ég niður að Westminster dómkirkjunni. Fyrsta kaþólska dómkirkjan sem ég hef skoðað. Þar var dáltið af fólki að biðja, ég held að ég hafi aldrei séð slíka einlægni í kirkju áður enda er ég Íslendingur alinn upp í þjóðkirkjukristni. Reyndar hef ég verið við þónokkrar kaþólskar messur líka en ekkert svona var að finna þar. Síðan sá ég líkið af einhverjum dýrlingi og krana sem útdeildi heilögu vatni. Ég lagði ekki í turninn en ég skoðaði gjafabúðina, kaþólikkar kunna sko að selja Jesú. Og dýrlingana. Safnaðu þeim öllum! Verra en Pokemon.
Leiðin lá næst að Westminster Abbey. Flott hús, löng biðröð. Voðalega er mikið af ferðamönnum í London, samt er þetta enginn ferðamannatími. Ég reyni að komast aftur seinna í klaustrið, kem snemma. Síðan var Big Ben og allt það. Mótmælendur á Parliment Square, ég var að spá í að spjalla við þá en sleppti því. Við styttunni af drottningunni sem bauð Rómverjum í byrginn þá datt ég um barnavagn, hvorki ég né barnið skaðaðist. Síðan hitti ég indælan mann sem bauðst til að teikna af mér skopmynd á tveimur mínútum. Venjulega eru það 15 pund en fyrir mig bara 10. Ég ákvað að fá af mér mynd. Þetta tók reyndar meira en tvær mínútur og myndin líktist mér ekkert sérstaklega en ég sá ekkert eftir því. Eftir að hann teiknaði mig þá sýndi hann öllum í kring myndina. Síðan bauð hann næsta manni að teikna mynd af honum, bara fyrir 10 pund, „special price for you my friend“. Voðalega fyndin taktík.
Þar sem ég var á Westminster brúnni þá kom einhver kelling og bað mig um að hjálpa börnunum „für die kinder, luv“. Síðan snerti hún andlitið mitt, kleip um kinnarnar mínar. Ég ákvað að gefa henni engan pening. Algjör óþarfi að káfa á manni svona.
Ég ákvað að fara að koma mér á hótelið aftur. Þá kom að því að reyna aftur við neðanjarðarlestarkerfið og ég verð að segja einsog satt er, ég lærði á það. Lógíkin í því passar við það hvernig ég hugsa, reyndar náði ég ekki alltaf að fara stystu leið á milli staða en það er í raun svoltið skemmtilegt að hlaupa á milli lesta. Það væri gaman að ferðast á alla helstu staði í London án þess að koma nokkurn tímann upp á yfirborðið. Raunar var það svo að ég kom við á fullt af frægum stöðvum án þess að sjá nágrennið. Ég komst heill á húfi á hótelið, skilaði af mér drasli og lagði af stað til Brixton. Það var ekki mikið af fólki í lestinni til Brixton.
Brixton
Þegar ég kom til Brixton þá byrjaði ég á að finna tónleikastaðinn, það var ekki byrjað að afhenda miða en biðröð var farinn að myndast. Ég ákvað að bíða ekki óhóflega lengi og fór þess í stað á kránna þar sem Queenzone fólkið var að hittast. Það virtist vera indælt fólk, talaði aðallega við tvo Þjóðverja sem voru þarna. Eftir smá tíma þá fórum við nokkrir sem áttum eftir að sækja miða af stað til að borða, enduðum á KFC. Ég hef aldrei áður borðað þar. Ég fékk mér kjúklingaborgara sem var góður. Þjónustan var hins vegar slök. Á miða þarna stóð að maður mætti ekki vera lengur en 20 mínútur að borða, Eygló hefði ekki meikað það. Við vorum snöggir að borða og fórum síðan í biðröð við Brixton Academy. Á leiðinni hittum við mann sem var nokkuð sannfærður um að Jesú væri vegurinn, sannleikurinn og lífið. Þetta sagði hann sífellt og endalaust við alla.
Ég var þarna með nokkrum Hollendingum og Tékka. Tékkinn er með heimasíðuna Queenconcerts og var með upptökutæki á sér. Þarna var öryggisvörður sem hélt fram að það væri upphitunarhljómsveit og það kom af stað umræðu um hvaða hljómsveit það gæti verið. Villtar sögur höfðu verið í gangi, Foo Fighters og Darkness voru nefndar en þó held ég að fáir hafi trúað slíku.
Einn Hollendingurinn, Jeroen, sagði mér að stefnan með myndavélar væri mjög ströng þarna og því faldi hann sína myndavél framan á buxunum. Ég var með nýju litlu vélina og faldi hana á milli læranna minna. Þetta var ekki jafn ógeðfellt og það hljómar en hins vegar var þetta óþægilegt að hafa hana þarna í tvo klukkutíma í biðröð. Reyndar var síðan ekkert leitað á fólki, bara í töskum. Spenningurinn var mikill þarna. Nokkrir voru að selja miða á uppsprengdu verði þarna í kring. Ég var farinn að hoppa svoltið upp og niður.
Þegar við náðum loks að komast inn til að kaupa miða þá kom upp vandamál, það vandamál var ó. Svona einsog í Sóleyjarson. Miðinn minn fannst ekki. Það var erfitt að bíða milli vonar og ótta á meðan leitað var að miðanum. Þetta átti að vera í stafrófsröð en fannst hvergi. Eftir svona fimm mínútur (virtist vera lengri tími) þá komu þau með miða handa mér og ég fór aftur að anda. Ég keypti mér síðan bol með nýja fönixlógóinu þar sem stendur á Queen + Paul Rodgers, þetta er umdeilt fyrirbæri meðal aðdáenda en ég er sáttur við það. Aftan á er listi yfir tónleikastaði og ég get glaður bent á að ég hafi farið á fyrstu tónleikana. Tónleikar númer tvö voru í gangi akkúrat meðan ég skrifaði þetta (miðvikudagskvöld).
Ég komst þá í hina röðina og beið þar og beið. Ég hitti síðan Ástrala og enska fjölskyldu þarna. Ástralarnir höfðu komið sérstaklega fyrir þessa tónleika þannig að mín ákvörðun um að koma mér þessa nokkru kílómetra til Englands er mjög eðlileg í samanburði. Enski fjölskyldufaðirinn var mjög fínn kall, hann sá Queen fyrst 1973 í Lancaster, það er áður en þeir gáfu út fyrstu plötuna. Dóttirinn hafði vikuna áður verið að syngja Queenlög í skólanum, reyndar var það víst val kennarans. Indælt fólk. Síðan var japanska Freddie eftirherman. Það var undarlegt. Hann var reyndar ekkert sérstaklega líkur Freddie, hann var líkari hvítum manni að leika Kínverja. Búningurinn hans var samt góður. Alltaf gott að hafa fólk sem maður getur bent á til að sanna að maður sé ekki öfgakenndur aðdáandi.
Þegar opnað var klukkan sjö þá gekk þetta mjög fljótt. Ég var reyndar ávítaður af öryggisverði þegar ég fór að hlaupa niður salinn, ég hægði á mér en gekk samt rösklega. Ég hitti þar Queenzonefólkið sem var eftir á kránni, það hafði komið á mínútunni sjö til að sækja sína miða og var þá hleypt strax inn. Bastarðar. Reyndar var að mörgu leyti bara gaman að hanga í röð.
Live at the Brixton Academy
Við komum okkur fyrir frekar framarlega, svona 5 metra frá sviðinu, þrjá metra frá öryggissvæðinu. Þegar á leið sá ég eftir því að hafa ekki tekið með mér gos. Ég endaði með að biðja um vatn frá öryggisverði. Þó ég færi fram um svona rúmlega metra þá náði hann ekki að sprauta vatninu beint upp í mig og það endaði á fólkinu í kringum mig líka (speglaðist af andlitinu mínu á suma). En það var gott að fá vatn. Tónlistin sem spiluð var fyrir tónleika var ekki vel valin, eitthvað blúsdót. Það varð fljótt ljóst að sögur um upphitunarhljómsveit voru alveg úr takti við raunveruleikann. Þetta var erfið bið. Oft var vakin upp von um að þetta færi að byrja en alltaf var það svikið. Að lokum fóru þeir að spila lokalagið af Made in Heaven. Það lag er án titils og tekur um 22 mínútur, það er án texta og er varla lag í ströngum skilningi þess orðs. Það var spilað í heild sinni.
Síðan var Eminem lag sett á fóninn. Þegar á leið lagið byrjaði We will rock you takturinn í því að magnast og greinilegt að það var byrjað að spila undir. Síðan kom Paul Rodgers á svið, söng smá einn en síðan fór allt á fullt. Úff.
- Lagalistinn var svona (söngvari innan sviga):
- Reachin’ Out (Paul einn að syngja)
- Tie Your Mother Down (Paul)
- A Little Bit Of Love (Paul)
- I Want To Break Free (Paul)
- Fat Bottomed Girls (Paul)
- Crazy Little Thing Called Love (Paul)
- Seagull (Paul)
- ’39 (Brian)
- Love Of My Life (Brian)
- Hammer To Fall slow/fast (Brian og Paul)
- Guitar solo
- Last Horizon
- These Are The Days Of Our Lives (Roger)
- Radio Ga Ga (Roger og Paul)
- Can’t Get Enough Of Your Love (Paul)
- I’m In Love With My Car (Roger)
- I Want It All (Brian)
- A Kind Of Magic (Paul)
- Bohemian Rhapsody (Freddie and Paul)
- The Show Must Go On (Paul)
- -Uppklapp-
- Feel Like Makin’ Love (Paul)
- All Right Now (Paul)
- -Uppklapp-
- We Will Rock You (Paul)
- We Are The Champions (Paul)
Hverjir voru hápunktar kvöldsins? Tie your mother down var sterk innkoma. Annars þá er ljóst að uppáhaldskaflinn minn var þegar Roger og Brian voru í aðalhlutverkum. Það var dramatískt þegar komið var með tvo stóla fram á sviðið og Brian settist. Það var ljóst að nú var komið að Love of my Life og maður var hræddur við að Paul myndi syngja það. Það hefði ekki verið gott, það hefði verið of langt gengið. En Brian kom á óvart og spurði svona hvort hann mætti ekki bara gera það sem honum dytti í hug. Áhorfendur voru sáttir við það og Brian fór að spila 39 sem hefur lengi verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Það er einstaklega flott lag, textinn er líka ótrúlega margslunginn miðað við hvað hann virðist undarlegur fyrst. Síðan tók Brian og söng Love of my Life með áhorfendum. Enginn settist í stólinn hans Freddie. Þetta var frábært.
Brian spurði næst hvort það vantaði ekki eitthvað og sagðist ætla að kynna okkur fyrir elstu kærustunni sinni. Það var að sjálfssögðu gítarinn hans, Red Special, hinn upprunalegi og eini sanni. Hann byrjaði síðan á rólegu lagi, reyndar fannst mér á upphafshljómunum að þetta væri It’s Late en það kom í ljós að hann var að spila rólega útgáfu af Hammer to Fall. Lagið fékk eiginlega nýja dýpt í hæga flutningnum, textinn fékk að vera í aðalhlutverki. Síðan kom Paul inn á sviðið og söng restina af laginu, þá var líka skipt í hörðu útgáfuna. Næst kom gítarsólóið, það tók svona tíu mínútur sem er lítið fyrir Brian en það var djöfull flott. Reyndar smá tæknilegir örðugleikar með bergmálið en samt var þetta frábært. Hann fór líka á þakið á Buckingham höll í laginu. Það var semsagt skjár þarna sem sýndi fyrst hraðferð að höllinni og síðan þakið þar sem Brian spilaði á sínum tíma. Sólóið var ekki beint Brighton Rock sem var smá bömmer, ég hefði viljað fá að heyra það. Það var þess í stað bland úr mörgum lögum og síðan bara almennur spuni líka.
Þá byrjaði Brian að spila Last Horizon sem er lag af plötu hans Back to the Light, eina sólólagið sem var spilað þarna. Það er líka alveg stórkostlegt lag, ekkert sungið, eiginlega bara Brian að spila á gítarinn. Næst kom Roger fram á sviðið og spjallði smá, síðan söng hann These are the days of my life. Á meðan voru sýnd gömul myndskeið af Queen en aðallega Freddie og John. Ég táraðist. Næst fór af stað Radio Ga Ga sem Roger söng, á meðan voru einhverjar gínur að sýna handahreyfingar á skjánum. Það var hálfmislukkuð, sérstaklega eftir að Paul var farinn að syngja og Roger kominn á trommurnar, þá duttu gínurnar út takti.
Paul tók síðan eitt lag og þá kom I’m in love with my car, sungið af Roger á meðan hann var að syngja. Roger hélt sig við þá hefð sína að ruglast smá í texta lagsins, það hefur hann oft gert og var bara svoltið indælt. Næst söng Brian I want it All, Paul átti víst að syngja það en röddin var eitthvað veik þetta kvöld þannig að hann sleppti því. Það var nokkuð gaman. Síðan var ljóst að eitthvað spes var að gerast. Á skjánum birtist mynd af Freddie á Wembley og hann fór að spila og syngja Bohemian Rhapsody. Eina upptakan var röddin hans og píanó, hinir spiluðu undir. Síðan fóru allir af sviðinu þegar óperukaflinn fór af stað. Í lokarokkinu kom Paul fram og söng, hann kláraði lagið og flestir voru sáttir. Paul söng næst The Show Must go on sem var nokkuð gott hjá honum en heillaði mig ekki alveg, ég var líka orðinn svoltið orkulaus á þeim punkti.
Þeir létu ekki bíða mikið eftir sér í uppklappinu og spiluðu fyrst tvö lög Paul, ég var hrifnastur af All Right Now. Seinna uppklappið var tvennan fræga We Will Rock You og We are the Champions, bæði ágætt en ég var sem fyrr segir eiginlega búinn á því. Þegar hljómsveitin kom fram á sviðið undir lokin þá kastaði Roger kjuðunum í áhorfendaskarann og það olli usla. Annar kjuðinn fór rétt hjá mér og ég ætlaði að ná honum en konan fyrir framan mig datt þannig að ég hjálpaði henni upp. Hún hafði þá líka fest hárið í bakpoka (sem var framan á honum) mannsins við hliðina á mér þannig að ég hjálpaði henni að losa sig. Ég missti því hálf af finalinu en það kom ekki að mikilli sök. Ég hefði samt viljað fá einsog einn trommukjuða.
Ég dreif mig eiginlega strax út, keypti tvær Fanta í sjoppunni enda var ég orðinn mjög þyrstur. Drakk aðra á leiðinni í lestina en hina í lestinni. Utan við tónleikastaðinn var verið að selja svona unofficial boli á fimm pund stykkið og ég ákvað að fá mér eitt stykki. Það var ágætt. Ég flýtti mér svoltið enda Brixton ekki fræg fyrir það að vera örugg að kvöldi til þó enginn hafi skotið neinn þetta kvöld. Neðanjarðarlestin var full af Queenaðdáendum en ég náði að troða mér í fyrstu lestina út.
Ég var alveg búinn í lestinni og flestir í kringum mig. Þetta var líka tilfinningaþrungið, fyrstu alvöru tónleikarnir síðan 1986 með nýjum söngvara. Var þetta þess virði? Yes, it was a worthwhile expierence, it was worth it. Þetta var ógeðslega gaman. Roger var í feiknastuði á trommunum, hefur ekki verið betri í mörg ár (hefur átt nokkra slappa tónleika síðustu ár). Æðislegt að sjá manninn standa á fætur og lemja trommurnar í lok lags. Brilljant. Brian var líka í feiknastuði. Paul Rodgers fannst mér eiginlega hálfóþarfi, þeir hefðu getað gert þetta einir. Hann var samt ekki slæmur. Þetta var samt allt voðalega óraunverulegt, að vera á tónleikum með goðunum.
Þegar ég var að fara úr neðanjarðarlestinni byrjaði ung stúlka að tala í lestinni. Hún byrjaði á að segja að hún vissi að það væri ekki okkar vandamál en hún væri heimilislaus og þyrfti að fá peninga til að kaupa sér mat áður en hún reyndi að koma sér í skjól yfir nóttina. Ég lét klinkið mitt í tómu gosílátið sem hún hélt á, veit ekki hvort það var nema örfá pund. Þegar ég kom á hótelið þá flýtti ég mér í sturtu, hringdi í Eygló og spjallaði dáltið en fór síðan að sofa.
Annar í túristun
Ég vaknaði fyrir átta á þriðjudag og fékk mér morgunmat. Ég lét allt hefðbundið enskt vera og fékk mér bara kókómjólk, brauð og smjör. Síðan tjékkaði ég mig út af hótelinu, lét töskuna í geymsluna þeirra og fór af stað að Tower of London. Þetta var erfið neðanjarðarlestarferð þar sem nokkrar línur voru alveg stopp og ég gat því ekki farið alveg að virkinu. Ég kom þess vegna upp hjá minnismerkinu um eldinn 1666 og rölti þaðan. Reyndar fattaði ég ekki strax hvaða minnismerki þetta var og það vissi japanska stelpan þarna ekki heldur. Ég tölti síðan að Tower og náði loks að átta mig á hvar ég keypti miða og færi inn. Ég var viljandi snemma á ferð til að sleppa við að lenda í röð einsog var við Westminster Abbey daginn áður.
Þegar ég kom þá var ein buffætan að byrja túr þannig að ég elti hann. Sá var mjög skemmtilegur og gerði þetta líflegt. Margir áhugaverðir punktar. Lok ferðarinnar í kapellunni þar sem ótal manns höfðu verið grafnir í var hápunktur. Eiginkonur Hinriks áttunda og Lafði Jane Grey líka. Ég fór næst í gimsteinahúsið, það var ágætt en ég var mjög feginn að enginn biðröð var þarna inni. Maður sá á uppsetningunni að röðin getur greinilega náð í gegnum mörg herbergi og alveg útúr húsi þegar mikið er um að vera. Ég skoðaði síðan töluvert af virkinu en ekki nærri allt. Endaði með að koma mér bara út svo ég gæti skoðað eitthvað fleira. Fór þá á Tower Bridge, síðan á Tower Hill og þaðan með lest í átt að Museum of London.
Museum of London var ekkert spes. Voðalega lítið af gripum úr Míþrasarhofinu voru uppi. Ég fór síðan með lest að Tottenham Court Road þar sem ég keypti sérstakt Queenblað frá Q. Þaðan rölti ég snöggt í British Museum þar sem ég keypti boli á okkur Eygló. Ég leit síðan í nokkrar verslanir en keypti ekkert. Ég fór síðan aftur í netkaffihúsið þar sem lyktin af Subway varð til þess að vekja magann minn. Ég hafði ætlað á indverskan stað rétt hjá hótelinu en maginn sigraði. Ég hef aldrei áður farið á Subway (né hafði ég áður farið á KFC, alltaf er ég að prufa eitthvað nýtt), þetta var ágætt. Ég fékk mér reyndar bara kjötbollur og ost vegna þess að ég nennti ekki að vera spyrja of margra spurninga. Mín reynsla af London er að ég tala betri ensku en flestir þar. Sumir tala verri ensku en ég vegna þess að þeir eru innflytjendur, hinir tala verri ensku en ég vegna þess að þeir eru frá London.
Heimleið
Ég kom mér aftur á hótelið og hirti töskuna mína, fór síðan af stað að Liverpool Street stöðinni. Ég þurfti að skipti nokkrum sinnum um lestir vegna lokaðra spora en komst samt fljótt og örugglega. Ég fíla neðanjarðarlestirnar þarna. Á einum ganginum á milli lesta var böskari að spila lagið People are Strange. „Faces look ugly when your alone“.
Á Liverpool Street var ég fljótur að koma mér að Stansted lestinni sem var akkúrat að fara þegar ég kom þannig að ég rétt náði henni, þá byrjaði ég líka að heyra íslensku aftur. Lestarferðin var átakalaus, ég var með miða en enginn athugaði hann.
Ég þurfti að bíða aðeins á Stansted eftir að innritun hæfist. Leiðindaafgreiðslukonan lét mig vigta töskuna mína og neitaði mér um að láta hana í handfarangur. Ég þurfti því að hirða úr henni allt nauðsynlegt (sem var reyndar ekki mikið). Í fríhöfninni keypti ég mér eina bók og nokkur súkkulaðistykki til að klára pundin mín. Síðan fór ég bara nokkuð fljótt að hliðinu mínu. Þar heyrði ég í kallkerfinu örvæntingafulla leit að einhverjum manni sem var of seinn í Noregsflugið sitt, ég vorkenndi samferðalöngum hans.
Við vorum kölluð snemma út í vél og fengum að ganga út í ferska loftið og upp landgang til að komast inn. Ég var ekki jafn heppinn með sæti núna, var einn með hjónum (sem voru reyndar ekkert slæm, bara minna pláss þarna). Þegar allir voru komnir um borð ákvað ein fjölskylda að fara út vegna heilsufarsvanda eins úr hópnum. Við töfðumst um svona hálftíma á meðan farangurinn þeirra var tekinn úr vélinni. Og ég fékk ekki að nota lausu sætin. Þetta var samt ágætt flug, ég dottaði dáltið. Sætið mitt var reyndar leiðinlegt, það hallaði alltaf aftur á bak án þess að ég vildi það.
Ekkert áhugavert gerðist fyrren ég lenti og hringdi í Eygló. Hún heimtaði að ég(!) myndi velja fyrir hana hvítvín og kaupa eitthvað súkkulaði sem ég þekkti ekki handa henni. Á leiðinni í fríhöfnina þá hnippti í mig maður sem vildi vita hvernig tónleikarnir voru (ég var að sjálfssögðu í bolnum góða). Ég gaf honum smá upplýsingar um þetta en ég var samt of þreyttur og líka með hellur þannig að ég var ekki of fræðandi. Ég valdi vín handa Eygló út frá því að það var með lægsta áfengisinnihaldið. Síðan keypti ég Taverners kaffimola handa mér og líka nokkra skrifanlega dvd-diska.
Ég fór síðan í gegnum tollinn og var ekki stoppaður frekar en fyrri daginn. Af hverju finnst tollvörðum ég ekki grunsamlegur? Er ég ekki hættulega týpan? Náði síðan í bílinn úr þvotti. Það kostaði fullmikið og leyndi kostnaðurinn var þá við að keyra bílinn til og frá vellinum. Samt gott að hafa bílinn nokkuð hreinan og bónaðan.
Á leiðinni heim spilaði ég Last Horizon og við það fékk ég voðalega notalega tilfinningu, gleði yfir því að hafa farið. Þegar ég kom heim þá var notalegt að fá brauð, hún Hjördís hafði keypt það fyrir mig og ég þakka henni. Ég gat fengið mér ristað brauð. Indælt.