21.000 manna varalið!!

Brjálæði, hreint og beint brjálæði. Samkvæmt Netmogganum (þeir fá það frá AP) vill Björn Bjarnason stofna 500-1000 manna varnarlið sem síðan myndi þjálfa 21.000 manna varalið, maðurinn er svo úr tengslum við veruleikann að það er engu líkt. Hvaða 21.000 manns eiga að vera í þessu varaliði? Og hvaða 500-1000 manns eiga að vera í þessu varnarliði?
Ég sé fyrir mér að Björn hafi bölvað í hljóði þegar látnir voru lögreglumenn til að vernda ráðherrana okkar gegn friðarsinnum (þeir sem voga sér að sletta málningu á Stjórnarráðið eru bara einu skrefi frá því að drepa!) því hann gat ekki látið varnarliðið sitt á vaktina. Áður létu menn einsog Björn sér nægja að kalla út Skotfélag Reykjavíkur.

Það er aðeins eitt land í nánasta nágrenni við okkur sem ég treysti ekki en þeir hafa það markmið að færa hermenn sína frá landinu þannig að ég sé ekki hættuna frá þeim. Hvaða glæpaflokkar ætla að koma hingað? Tyrkir? Ætla þessir ímynduðu óvinir að stela verðmætum okkar eða bara einfaldlega taka yfir fiskveiðar og fiskvinnsluna? Stela rafmagninu og álverunum? Eða bara drepa okkur? Á hvaða forsendu? Kannski vegna þess að “við” (Björn, Halldór og Davíð) höfum stutt morð á saklausum borgurum? Ég sé enga aðra ástæðu.

Barnalegi friðarsinninn ég getur ekki skilið hvernig her í hverju landi og öflug vopnaframleiðsla fer að því að tryggja friðinn. Svæðisbundnar fjölþjóðlegar sveitir undir alþjóðlegri og lýðræðislegri stjórn hefði ég haldið að gætu hentað betur til að tryggja friðinn en ég er bara svo fokking barnalegur.