Flutningar, flutningavandamál og flutningatilhlökkun

Erfitt að hafa ekki neitt almennilega á hreinu með væntanlega flutninga, verst þykir mér að geta ekkert sagt við þau sem ég leigi af, ætla nú samt líklega að gera það um næstu helgi, vara þau við. Síðan eru tveir sem hafa áhuga á þessari íbúð eftir að við flytjum en það er erfitt þegar maður veit ekki hvenær það verður. Reyndar er allt líklegast að við flytjum um þarnæstu mánaðarmót, við erum nógu ofarlega. Ég er ekki alveg viss en miðað við fréttirnar (gamlar fréttir) á forsíðu stúdentagarðanna þá verður nýja húsið á Ásgörðum tekið í notkun í lok ágúst þannig að maður er vongóður.

Við Eygló förum bráðlega að skreppa til þeirra sem hafa boðið okkur húsgögn og skoða þau, reyndar er það aðallega Eygló sem ræður þessu.

Hlakka til að fá almennilega geymslu, við höfum það mikið af drasli sem er núna inn í skápum og ofan á skápum, undir rúmi og sófa. Síðan eru videospólur, geisladiskar, dvd-myndir og bækur. Ég hef mikið verið að pæla hvort ég ætti að fara að taka eitthvað af bókunum hans afa því ég er núna alveg viss um að amma vill komast í eitthvað minna.

En það að flytja í stærra húsnæði skapar skemmtileg vandamál, ólíkt því að flytja í smærra. Þegar við fluttum hingað var hrikalega erfitt að raða öllu draslinu hingað inn. Þegar við vorum búin að koma draslinu hingað inn og áttum eftir að koma því fyrir þá hafði enginn trú á því við kæmum því fyrir. Húsgögnunum var öllum raðað alveg upp við hvert annað.

Ægilegt snúrurusl sem fylgir mér útum allt á eftir að skapa vesen.

Var að láta mér detta í hug að hugsanlega kæmist hvíti stóllinn sem við skyldum eftir á Akureyri fyrir í annað hvort bílnum hans Guðmar eða Gumma. Athuga það næst þegar annar hvor þeirra fer norður, frekar náttúrulega Gummi þar sem plássið í bílnum hans Guðmars fer undir börn og fylgihluti.