Veikur – ástæðulaus hugarangur

Ég var víst ekki alveg búinn að ná mér af þessu hitakasti, gat ekkert sofið í nótt að hluta vegna þess. Ég er reyndar líka búinn að vera með væg einkenni af því sem Eygló er búin að vera með síðustu viku en það er allt í einu orðið slæmt núna. Þegar ég hringdi í vinnuna áðan þá tók ég eftir því að röddin mín er afskaplega veik.

Sá sem svaraði símanum spurði mig hvort ég væri á Akureyri út af númerinu sem ég hringdi úr (símanúmerið var flutt með mér suður) og þurfti að útskýra það (það ætti nú að vera auðvelt fyrir þá að staðfesta þetta því ég er nú skráður hjá þeim með þetta númer). Pirrandi að þurfa útskýra svona þegar maður er að tilkynna sig veikan, allavega er ég alltaf með hálfgert samviskubit þegar ég er að hringja svona.

Síðan er þetta með að tilkynna sig veikan á mánudögum sem gefur til kynna að drykkja helgarinnar hafa farið illa með mann (það eru nokkrir svoleiðis sem vinna með mér skilst mér) og þó nokkrir sem vinna með mér viti að ég drekk ekki þá vita yfirmennirnir það ekki.

Kannist þið við að vera geta ekki fengið af sér að fara út um kvöldið (þó það sé bara í búð til að kaupa eitthvað einfalt) þegar þú hefur tilkynnt þig veikan því þið viljið ekki láta sjá ykkur úti við? Það er hálfbjánalegt því það er verulegur munur á að vera ekki nógu hress til að fara í vinnuna og að vera nógu hress til að skreppa út eitt augnablik. Síðan er maður oft orðinn hress um kvöldið þó maður hafi verið að drepast að morgni.

Annars lenti ég í að sjá einn vinnufélaga minn úti að skemmta sér svona 180 mínútum eftir að hann sagðist vera of veikur til að vera í vinnunni. Mig langaði að benda á þetta því um er að ræða slappasta starfskraftinn hjá fyrirtækinu en ég lét það vera því ég er bara einfaldlega ekki týpan sem getur gert svoleiðis.