Kristján frændi minn Gunnþórsson er látinn.
Flest orðin sem mér dettur í hug til að lýsa honum innihalda orðið “góður” í einhverri mynd. Góðlegur, góðviljaður, bóngóður og svo framvegis. Ég upplifði hann sem mann sem leið best þegar hann gat hjálpað fólki.
Akureyringar kannast örugglega margir við nafnið hans og ótrúlega stór hluti þeirra hafa átt í einhverjum samskiptum við hann. Ég man hvað ég var alltaf glaður í æsku þegar ég sá hvíta sendibílinn keyra framhjá með nafninu hans. Ég fann líka til mjög barnalegs pirrings þegar ég sá ekki nafnið hans heldur nafna hans Grant. Næstum eins bílar og næstum eins nöfn.
Ég hitti hann oftast í Skarðshlíðinni hjá ömmu og afa, bæði þegar ég bjó þar og þegar ég var bara í heimsókn. Þar sem hann var alltaf á ferðinni var hann alltaf að segja fréttir af hinu og þessu. Það er líka eftirminnilegt þegar hann leit við og sagði okkur að hann væri að flytja risastóran hund áleiðis til einangrunarstöðvarinnar í Hrísey. Ég fékk að kíkja í bílinn.
Kristján kom oft færandi hendi. Ég hika næstum við að segja frá því að hann laumaði stundum að okkur bakkelsi sem hefði væntanlega átt að enda í svínafóðri. Hljómar kannski ólystugt en það hefði verið hægt að kaupa það í bakaríinu klukkutíma áður. Ég var allavega alltaf glaður að fá snúð.
Kristján var líka alltaf innan handar þegar við þurftum að flytja, sem var oft, innan Akureyrar. En eftirminnilegustu flutningarnir voru þegar við Eygló fluttum til Reykjavíkur. Okkur þótti það auðvitað of stór greiði að flytja búslóðina landshluta á milli þannig að við báðum ekki um það. En við spurðum hvort hann yrði eitthvað á ferðinni á hentugum tíma. Það kom í ljós að hann var að flytja búslóð á sama tíma og húsnæðið okkar yrði laust.
Af algerri tilviljun voru það nágrannar mínir úr Stekkjargerðinu, hinum megin við götuna, sem voru að flytja. Kristján náði einhvern veginn að raða öllu þeirra dóti svo vandlega að það var pláss fyrir okkar hluti. Þannig kom hann okkur suður. Í raun alveg ótrúleg lagni. Heimspekingurinn sagði “menning er að gera hlutina vel” og það á jafn mikið við um listafólk og það fólk sem getur unnið vanmetin störf af hæfni.
Kristján bað aldrei um neitt í staðinn fyrir hjálp sína og góðvild en ég hefði auðvitað verið til í slíkt. Það er stundum þannig með bóngott og hjálpsamt fólk að það er ekki endilega að biðja um mikið í staðinn. Ætli besta leiðin til að minnast Kristjáns frænda sé ekki að reyna að lifa eftir fordæmi hans. Ég get ekki lengur launað honum hjálpina en ég get reynt að láta gott af mér leiða.
Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Jónínu, barna Kristjáns og barnabarna. Ég er, og verð ævinlega, þakklátur fyrir allt sem Kristján gerði fyrir mig og fólkið í kringum mig.