Pulp Fiction (1994) 👍👍🖖 {22-ø-ø-4}

Hve margir kvikmyndaunnendur hafa heimsótt McDonald’s í Frakklandi til að fá Royale With Cheese?

Pulp Fiction tilheyrir uppáhaldsbíóárinu mínu (sjá færslu um Forrest Gump) og hún er líka uppáhaldsmyndin mín frá því ári (erfið samkeppni við Léon og Clerks).

Á sínum tíma (1992-1993) missti ég af Reservoir Dogs. Hún var sýnd í Borgarbíó á Akureyri í rúma viku rétt eftir að ég fermdist. Ég held að ég hafi ekki verið mikið að fara í ellefubíó þegar ég var fjórtán ára.

Mig grunar samt aðalmálið hafi verið að hún leit ekki spennandi út. Ég vissi hvað „reservoir“ þýddi en ég skildi ekki hvaða tengsl slík fyrirbæri hefði við hunda og hafði ekki sérstakan áhuga að horfa á myndina til að komast að því.

Ég tók ekki heldur eftir því þegar True Romance (1993 – handrit Tarantino) kom fyrst en ég náði að lauma mér framhjá skilaríkjaskoðun þegar Natural Born Killers (1994 – líka eftir Quentin en hötuð af honum) var sýnd í Borgarbíó.

Þegar Pulp Fiction kom árið 1994 fór það ekki framhjá neinum. Orðið Reyfari (íslenski titillinn) finnst tólf sinnum árin 1993 og 1996 á vefnum Tímarit, árin á milli finnst það samanlegt rúmlega sexhundruð sinnum.

Myndin var frumsýnd í október 1994 í Regnboganum og ég sé ekki betur en að hún hafi komið í Borgarbíó á Akureyri í … maí 1995. Ári eftir að hún sló í gegn í Cannes.

Krakkar mínir, hér áður fyrr þurftum við fyrir Norðan að bíða eftir að fá sýningareintökin frá Reykjavík. Pulp Fiction var bara sýnd í einu kvikmyndahúsi og gekk þar í marga mánuði. Kannski var bara ein filma með íslenskum texta.

Á þessum tímum fór ég reglulega í borgarferðir, fyrst og fremst til að fara í bíó. Ég skipulagði það yfirleitt þannig að ég fór þrisvar hvern heilan dag sem ég var í Reykjavík. Þannig að ég var búinn að sjá hana áður en hún kom í Borgarbíó, jafnvel tvisvar. Ég er nokkuð viss um að ég fór þrisvar á hana í bíó.

Ég átti Pulp Fiction á myndbandsspólu, DVD og hún er ein af fáum UHD (4K) diskunum mínum. Þannig að það má segja að hún sé í uppáhaldi hjá mér. Svo hafði ég líka sinnt kvikmyndauppeldinu þannig að Gunnsteinn var búinn að sjá hana einu sinni áður en hann stakk upp á að fara á partýsýningu í Bíó Paradís.

Það virtist viðeigandi fara að sjá Pulp Fiction í Bíó Paradís enda sá ég hana „þar“ fyrir þrjátíu árum. Þegar búið var að kaupa miða spurði Gunnsteinn mig hvort færslan yrði jafn löng og sú um Forrest Gump. Ég er auðvitað á því að ekki sé hægt dæma myndir raunverulega fyrren eftir áratug, ef ekki meir, þannig að þetta verða töluverð skrif. Sjáum til.

Mín upplifun er að kvikmyndir séu svolítið fyrir og eftir Pulp Fiction. Auðvitað ekki bókstaflega og það er alveg hægt að segja um ótal kvikmyndir sem breyttu kvikmyndagerð. Ein mótrökin eru að Tarantino steli öllu sem er satt en ekki punkturinn. Það eru líka fáir kvikmyndagerðarmenn sem eru jafn tilbúnir að viðurkenna svona bein áhrif. Það er ekkert nýtt í Pulp Fiction en hún raðar hlutunum upp á nýtt og gerir það alveg ákaflega vel.

Look Who’s Talking myndirnar þrjár eru frekar gleymdar í dag. Á sínum tíma voru þær mjög vinsælar þó einungis sú fyrsta hafi verið talin góð. Í fyrstu tveimur myndunum léku John Travolta og Bruce Willis (bara rödd). Það að sá síðarnefndi hafi ekki verið með í þriðju myndinni segir eitthvað um stöðu kvikmyndaferils þeirra (í staðinn var Danny DeVito – einn framleiðandi Pulp Fiction).

Willis hafði lítið afrekað annað en fyrstu Die Hard myndirnar. Myndir eins og The Bonfire of the Vanities (1990), Hudson Hawk (1991) og The Last Boy Scout (1991) töldust flopp og þó Death Becomes Her (1992) hafi selt fjölda miða fékk hún slæma dóma.

Travolta hafði ekkert annað en Look Who’s Talking á þessum tíma. Hans frægðarsól virtist hafa sest. Fólk bjóst ekki við neinu af honum.

Hugsið um Look Who’s Talking í atriðinu þar sem Willis og Travolta hittast.

Samuel L. Jackson var gaur sem við höfðum séð í nokkrum myndum, aðallega frá Spike Lee. Kvikmyndaunnendur þekktu hann, fáir aðrir. Hérna varð Samuel L. Jackson „nafn“.

Fyrirsætur sem færa sig yfir í kvikmyndaleik hafa sjaldan fengið hól gagnrýnenda. Árið 1993 lék Uma Thurman í Even Cowgirls Get the Blues og endaði með tilnefningu til Razzie verðlaunana sem versta leikkonan. Hún hafði reyndar fengið betri dóma í myndum eins og Henry & June (1990) en fáir sáu hana nema fólk sem hafði áhuga á bókmenntum fyrirhluta tuttugustu aldarinnar eða nekt.

Reyndar hafði ég séð þá mynd (ekki af bókmenntaáhuga) þannig að Maria de Medeiros, sem lék Anaïs Nin, var á mínum radar. Hún leikur eiginkonu Butch (Bruce Willis). Innilega einföld og saklaus í andstöðu við flesta karaktera myndarinnar.

Pulp Fiction byrjar á rólegheitum og keyrir sig síðan hratt upp. Ég held ég hafi aldrei horft á myndina án þess að finna sæluhroll þegar Misirlou og titlarnir fara af stað.

Tónlistarval Tarantino er veigamikill hluti af Pulp Fiction. Þetta eru frábær lög en líkt og aðalleikararnir voru þau ekki vinsæl á þessum tíma. Þau voru ekki svöl. Forrest Gump var með sígildu rokklögin sem allir þekktu en þetta var brimbrettarokk og diskó. Áhrif myndarinnar voru slík að lögin Girl, You’ll Be a Woman Soon og Son of a Preacher Man náðu inn á vinsældarlista eftir að myndin kom út.

Á geisladisknum voru ekki bara lögin heldur líka klippur úr myndinni. Pumpkin and Honey Bunny, Royale With Cheese, Zed’s Dead Baby, Bring Out The Gimp, Jack Rabbit Slims Twist Contest, Peronality Goes A Long Way og Ezekiel 25:17.

Það ómar af þeim tíma þar sem hljóðrás kvikmynda var klippt niður og gefin út á hljómplötum til þess að aðdáendur gætu fengið að njóta þeirra heima við.

Það er út af geisladisknum sem ég kann ræðu Samuel L. Jackson utan af. Sem þýðir líka að ég veit vel að fyrsta útgáfan er ólík þeirri sem hann fer með á veitingastaðnum. Af sömu ástæðu veit ég að Amanda Plummer breytir orðaröðinni í „I’m gonne execute every …“

Hið fyrrnefnda er ekki gloppa í söguþræðinum. Hún er mannleg. Jafn mannleg og að Jules er í raun ekki að vísa í Esekíel 25:17 heldur fyrst og fremst Sonny Chiba (sem Tarantino elskar, sbr. True Romance).

Honey Bunny línan er af ólíkum toga af því þetta er endurtekning á sama atriðinu. Hún ætti að vera nákvæmlega eins. Ég veit ekki hvort Amanda Plummer breytti línunni sjálf en ég er nokkuð viss um að Tarantino notaði viljandi tvær mismunandi útgáfur. Kannski er þetta Rashōmon (1950) vísun en aðallega er þetta til þessa að pota í tímalínu myndarinnar.

Á sínum tíma heyrði ég marga kvarta yfir því að það væri erfitt að skilja Pulp Fiction af því kaflarnir væru ekki í réttri tímaröð. Það var jafnvel til fólk sem áttaði sig engan veginn á því hvað var í gangi og héldu að það væru mistök fólgin í því að persóna hefði dáið í einum kafla en birst aftur í þeim næsta. Lukkulega fyrir það fólk kom Everybody Loves Raymond (auðvelt skotmark) fljótlega á sjónarsviðið þannig að það fékk skemmtiefni sem það gat ráðið við.

Það sem er áhugavert við Honey Bunny línuna er að ég hef ekki fundið neina aðra raunverulega gloppu í söguþráð myndarinnar. Það að horfa oft á Pulp Fiction hefur orðið til þess að ég sé að sagan myndar betri heild en þessi uppskipting gæti gefið til kynna.

Sem dæmi er eitt sem ég veit að fólk hefur kvartað yfir. Af hverju rekst Butch (Bruce Willis) á Marcellus Wallace (Ving Rhames)? Er það ekki óhóflega mikil tilviljun. Ef þú raðar öllu í rétta tímaröð sést að það passar.

Marcellus Wallace var greinilega í íbúð Butch með Vince (Travolta) en hafði skroppið út til að kaupa handa þeim morgunmat. En er ekki skrýtið að glæpaforinginn sé í svona skítaverkefni? Undir öðrum kringumstæðum hefði það verið Jules (Jackson) að vinna með Vince en hann er hættur og farinn. Wallace er fáliðaður og tekur að sér tiltölulega hættulaust verkefni svo aðrir menn hans geti séð um leitina.

Tarantino leyfir fólk að leysa þessa (veigalitlu) gátu og er sama þó allir tengi ekki þræðina. Þetta er ekki eitthvað gáfnapróf heldur andstæðan við þá áráttu að tyggja allt ofan í áhorfendur.

Ýmislegt sem ég held að hægt væri að túlka sem gloppur í myndinni er í raun komið til vegna þess að persónurnar eru ekki rosalega klárar. Persóna Bruce Willis undirstrikar þetta með því að hrósa sjálfum sér fyrir afrek sem byggði fyrst og fremst á kæruleysi annarra. Hann segir glæpamennina hafa vanmetið sig sem er akkúrat öfugt við það sem gerðist. Þeir héldu einfaldlega að hann væri ekki nógu vitlaus til að snúa aftur heim til sín.

Margir kvikmyndaleikstjórar hafa gert atriði þar sem karakter sprautar sig með vímuefnum (næstum því jafn mikil klisja og sígarettuatriði). Tarantino gerir það með stíl en ólíkt flestum þá nær hann að rústa sjónrænu rómantíkinni með ofneysluatriðinu. Uma Thurman með æluna út á kinn er mun eftirminnilegri.

Það þyrfti kannski að tala um hvern leikara fyrir sig en ég er þegar búinn að skrifa of mikið. Harvey Keitel, Tim Roth, Eric Stoltz, Rosanna Arquette … Og auðvitað Julia Sweeney. Ég nefndi við Gunnstein að ég hefði hitt þá síðastnefndu og hann svaraði mér að ég hefði líka sagt honum það þegar við horfðum fyrst á myndina. Annars er frægasta mynd hennar It’s Pat is líka frá 1994 (aldrei séð’ana og langar ekki). Síðan má auðvitað nefna að Steve Buscemi var lítt þekkjanlegur sem Buddy Holly.

Christopher Walken er með eitt besta „inn og út“ atriði í kvikmyndasögunni. Mig grunar að það sé til fólk sem man ekki eftir neinu öðru úr Pulp Fiction. Einræðan er auðvitað frábær á pappír en Walken neglir hana.

Einu sinni var ég spenntur fyrir því að vita hvað væri í skjalatöskunni en auðvitað er þetta bara vísun í „feðginin“ sem bóka sig á gistihúsið í Léon.

Myndin er ekki gallalaus og það sem ég tek kannski helst eftir er að ég hef minna þol fyrir niðrandi orðum. Fólk misskilur oft svona gagnrýni á notkun á hlutum eins „n-orðinu“. Ég er ekki reiður. Þetta er bara svo óhóflegt að það verður hálfkjánalegt. Atriðið í kjallaranum með „gimpinu“ fellur í svipaðan flokk hjá mér.

Pulp Fiction hefur samt staðist tímans tönn. Hún hefði átt að vinna Óskarinn fyrir árið 1994. Við vissum þá þegar að hún hefði breytt kvikmyndum, að hún myndi enduróma árum saman. The Shawshank Redemption er frábær myndi en áhrifalítil. Forrest Gump er kannski ekki jafn slæm og fólk segir en hún er ákaflega veigalítil. Tarantino vann þó allavega fyrir handritið.

Maltin gefur ★★★½.

Þetta var örugglega lengra en Forrest Gump færslan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *