Gagnrýnendur virðast ekki vera hrifnir af Love Hurts en ég var það hins vegar. Þó ég kunni að meta kvikmyndir sem koma mér (jákvætt) á óvart er ég líka hrifinn af myndum sem gera það vel sem ég býst við af þeim. Love Hurts er slík mynd.
Marvin Gable (Ke Huy Quan) er góðlátlegur fasteignasali sem lifir sínu besta lífi þar til fortíðin kemur í heimsókn. Síðan fáum við skemmtileg bardagaatriði. Myndin er líka fyndin en ekki þetta hefðbundna „allir segja endalaust svalar og hnyttnar línur“. Ég tel það líka kost að myndin er stutt.
Ke Huy Quan var auðvitað þekktur fyrir persónur sem voru full steríótýpulegar þegar hann var krakki (Short Round í Temple of Doom og Data í Goonies) en hefur átt óvenjulega endurkomu undanfarin ár, þá sérstaklega í Everything Everywhere All at Once (2022) sem hann hlaut Óskarinn (besti leikari í aukahlutverki) fyrir.