Fyrsta sinn í bíó

Ég var að lesa Naflaskoðunina og þar var Sigurrós að tala um að hún hefði verið of ung til að sjá The Neverending Story í bíó. Ég þurfti náttúrulega að benda á að ég sem er jafngamall henni hefði séð þá mynd í bíó (það hefur líklega verið 1985 (myndin er frá ’84)).

En þetta var ekki fyrsta myndin sem ég fór á í bíó, ég hef reyndar ekki hugmynd um á hvaða mynd ég fór fyrst í bíó. Fyrsta myndin sem ég man eitthvað eftir var mynd sem fjallaði um fjölskyldu sem var skipreka á eyju með vondum björnum. Sá hana reyndar einhvern tíman löngu seinna á Stöð 2 en hef ekki hugmynd hvað sú mynd heitir.

Sú mynd sem ég man fyrst almennilega eftir er hins vegar Footloose. Þá snilldarmynd ætti ekki að þurfa að kynna fyrir neinum. Kevin Bacon sem stórborgarstrákur sem flytur í smábæinn og er kúgaður þar, fær ekki að dansa út af prestsvitleysing (er hér um að ræða upphaf andúðar minnar á trúarbrögðum?). Kevin sannar sig svo um munar og talar um Slaughterhouse Five (sem ég hef ekki lesið).

Tónlistin skiptir höfuðmáli í Footloose, titillagið þekkja allir en margar fleiri perlur eru þarna. Bonnie Tyler er með Holding out for a Hero, Almost Paradise með einhverju fólki sem ég kannast ekki við og haugur af öðrum lögum. Þegar ég var nýbúinn að sjá myndina þá hlustaði ég á spólu með þessum lögum áður en ég fór að sofa, Anna systir átti/á plötuna og vissulega á ég diskinn núna (því miður ekki afmælisútgáfuna með aukalögum).

Næst man ég eftir að hafa farið á Karate Kid, síðan líklega Goonies og myndina um systur He-Man. Verst að ég var ég ekki byrjaður að hirða bíómiða þarna (ekki það að nafn myndarinnar hafi komið fram á miðum þess tíma). Goonies þótti mér góð á sínum tíma en grunar reyndar að hún eldist illa, man að ég heyrði að Sean Astin hafi gengið út þegar var verið að taka upp commentary fyrir dvd-diskinn. She-Ra systir He-Man hefur líklega heldur ekki enst vel. Það er annars eina barnamyndin sem ég man eftir að hafa farið á þar til að ég fór Bamba cirka 15 ára gamall.

Endist Karate Kid vel? Allavega betur en framhaldsmyndirnar. Hef ekki séð hana lengi en vitna oft í hana, aðallega þá úrslitasparkið eða skrúbbæfingarnar.

Og núna fer ég varla í bíó vegna þess hvað það kostar mikið, mér þykir aðeins of vænt um peningana mína til þess að eyða svipað miklu í bíóferð með kærustunni og myndi kosta að kaupa myndina á dvd. Sorglegt en satt.

5 thoughts on “Fyrsta sinn í bíó”

  1. Já…ég fór víst svo seint á mína fyrstu mynd í bíó að stóru systur minni fannst það algjört hneyksli. Fyrsta myndin sem ég sá í bíó var Ronja ræningjadóttir en þar sem ég man ekkert hvaða ár hún var fyrst sýnd þá get ég víst ekki tjáð mig nánar um hvenær það var… 😉

  2. Ég man a.m.k. að þegar ég sá Never Ending Story fyrst var hún uppáhaldsmyndin mín og gott ef lagið með Peter Cetera úr Karate Kid var ekki uppáhaldslagið mitt …

  3. Karate Kid II afsakið. En núna er það ekki einu sinni lengur uppáhalds-Power of Love lagið mitt (voru þau ekki 4 sem hétu það á örfáum árum?)- það er Frankie Goes to Hollywood Ástarkrafturinn. Kannski ætti að endurskíra níunda áratuginn Power of Love?

Lokað er á athugasemdir.