Ég held að íslenski titill myndarinnar sjáist hvergi nema á bíótjaldinu. Á ensku er þetta The Seed of the Holy Fig og ég held að sá titill hafi verið notaður í allri umfjöllun um Óskarsverðlaunatilnefningu myndarinnar í íslenskum fjölmiðlum (lélegt). Líkingarmál titilsins er útskýrt í myndinni.
Íranskur maður er skipaður rannsóknardómari við Íranska byltingardómstólinn á sama tíma og mótmæli hefjast vegna grunsamlegs dauða Mahsa Amini árið 2022. Ólgan nær inn á heimili hans þar sem eiginkonan reynir að halda frið milli mannsins síns og dætra.
Ég vissi ekki að í myndinni það yrðu sýndar raunverulegar upptökur frá ofbeldi íranskra yfirvalda gegn mótmælendum. Það var frekar óþægilegt og hafði líklega þveröfug áhrif á mig en ætlunin var. Sumsé, ég fjarlægðist sögu myndarinnar sjálfrar. Auðvitað gæti markmiðið einfaldlega hafa verið að vekja athygli á þessu ofbeldi.
Það er kannski í gegnum myndina er að hún virkar mikilvæg út af samhenginu en mér finnst hún ekki endilega spila nægilega vel úr því. Hún er bæði löng og frekar langdregin. Síðan virtist tónninn breytast alveg rosalega mikið í lokahluta myndarinnar og mér fannst það ekki virka sérstaklega vel.
Myndin er samt góð þegar litið er til heildarinnar en hún er líka erfið á köflum.
Auðvitað vekur myndin minningar um Persepolis sem mér fannst betri mynd.