Con Air (1997)👍👍
{113-ø-ø-34}

Faðir reynir að komast heim til konu og barns en lendir í ótrúlegustu ævintýrum með ýmsum skrautlegum karakterum sem eiga sér margvísleg og ansi óvenjuleg áhugamál.

Söguþráðurinn er fáránlegur og persónurnar eru hálfgerðar teiknimyndafígurur. Myndin er á köflum hálfpólitísk en rokkar á milli og er því hvorki né.

Af hverju líkar mér við þessu stórheimskulegu mynd? Kannski af því að það er ekki hægt að taka Con Air alvarlega. Líklega skiptir þó mestu máli að frábærir leikarar eru greinilega að njóta sín.

Nicolas Cage tók greinilega margar ákvarðanir varðandi persónu sína og þær voru ekki allar góðar en virka á sinn hátt. John Cusack (sem fylgdi mér þegar ég var enn á Twitter) er voðalega mikið bara hann sjálfur. John Malkovich í yfirkeyrslu. Steve Buscemi heldur aftur af sér og það virkar. Ving Rhames virðist voðalega glaður og það smitar eiginlega út frá sér.

Ég sá þessa ekki bíó á sínum tíma enda búinn að fá nóg af Bruckheimer/Simpson (sá síðarnefndi lést reyndar áður en þessi mynd var gerð). Con Air mynd fellur alveg í flokk mynda þeirra félaga en er hálfgert meistaraverk þeirrar kvikmyndgerðar.

Endir myndarinnar er sérstakt afrek í yfirgengileika.

Maltin gefur ★★ og það er í sjálfu sér alveg sanngjarnt.