The ‘Burbs (1989)👍👍
{115-ø-ø-ø}

Úthverfafólk verður tortryggið í garð nýrra nágranna vegna undarlegrar hegðunar. Mynd frá leikstjóranum Joe Dante með Tom Hanks í aðalhlutverki.

Þó The ‘Burbs sé ekki í jafn miklu uppáhaldi hjá mér og Gremlins myndirnar eða Matinee (eða jafnvel Small Soldiers?) hef ég séð hana ótal sinnum. Hún er fyndin en er líka ádeila á sataníska panikk síns tíma.

Myndin er frá því tímabili sem Tom Hanks var aðallega frægur fyrir að vera gamanleikari og skoðið þegar hann kemur niður af pallinum í lok myndarinnar. Snilld.

Við höfum líka Carrie Fisher (sem vann stundum með Dante í „handritalækningum“), Bruce Dern (var víst m.a. með spurningakeppnir við upptökur), Rick Ducommun, Henry Gibson og Wendy Schaal (fastaleikari Dante). Dick Miller og Robert Picardo eru með Dante eins og venjulega. Rance Howard kemur líka fyrir í lokin.

Myndin er tekin upp hjá Universal. Húsin í götunni gætu verið kunnugleg. Þarna var t.d. Desperate Housewives tekið upp.

Ólíkt nær öllum kvikmyndum var The ‘Burbs tekin upp í tímaröð. Það varð til þess að leikarar gátu spunnið meira en venjulega (af því það þarf ekki að vanda sig svo það passi við eitthvað sem var þá þegar búið að taka upp).

Myndin byggist, líkt og margar myndir Dante, á ákveðinni teiknimyndalógík. Mér finnst það ákaflega vel heppnað og fyndið en skil vel að það höfði ekki til allra.

Endirinn er kannski veikasti punkturinn. Það má spyrja hvort hann grafi undan því sem á undan kom. Það voru víst þónokkrar útgáfur skotnar og einn fylgdi með í vinnuprentinu¹. Hann er miklu afdráttarlausari, sem er hiklaust verra. Mun betra að hafa þetta órætt.

Maltin gefur ★★ sem ætti ekki að koma á óvart. Joe vinur hans fékk aldrei neina miskunn.

¹ Í fyrra keypti ég The ‘Burbs á Bluray. Ástæðan var fyrst og fremst að mig langaði að sjá „vinnuútgáfu“ (ekki leikstjóraútgáfu) Joe Dante sem fylgdi með. Þarna er myndin grófklippt og undir hljómar tónlist tekin úr ýmsum kvikmyndum, mest áberandi eru spaghettivestrastef. Tónskáldið Jerry Goldsmith hefur væntanlega fengið nokkurn veginn þessa útgáfu til að undirbúa sitt framlag. Líklega er verið að brjóta einhvern höfundarétt með þessari útgáfu en þetta er ekki spennandi fyrir neinn nema aðdáendur myndarinnar.