Tvær eldri systur sem áður böðuðu sig í sviðljósinu deila heimili og lifa í fortíðinni, hvor á sinn hátt.
Af einhverjum ástæðum hélt ég að What Ever Happened to Baby Jane? væri meira alræmd en góð. Hún er auðvitað einna frægust fyrir deilur Joan Crawford og Bette Davis. Sú hófst löngu áður en tökur á myndinni hófust og stóð til æviloka.
Líklega eru ekki allar, ekki nærri allar, sögur af erfiðum samskiptum Bette og Joan sannar.¹ Ein stendur uppúr af því hún byggir á einföldum staðreyndum. Hún tengist einmitt What Ever Happened to Baby Jane?.
Bette Davis var réttilega tilnefnd til Óskarsverðlauna sem leikkona í aðalhlutver. Joan fékk ekki tilnefningu sem aukaleikakona þrátt fyrir vonir um slíkt. Sagt er að Joan Crawford hafi haft samband við allar leikkonurnar sem voru tilnefndar í sama flokki og Bette með sama boðið. Þegar Anne Bancroft vann Óskarinn gat hún ekki verið á staðnum en í hennar stað mætti Joan Crawford og tók við styttunni meðan Bette horfði. Ég eiginlega dáist að þessu sem afreki í skíthælaskap.
Það er Bette Davis í titilhlutverkinu sem á What Ever Happened to Baby Jane?. Hún lítur skelfilega út. Ekki af því hún virðist vera gömul² heldur af því persónan er að reyna að endurskapa útlitið frá því hún var stjarna. Barnastjarna. Bette sá víst sjálf um förðunina.
What Ever Happened to Baby Jane? er meira sálfræðihryllir en hryllingsmynd. Það er varla blóð en atriði sem geta valdið óhug hjá allskonar fólki. Samt er hún líka á köflum ákaflega fyndin og mér finnst hún dansa mjög lipturt á þeirri línu. Margar af fyndnustu senunum eru með Victor Buono í hlutverki tónlistarmanns.
Það eru augljós tengsl milli Sunset Boulevard (1950) og What Ever Happened to Baby Jane? hvað varðar efnivið. Báðar fjalla um gamlar kvikmyndastjörnur sem lifa í fortíðinni og eiga erfitt að fóta sig í raunveruleika sínum. Það er samt ekki eins og Baby Jane sé eftirmynd eldri myndarinnar. Þær fara nefnilega mjög misjafnlega með þemun.
Maltin gefur ★★★½.
Óli ætlar að ganga alla leið og segja ★★★ ★★👍👍🖖.
Annars er munurinn á Óla og Leonard að einkunnir þess síðarnefnda falla ágætlega að normalkúrvu en sá fyrrnefndi (sem talar hér um sig í þriðju persónu) notar ákveðin viðmið og er með jafnari dreifingu á stjörnugjöf.
¹ Það voru gerðir sjónvarpsþættir um deilur Bette og Joan en voru framleiddir af sama manni og gerði nýju þættina um Ed Gein þannig að gera má ráð fyrir sömu aðferðarfræði. Sumsé, gert ráð fyrir að allar sögur og tilgátur séu sannar.
² Þó fæðingarár Joan Crawford sé óljóst voru þær báðar líklega undir sextugu. Það er reyndar undirstrikað í spjalli nágranna við dóttur sína að persónur þeirra eru ekki mjög gamlar heldur. Dóttirinn kallar persónu Bette feita. Sú er leikin af konu sem heitir Barbara Davis Hyman. Sumsé raunveruleg dóttir Bette.
