Fortíðin ásækir gamla víkinga sem frömdu ódæðisverk á árum áður.
Það var ógurlega langt síðan ég hafði séð Hrafninn flýgur. Samt var ég alveg með augun opin en vildi sjá hana í háum gæðum. Þannig að það lá beint við að fara á hana í Bíó Paradís, sérstaklega þar sem var töluverður áhugi hjá öðrum á heimilinu. Leikstjórinn var greinilega spenntur líka því hann sat á fremsta bekk.
Frá því að ég sá Hrafninn flýgur síðast hefur það augljósa gerst að ég hef séð kvikmyndir frá Akira Kurosawa og Sergio Leone. Það skiptir máli því Hrafn Gunnlaugsson var auðvitað undir áhrifum frá þeim myndum. Sumir hafa tekið dýpra í árinni.
Í stuttu máli má segja að Hrafninn flýgur sé betri en ég bjóst við en ekki jafn góð og margir vilja segja. Vísanirnar í Kurosawa og Leone eru svo augljósar að ég á erfitt með að ímynda mér að Hrafni hafi dottið í hug að fólk sæi þær ekki. Kannski er þetta „heiðrun“.
Tónlistin í Hrafninn flýgur er almennt góð. Hún er eftir Harry Manfredini sem samdi víst líka tónlistina við upprunalegu Friday the 13th. Þarna var auðvitað verið að spinna við Á Sprengisandi en mér fannst samt fleira kunnuglegt. Í lokabardaganum tengdi ég loksins. Þetta hljómaði mjög svipað tónlist Ennio Morricone úr Dollaramyndunum.
Það var eilítið skrýtið að persónan Gestur fékk aldrei að heita neitt annað. Þarna er blanda af íslenskum menningararfi og kvikmyndavísunum á ferð. Hann á að vera „nafnlausi“ maðurinn. Það gengur ekki alveg upp því á ákveðnum tímapunkti lá svo beint við að við fengjum að heyra nafnið að það er ósannfærandi að það hafi ekki verið sagt.
Ég skal sleppa að kryfja nákvæmlega það sem mér fannst aðfinnsluvert sögulega séð í Hrafninn flýgur, aðrir hafa séð um það. Mér fannst reyndar skondið að sjá slétt tún, sem er ekki beinlínis náttúrulegt ástand íslenskrar náttúru. Síðan hefði ég viljað heyra Íra tala írsku, það hefði verið nokkuð auðvelt að leysa það mál.
Leikararnir í Hrafninn flýgur eru flestir mjög fínir. Jakob Þór Einarsson er í þeirri óöfundsverðu stöðu að vera borinn saman við Clint Eastwood og Toshirō Mifune en sleppur bara vel. Helgi Skúlason gnæfir auðvitað yfir aðra, andlitið á honum eitt og sér hækkar stjörnugjöf myndarinnar. Það eru grunsamlega fáar konur á svæðinu. Edda Björgvinsdóttir er sú eina sem fær að segja meira en örfá orð.
Óli gefur ★★★⯪☆👍.
