Átján ára strákar vilja prufa kynlíf.
Ég sá American Pie tvisvar í bíó á sínum tíma. Hún tók líka pláss í dægurmenningu síns tíma. Það er ein lína úr myndinni sem ég man eftir að hafa endurtekið óhóflega.
… and one time, at band camp, …
Það er vanmetið hve miklu máli skiptir að sjá gamanmyndir í bíó. Það er ákveðin orka sem fylgir því að vera hluti af stórum hóp sem hlær að því sama. Kynjahlutfallið var töluvert skekkt í bíósalnum núna en rétt hjá mér voru konur sem skemmtu sér greinilega stórkostlega.
American Pie var afturhvarf til kynlífsgamanmynda níunda áratugarins. Ég held að kynjapólitík myndarinnar sé skárri en halda mætti, aðallega af því að brandararnir eru meira og minna á kostnað gaurana. Það er hægt að túlka boðskap myndarinnar á ólíkan hátt en „prufaðu að tala við og hlusta á stelpur“ er nokkuð stöðug lexía. Ég get ekki sagt að atriðið með vefmyndavélina hafi elst illa því á sínum tíma áttaði ég mig alveg á því.
Undarlegasta arfleifð American Pie er auðvitað skammstöfunin MILF.¹ Handritshöfundur myndarinnar bjó hugtakið reyndar ekki til því. Í grein Laurel A. Sutton frá árinu 1995, Bitches and Skankly Hobags, er fjallað um hugtakanotkun karlkyns háskólanema í Kaliforníu árið 1992 og þar á meðal um MILF.
Í American Pie er MILF notað til að sýna þroskaskort þeirra drengja sem útskýra hvað það stendur fyrir (m.a. John Cho í hlutverki „MILF Guy No. 2“). Þetta leiðir auðvitað til vafasams atriðis með „Stiffler’s Mom“ og „Skítapásu“.²
Þeir fjórir sem léku aðalhlutverkin, strákahópinn í American Pie hafa ekki átt sér glæstan feril. Jason Biggs komst næst því að ná raunverulegum árangri en það stóð ekki lengi. Seann William Scott sem Stiffler hefur náð töluvert meiri frama en kjarnahópurinn.
Í raun eru stelpurnar mun eftirminnilegri sem leikkonur. Alyson Hannigan var þá þegar þekkt fyrir hlutverk sitt í Buffy, var gjörsamlega æðisleg hérna og hefur leikið í mörgu síðan. Natasha Lyonne er ennþá að gera mjög skemmtilega hluti. Mena Suavari (sem lék sama ár í annarri „American“ sem hefur elst mun verr en þessi) hefur kannski minnst leikið. Tara Reid átti skarpa niðursveiflu en virðist hafa fundið sér ákveðna hillu (hún lék líka systur Brendan Fraser í Scrubs).³
Þeir leikarar sem fengu mest út úr American Pie voru líklega Eugene Levy (vandræðalegasti pabbinn) og Jennifer Coolidge (mamma Stifflers og vandræðaleg öðruvísi).
Eugene Levy var auðvitað búinn að vera að mjög lengi, meðal annars í sjónsvarpsþáttunum SCTV,⁴ en var ekki beinlínis nafn sem fólk þekkti almennt. Hann kom líka fram í átta af níu myndum sem gefnar voru út í American Pie flokknum, fjórar í aðalseríunni og hinar beint á DVD (eða streymi). Nú er hann líklega þekktastur fyrir Schitt’s Creek.
Jennifer Coolidge var nær óþekkt fyrir en hefur unnið nær stöðugt frá 1999, meðal annars með Levy í háðheimildarmyndum Christopher Guest og var víst góð í nýlegri seríu af White Lotus.
Orðspor American Pie er mun verra en myndin á skilið. Ef ég ætti að gefa einkunn út frá hlátri í bíósalnum fengi hún fimm stjörnur.
Maltin gefur ★★★☆.
Óli gefur ★★★★☆👍👍.
¹ Ef þið vitið ekki hvað MILF stendur fyrir getið þið kíkt á Wikipediu (þar er Jennifer Coolidge sýnd sem dæmi) en ég skal gefa ykkur vísbending, þetta stendur ekki fyrir Moro Islamic Liberation Front sem börðust fyrir sjálfstæði múslima á Mindanao á Filipseyjum. Árið 2016 var samið um sjálfsstjórn og því hefur MILF lagt niður vopn. Á bak við tjöldin á MILF-síðunni á Wikipediu er mjög langdregin umræða um aldursbil og nauðsyn barneigna.
² Lesendur gamla bloggsins muna kannski að ég notaði gælunafnið „Skítapása“ á gaur sem ég vann með.
³ Líklega lék Tara Reid í Scrubs því hún er æskuvinkona Donald Faison (sem lék líka í Clueless). Þau urðu góðir vinir í listaskóla (ekki háskóla). Hún kom fram í Scrubs-hlaðvarpinu Fake Doctors, Real Friends og spjallaði við Donald og Braff.
⁴ Levy kom fyrst fram á sjónarsviðið í Kanada þegar hann tók þátt í frægri uppfærslu af söngleiknum Godspell ásamt hóp leikara og tónlistarmanna sem áttu eftir að slá í gegn í Bandaríkjunum s.s. Victor Garber, Andrea Martin, Gilda Radner, Dave Thomas, Paul Shaffer og Howard Shore. Seinna var hann hluti af Second City Toronto (og SCTV) og vann með fólki eins og John Candy, Andrea Martin, Rick Moranis, Catherine O’Hara, Harold Ramis, Martin Short og Dave Thomas.
