„Sértrúarsöfnuður trúleysingja“

Mér leiðist og ætla því að taka fyrir greinina sem var skrifuð um Vantrú um daginn á Íhald.is. Lalli var þegar búinn að skrifa aðeins um þetta.

Ég læt vera að skrifa [sic] fyrir aftan allar stafsetningar- og málfarsvillur (eða innsláttarvillur ef ég á að vera örlátur) í upprunalegu greininni, það væri bara of mikil vinna.

Trúleysingjar á Íslandi hafa safnast nokkrir saman í hóp og stofnað vefsíðu, www.vantru.is. Þetta gerðist nú reyndar ekki í gær þannig að það er svo sem engar fréttir þó að nokkrir ungir drengir stofni síðu sem fjallar um að trúa á ekki neitt.

Akkúrat. Fyrsta tilraunin til árásar er að gefa í skyn að Vantrúarmenn séu einhverjir krakkar. Ég er yngstur þeirra sem kom að stofnun Vantrúar og er árinu eldri en Gísli Freyr Valdórsson sem skrifaði þessa grein á Íhald. En við erum þó kátir og ungir í anda sem gæti ruglað fólk.

Nú var maður hér á landi síðustu helgi að halda ráðstefnu um að trúa á ekki neitt.

Nei, það var hér haldinn ráðstefna sem hét Jákvæðar raddir trúleysis. Enginn af þeim fjölmörgu erlendum gestum sem komu á ráðstefnuna „hélt“ hana.

Það er einnig athyglisvert að skoða ,,commentin” sem koma á eftir greinunum. Þau eru aðallega frá öðrum pennum síðunnar að segja hvor öðrum hversu góðar greinarnar þeirra eru, hversu sammála þeir séu og hvað allir í heiminum séu miklir fáv…., þó sérstaklega nafngreindir trúaðir menn á Íslandi.

Þetta er augljóslega helber vitleysa. Vissulega kemur fyrir að við hrósum hver öðrum fyrir góðar greinar en það er bara örlítill hluti af athugasemdum okkar (og hvers vegna notar Gísli orðið „comment“? Við gerum það ekki). Það er hins vegar bara lygi að halda því fram að við séum að kalla trúmenn upp til hópa fávita. Það að einhver trúi á guð eða eitthvað annað þýðir ekki að hann sé fáviti og við myndum aldrei halda því fram.

Nú er íhald.is ekki síða um trúmál. Það er ekki tilgangur síðunnar að sanna tilveru Guðs, sonar Hans, né hins Heilaga Anda. Hins vegar vakti það athygli mína hvernig þessi fámenni hópur talar um alla sem telja sig hafa upplifað eitthvað æðra okkar mannlega skilningi, þ.e.a.s. trúa á eitthvað æðra máttarvald.

Íhaldið hefur nú brennt sig á að tjá sig um trúmál. Til að mynda var Hjörtur J. Guðmundsson rassskelltur af Vantrú fyrir bjánalega grein sína um þróunarkenninguna fyrir nokkru. Hann hafði nú vit á að þegja bara og svara Vantrúargreininni ekki enda hefði slíkt bara þýtt að Hjörtur hefði aftur verið rassskelltur.

Þessi fyrrgreindi maður heitir Richard Dawkins og er víst einhver frægur trúleysingi.

Richard Dawkins er frægur þróunarlíffræðingur og varð fyrst og fremst þekktur fyrir skrif sín um þau málefni. Nú eru Íhaldsmenn ekki vel að sér í þróunarkenningunni þannig að það kemur ekki á óvart að þeir þekki ekki Dawkins.

Í viðtali í Kastljósi beitir Dawkins því helst fyrir sér að þeir sem trúa á eitthvað hugsi ekki. Þeir sem á eitthvað trúa hugsi ekki sjálfstætt og jafnvel ekki neitt. Svipaðar röksemdir eru hafðar uppi á vantrúarsíðunni – það eru sem sagt allir hálfvitar nema Richard Dawkins og nokkrir strákar á Íslandi. Allir þeir hundruði milljóna ef ekki milljarða af fólki sem trúir á eitthvað æðra því sjálfu og því sem við sjáum í kringum okkur hugsar ekki sjálfstætt. Mikið er nú gott að Dr. Dawkins kom til að upplýsa okkur um það.

Enn og aftur þá er þetta bara ekki satt. Dawkins hefur aldrei sagt að trúmenn hugsi ekki. Þetta er bara ódýr brella hjá Íhaldsmanninum til þess að reyna að vekja andúð lesandans á Dawkins að ástæðulausu. Það er líka lygi að Dawkins haldi því fram að allir sem trúi séu hálfvitar. Getur Íhaldsmaðurinn ekki farið rétt með neinar staðreyndir?

En Dawkins (sem er vísindamaður eins og hann tók nokkrum sinnum fram í viðtalinu) telur fólk vera afvegaleitt þegar það sækir kirkju. Orðrétt segir hann auglýsingar kirknanna ,,gæða trúna spennu fyrir treggáfað fólk.” (e.low grade mentality) Já, það eru víst ekki allir jafn gáfaðir og Dawkins og litli vantrúarhópurinn á Íslandi. Hrokinn leynir sér ekki í þessum ummælum Dawkins. Mega kirkjur ekki auglýsa sig? Eiga kirkjur aðeins að starfa í leynum og bak við luktar dyr?

Ég þori nú að veðja að Vantrúarhópurinn er töluvert stærri en Íhaldshópurinn. Þýðingin á frasanum low grade mentality er slök og þar á Gísli ekki sök á heldur treystir hann á lélega þýðingu. Mentality í þessu tilfelli þýðir hugarfar, ekki greind. Dawkins var semsagt að tala um auglýsingamennsku á lágu plani og að trú sé auglýst eins og sápa.

Og auðvitað þurfti Dawkins líka að koma pólitískum skoðunum sínum að, ,,sú þjóð sem kýs yfir sig George W. Bush er ansi furðuleg þjóð. Engin önnur þjóð í heiminum hefði kosið svo lélegan kost. Trúarleg öfl virðast að mestu leyti hafa átt þátt í kjöri hans.”

Já. Fáir trúleysingjar deila aðdáun Íhaldsmanna á Bush og mörg okkar telja að trúarhópar hafi haft áhrif á að hann komst til valda.

En að kalla alla illum nöfnum sem trúa á eitthvað telja sig yfir alla hafna af því að þeir ,,viti betur” og ,,hugsi sjálfstætt” er ekkert nema hroki. Það eru ekki allir öfgamenn eða ofstækismenn þó að þeir trúi því að það sé eitthvað manninum æðra.

Enda kalla hvorki Vantrúarmenn né Dawkins trúmenn öllum illum nöfnum né teljum við okkur yfir aðra hafna. Þar að auki köllum við ekki alla trúmenn öfgamenn eða ofstækismenn. Þetta er skot út í loftið eins og grein Gísla í heild sinni.

En talandi um öfgar og ofstæki. Ég held að flestir pennar www.vantru.is séu ákafari í áhuga sínum heldur en flestir kirkjusækandi og trúaðir menn á Íslandi. En ég hef nú ekkert sérstakt fyrir mér í því þannig að ég skal glaður éta það ofan í mig ef svo er ekki. Reyndar skilst og sýnist á þessari umræðu að maður þurfi ekki að hafa mikið fyrir sér í neinu. Bara segjast hugsa sjálfstætt.

Vissulega höfum við áhuga á þessum málum en hvað um það? Þarf ég að réttlæta áhugamál mín fyrir Gísla? Ef Gísli telur að það þurfi ekki að hafa mikið fyrir sér til að skrifa á Vantrú þá vil ég benda á að ólíkt Íhaldssíðunni þá leyfum við hverjum sem er að gagnrýna skoðanir okkar í opnu athugasemdakerfi. Ef við höfum rangt fyrir okkur þá getur Gísli komið í heimsókn og reynt að hrekja málflutning okkar.

En er lífið ekki bera skemmtilegra þegar mál eins og trú, ástir, listir, menning, náttúra og margt fleira bætist við það?

Augljóslega er bara eitt í þessu sem Vantrúarmenn vildu klippa út. Það að gefa í skyn að við höfum eitthvað á móti ást, listum, menningu og náttúrunni er bara fáránlegt og erfitt að skilja hvað Gísli er að fara með þessu.

Semsagt, lygar, útúrsnúningar og helbert kjaftæði.

Það er kannski best að benda um leið á tveggja ára gamla Vantrúargrein: Þið eruð ekki fífl.

8 thoughts on “„Sértrúarsöfnuður trúleysingja“”

  1. Þær fáu greinar sem ég hef slysast til að lesa á vefritinu ihald.is eru allar á þennan veg; illa skrifaðar og ómálefnalegar.

    Svona greinaskrif gera ekkert gagn í dægurmálaumræðunni, og því hætti ég að lesa þau.

  2. Varðandi Bush, þegar hann var kjörin síðast þá sýndu kannanir í Evrópu að í löndum álfunnar væri Kerry með fylgi u.þ.b. 6 af hverjum 7 Evrópubúa. Þannig að það er einfaldlega sannað að afskaplega fáar þjóðir myndu kjósa Runnan yfir sig og ekki óeðlilegt að sú þjóð teljist ansi furðuleg að því leyti.

  3. Reyndar man ég ekki betur en að Dawkins hafi sagt e-ð á þá leið í Kastljós-viðtalinu „religion is an easy way of non-thinking“ sumir taka þetta eflaust sem móðgun.

  4. Mig minnir að í „Root of all evil?“ hafi hann sagt eitthvað á þessa leið: „….the process of non-thinking called faith…“.

  5. Ætli það hafi ekki verið þetta sem Hjalti segir. Nenni nú ekki að fara yfir viðtalið aftur þó það hafi reyndar verið mjög fróðlegt.

Lokað er á athugasemdir.