Eftir útskriftina mína í október þá þurfti ég að sækja um að fá leyfi til að kalla mig bókasafns- og upplýsingafræðing. Til þess þá þurfti ég að senda nokkur skjöl til Menntamálaráðuneytisins. Þetta er mjög einfalt afgreiðslumál. Kíkja á skjölin til að sjá hvort að það standi ekki örugglega að ég hafi útskrifast úr faginu og síðan fylla út einfalt skjal. Það tók mánuð að fá þetta skjal.
Ég held semsagt að ég hafi haft rangt fyrir mér þegar ég hélt því fram að Jónína Bjartmarz hafi ekkert gert beint til að hjálpa tengdadóttur sinni. Afgreiðslan var alltof fljót til þess að hér sé um eðlilega málsmeðferð að ræða. Það hlýtur að hafa verið ýtt á eftir þessu og Jónína hlýtur að hafa komið að því á einhverju stigi málsins.
Þetta er í raun bara rakhnífur Occams. Tóku embættismenn skyndilega upp á því að vera ákaflega fljótvirkir í akkúrat þessu tilfelli eða hafði Jónína (eða einhver á hennar vegum) óeðlileg afskipti af þessu? Einfaldari lausnin er líklega rétt. Nema að ég sé að setja upp falska klemmu og það séu aðrir möguleikar.
Það er líka ljóst að Jónína ætlaði að blekkja almenning þegar hún fór að tala um mannréttindamál í Gvatemala. Þau komu málinu greinilega ekkert við.
Verst að við búum á Íslandi þar sem menn þurfa ekki að taka ábyrgð á gjörðum sínum, ja, nema Þórólfur borgarstjóri.