Komandi stjórn

Ég vona að ég komi ekki með fleiri stjórnmálaskýringar í bráð.  En…

Ég er ekkert sérstaklega trúaður á að þessi ríkisstjórn sem er að taka við verði neitt sérstaklega farsæl. Ég held til dæmis að þessi mikli meirihluti þurfi ekki að verða stjórninni að gagni. Í fyrsta lagi verða árekstrarnir harkalegri. Í öðru lagi munu verða deilur innan Samfylkingarinnar. Ég held að vinstri kanturinn verði ekkert rosalega kátur með öll verk stjórnarinnar.

Ingibjörg Sólrún sem, samkvæmt goðsögninni, sameinaði vinstri menn í borginni og felldi íhaldið gerði ekki einu sinni heiðarlega tilraun til að gera þetta í landsmálunum heldur framlengdi stjórn Sjálfsstæðisflokksins í 20 ár.  Frekar ómerkilegur endir.  Samfylkingin er öll í réttlætingunum en það er bara innantómt hjal.

Það er mikið talað um að VG og Framsókn hefðu ekki getað unnið saman. Ég er viss um að málamiðlun hefði náðst.  Það sem er hins vegar ekki talað um er að margir innan Framsókn þola ekki Ingibjörgu Sólrúnu vegna þess hvernig hún yfirgaf R-listann.  Þessi andúð hefði jafnvel getað komið í veg fyrir það að hún yrði forsætisráðherra.

11 thoughts on “Komandi stjórn”

  1. Það liggur við að það sé fyndið að sjá hvað VG liðar eru alltaf hrikalega hissa á því að R-listamódelið varð ekki ofan á í landsmálum.

  2. Hvaða klúður? Eru ekki tveir flokkar að mynda ríkisstjórn vegna þess að þá langar til þess?
    Í hverju felst eiginlega klúðrið?

  3. Þá hefur Samfylkingin færi á að sýna það núna. Tilboðið er á borðinu. Ég endurtek það sem ég sagði fyrr í vikunni að ég tel ekki rétt að þjóðin hafi hafnað Framsóknarflokknum, ég tel hins vegar að kjósendur flokksins frá árinu 2003, 1999 og 1995 hafi hafnað því stjórnmynstri sem verið hefur.

  4. Tilboðið er á borðinu???’
    Hversu sannfærandi er það tilboð þegar forystumenn Framsóknar og VG rífast stöðugt í fjölmiðlum? Steingrímur Joð heimtar afsökunarbeiðni fyrir teiknimynd og Guðni segir að Steingrímur verði að losa sig við öfgafólkið sem er í kringum hann?
    Hversu sannfærandi er það tilboð, þegar bæði Framsókn og VG hafa gert sitt besta til að komast í stjórn með Sjálfstæðisflokknum?
    Ekki mjög.

  5. Ég endurtek það sem ég hef sagt aftur og aftur. Það er ekkert sem VG og Sjálfsstæðisflokkur hefðu getað samið um í málefnasamningi, það er alveg ljóst. Það eins sem VG sagði var að þeir útilokuðu það ekki enda græddi flokkurinn ekkert á því að gera það fyrir fjórum árum. Allt tal um að VG hafi biðlað til Sjálfsstæðisflokks er spunarugl.

    Ég ætti kannski líka að endurtaka það sem ég sagði um leið og þetta fór allt af stað. Það hefur verið sett á svið leikrit sem segir ekkert um það sem gerðist á bak við tjöldin. Það sem við vitum að gerðist á bak við tjöldin er að Samfylkingin og Sjálfsstæðisflokkur rottuðu sig saman. Ég held að það hafi í síðasta lagi farið af stað á sunnudag.

  6. Þú segir að það sé ekkert sem VG og Sjálfstæðisflokkur hefðu getað samið um í málefnasamningi. Ég hef nú alltaf talið að það væri hægt þótt vissulega hefði það eflaust verið erfitt.

    Ég hins vegar hef alltaf talið að það væri útilokað að VG og Framsóknarflokkurinn gætu náð saman. Er mikið minni málefnaágreiningur á milli þeirra flokka heldur en á milli VG og íhaldsins? Það blasir að minnsta kosti ekki við.

    Þér virðist afar umhugað um að trúa þessari kenningu þinni um plott S og D í algerri blindni. Ég segi bara: Samsæri eða ekki samsæri. VG nýtur einskis trúverðugleika þegar hann heldur því fram núna að hann geti vel starfað með Framsókn.

  7. Ég held að VG og Framsókn eigi einfaldlega eftir að sýna það núna á næstunni að flokkarnir geti vel unnið saman, allavega í stjórnarandstöðu. Ég veit að það er vilji til þess innan beggja flokka.

    Ef þú skoðar stjórnmálafærslur vikunnar Hildur þá sérðu að ég sagði örugglega, þó ég nenni ekki að finna það núna, að augljóslega væru allir að tala við alla þó enginn viðurkenndi það. Ég held hins vegar að það hafi aldrei verið þannig að nein alvara hafi verið í þeim viðræðum, hvorki af hálfu VG né Sjálfsstæðisflokk. Það er bara ekkert að semja um. Samfylkingin er hins vegar með mörg sömu málefni og Sjálfsstæðisflokkurinn þannig að það er mjög stutt á milli og því er auðvelt að skilja hvers vegna þessir flokkar völdu þessa leið.

    Ég man þegar kenningin um VG og Sjálfsstæðisflokkinn kom fram á einum fundi sem ég fór á þá var hún afgreidd með einföldum hætti. Það var sagt að kannski væri tveggja flokka stjórn auðveldari en þriggja flokka stjórn en hérna væri um að ræða tvo flokka með skoðanir.

    Ertu ekki kát að vera komin í stjórn Hildur?

Lokað er á athugasemdir.