Bobby Fischer var ekki hetjan mín í æsku þegar ég var að tefla. Hann var bara þessi dularfulla fígúra. Vissulega var ég nokkuð spenntur fyrir sögum af heimsmeistaraeinvíginu 1972 en ekki rosalega mikið. Ég var ekki neitt sérstaklega spenntur þegar hann kom til landsins en núna þegar hann er dáinn sé ég aðeins eftir því að hafa ekki reynt að hitta á hann. Sérstaklega náttúrulega þegar maður heyrir að hann hafi tekið skákir þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.
Hann var augljósa mjög veikur um það leyti sem hann kom til landsins. Líklega var það að koma hingað það besta sem kom fyrir hann í seinni tíð. Hann hefur haft gott af því að fá að vera í friði. Ég held að það sé ósanngjarnt að leggja of mikla áherslu á hvernig hann var síðustu árin (þó við hunsum það ekki alveg). Hann skaðaði engan með samhengislausu röfli sínu þó það væri oft ógeðfellt og vonandi hefur enginn tekið hann sérstaklega alvarlega. Betra að hugsa um hann sem hrokafulla og skemmtilega karakterinn sem sigraði Spasskí 1972. Hann var kannski þá þegar veikur en hafði allavega ekki misst völdin. Á sínu sviði var hann óumdeilanlega snillingur, verst að snilli hans hjálpaði honum ekki á öðrum sviðum.