Það er sérstök list að vera kúl. Maður verður alltaf að vita hvað er flottast og hvað er glatað. Eitt það mikilvægasta er að geta sagt “whatever” og látið einsog ekkert sé þó eitthvað gerist.
Ég er ekki kúl, alls ekki, langt frá því. Í dag var heilsíðugrein (ég bjóst bara við einhverri smá klausu) í mest lesna blaði landsins um mig og eitthvað sem ég gerði, mér finnst það merkilegt og hef ekki í mér að láta einsog það sé bara venjulegur atburður. Ef ég hefði ekki örlitla sjálfsstjórn þá myndi ég láta alla sem ég þekki vita af þessu. Ég myndi senda tölvupóst, sms, bögga fólk á MSN (ég gerði það reyndar) og hringja. Ég náði að vísu halda vitneskjunni um væntanlega grein frekar leyndri (þó sumir hafi væntanlega lesið um það hjá Badabing).
Ég hef ekkert kúl, ef ég hefði það þá myndi ég missa það um leið (botcha kúltjékki (roleplay tilvísun, ekki kúl)). Stefáni Pálssyni virðist vera alveg sama þó hann komi fram í fjölmiðlun, líklega bara vanur þessu., Bloggar ekkert um að hann sé að koma í Kastljósið að tala um blogg en nær síðan að ljúga að manni að hann sé að fara að koma í Gísla Martein (kannski að maður hafi ekki alveg fallið fyrir því en samt).
Þegar ljósmyndarinn kom til að taka mynd af mér þá var ég búinn að velja mér föt (hégóminn kemur í ljós) og ég er afskaplega ánægður að það er hægt að sjá nokkuð vel að bolurinn er merktur hljómsveitinni Tý. Ég fékk samt ekki að setja upp myndavélasvipinn minn, var neyddur til að horfa beint í vélina. Amma var ánægð með myndina af mér, hún á samt aldrei eftir að skilja hvers vegna ég verðskuldaði að fá mynd af mér í blaðið (frekar en fjölmargir aðrir) enda tel ég nógu gott af 91 árs gamalli konu að vita að barnabarn hennar skrifi eitthvað á eitthvað sem heitir Internetið (hún hefur meiraðsegja fengið að lesa smá af síðunni).
Gaman að fá fimmtán mínútur af frægð, fannst stundum fólk horfa á mig í dag reynandi að átta sig á hvaðan það kannaðist við mig.