Febrúar

Í febrúar verð ég þrítugur. Ég held líka að það séu allar líkur á því að þjóðfélagið fari á hliðina í febrúar. Uppsagnarfrestur flestra sem sagt var upp núna rennur út um mánaðarmótin janúar-febrúar. Sumir raunar fyrr og aðrir seinna en stærsta höggið sem mun raunverulega sýna hve slæmt ástandið er kemur þá. Þó að það sé augljóst að tölurnar sem fjölmiðlar hafa komið með undanfarið um fjölda mótmælenda sé lygi þá er staðreyndin sú að það eru ekki nærri því nógu margir að mæta. Ef skilyrði Alþjóða gjaldeyrissjóðsins verða gerð opinber fljótlega og eru jafn andstyggileg og marga grunar þá gæti eitthvað stórt gerst en ég held samt að það gerist ekkert þá. Jólin munu væntanlega verða til þess að fólk einbeitir sér að því að hugsa um eitthvað annað. En þegar kemur fram í febrúar þá hlýtur fólkið í landinu að láta í sér heyra til að sýna að hún sé ekki algjörlega andlaus. En kannski þurfa sjónvarpsstöðvarnar að fara á hausinn og netsamband að detta niður til þess að fólk vakni.