Í janúar var ég að vinna í búðinni og þá hafði einhver stillt á íslensku stöðina, uppúr þurru spiluðu þeir „Hæhó og jibbíjey það er kominn 17. júní“. Ég er ekki hrifinn af íslensku stöðinni.
Fyrir ári síðan var ég niður á Austurvelli að mótmæla, í bol sem ég hafði undirbúið í skyndi. Á honum stóð „Vér mótmælum allir“. Ég var með svartan trefil fyrir munninum.
Það var skrýtið þegar ég mætti í kirkjugarðinn við Suðurgötu. Ég var langfyrstur einsog mér er líkt og beið heillengi eftir að sjá einhvern sem líklegur væri til að fara að mótmæla. Eygló var ekki með mér þar sem hún var að vinna. Ég sá loksins náunga með svartan borða í hendi, fór og spjallaði við hann. Við tókum okkur síðan stöðu þarna. Að dreif þónokkra í viðbót. Fólk í kring var mishrifið af þessu hjá okkur. Í fjarlægð sá ég Sverri Jakobsson, Steinunni og Stefán.
Eftir athöfnina í kirkjugarðinum gengum við með mannfjöldanum að Austurvelli, fleiri komu til okkar. Ég tók eftir að Falun Gong fólkið sem hafði verið fyrr um morguninn var farið á braut, of kurteist til að mótmæla á þessum degi, það var hlutverk okkar Íslendinga að sýna gremju okkar við þetta tækifæri.
Á Austurvelli sá maður að mótmælendur voru fjölmennari en áður, ég sá spjöld í mannfjöldanum. Ég tók eftir að einhverjir mótmælendur lentu í veseni með lögguna nálægt Dómkirkjunni (minnir mig), sá það betur um kvöldið. Einn mótmælandinn gaf mér lítinn íslenskan fána. Þegar athöfnin hófst þá komu Davíð, Halldór og co útúr Alþingishúsinu og við í merktu bolunum stóðum beint fyrir framan þá, þeir pössuðu sig að horfa ekki á okkur. Fátt markvert gerðist fyrren Davíð fór að tala því þá byrjuðu mótmælaspjöldin að koma á loft, tugum saman. „Vér mótmælum allir“ eða „Vér mótmælum öll“ fyrir PC (politically correct) fólkið.
Þetta er skrifað eftir minni, það væri áhugavert að bera þetta saman við dagbókarfærslu frá því fyrir ári síðan, hvort mig misminni eitthvað. Það sem mér finnst verst eftir á þegar ég hugsa um þessi mótmæli er að ég tók ekki nóg af myndum. Ég veit að vísu að það er til nóg af myndum sem sýna fram á að lögreglan laug oft við fjölmiðla en ég vildi hafa mínar eigin. Þetta útskýrir hvers vegna ég var myndavélaóður á mótmælum í vor.
Í stað þess að fara að gera eitthvað núna til að minnast dagsins sit ég hér, skrifa og hlusta á hana Eivöru.