Fyrir nokkrum árum keypti ég mér nýtt sjónvarp. Það fyrsta sem ég gerði var að nota “hakk” (svo ég sleppi tækilegum atriðum) á sjónvarpið. Með þessu breyttist sjónvarpið úr 90 þúsund krónu módeli í 120 þúsund króna módel. Það var sumsé enginn munur á þessum sjónvörpum annar en hugbúnaðurinn sem var hlaðið inn á hann. Hugbúnaðurinn á ódýra módelinu var einungis til þess að takmarka möguleika vélbúnaðarins. Þessar tvær tegundir af sjónvörpum kosta nákvæmlega sama í framleiðslu. Eini aukakostnaðurinn er að búa til þennan takmarkandi hugbúnað.
Mér sýnist þetta vera frekar algengt í framleiðslu á raftækjum.
Fyrir nokkrum vikum kallaði Richard Stallman Kindle rafbókalesarann Swindle. Ég játa að ég fæ kjánahroll af svona uppnefnum en ég tel þetta ekki óviðeigandi lýsingu. Allavega út frá mínu gildismati. Það sem fer mest í taugarnar á mér er að Kindle opnar ekki svokallaðar Epub rafbókaskrár. Það er opið form sem Amazon þyrfti ekkert að borga fyrir að nota. Ég geri enga kröfu um að þeir leyfi manni að opna Epub bækur með afritunarvörnum frá öðrum (ég tel reyndar afritunarvarnirnar sem Amazon notar líka vera svindl og líka það að þeir nota aðallega sitt eigið lokaða skráarform). Það væri bara voðalega hagræðing fyrir eigendur Kindle að leyfa svona. Amason er viljandi að takmarka möguleika tækisins.
Annað sem fer í taugarnar á mér við Kindle er að ég get ekki stjórnað hvaða myndir birtast á tækinu þegar það er í biðstöðu. Ég get engan veginn skilið hvers vegna ég má ekki skipta þeim út. Þetta “Dead Poets Society” er ekki samansafn af mínum eftirlætishöfundum. Ég vildi að ég gæti stillt þetta þannig að kápan af þeirri bók sem ég er að lesa myndi vera á Kindlinum í biðstöðu. Ég hef reynt að nota “hakk” til að breyta þessu þannig að mínir uppáhaldshöfundar birtist þarna. Það virkar hjá mörgum en ekki hjá mér
Ástæðan fyrir því að þetta ergir mig er að þetta er ekki einu sinni Amazon í hag. Þeir græða ekkert á því að takmarka tækið svona. Ég get bara ekki skilið hvers vegna Amazon er að takmarka tækið á þennan hátt. Engan veginn.
Í gær notaði ég “hakk” á símann minn. Þó minniskortið sem ég nota sé nógu stórt fyrir hvað sem mér dytti í hug að nota þá þarf að treysta á innbyggt geymslupláss símans fyrir forrit. Stóra vandamálið er að ákveðin forrit sem fylgdu með símanum taka mikið pláss þó ég noti þau ekki. Stýrikerfið er stillt þannig að ég má ekki taka þau út. Ég notaði “hakk” til að virkja ofurnotanda möguleika sem er falinn í kerfinu. Þá gat ég eytt forritunum.
Ég las mér annars til um Apple TV í gær. Það virðist í fljótu bragði vera sniðugt tæki. Þegar maður skoðar það betur sér maður að þarna er Apple að vanda sig við að fjarlægja möguleika tækisins. Það er enginn harður diskur, það er ekki hægt að tengja neitt tæki við og maður getur bara nálgast efni frá þeim stöðum sem Apple leyfir manni að nota.
Í þessum sjó takmarkandi tækja er Raspberry Pi paradísareyja. Það eru allir möguleikar til staðar. Þúsundir tölvunörda stukku til þegar tækið kom á markað og nýttu möguleika þess. Þeir bjuggu til ótal stýrikerfi sem hver sem er getur notað ókeypis (eða borgað þeim í þakkarskini í gegnum t.d. PayPal).
Flestir sem nota Raspberry Pi nota hana sem sjónvarpstölvu – eins og ég. Hún keyrir útgáfu af XBMC sem er frjálst stýrikerfi (stundum bara forrit) til að halda utan um og spila mynd- og tónefni. Fyrir utan að vera gott í því sem það gerir opnar hið frjálsa eðli þess fyrir að bæta við möguleikum. Einhverjir Íslendingar hafa búið til viðbætur sem gera manni kleyft að nálgast Sarpinn á RÚV og Veftíví Vísis (sumt takmarkað við Ísland). Ótal slíkar viðbætur eru til fyrir erlendar stöðvar. Einnig fyrir YouTube og aðra vefi sem bjóða upp á myndefni.
Ég sé framtíðina fyrir mér þannig að flestir raftækjaframleiðendur munu halda áfram að takmarka möguleika tækjanna sem þeir búa til. Það má þó vona að einhverjir muni reyna að opna tækin sín og að neytendur verðlauni þá með því að velja möguleika frekar en takmarkanir. Ekki láta svindla á þér.