Innuendo frá 1991 lendir í sjötta sæti sem þýðir að þó ég hafi hneykslað einhverja með röðun minni á hinum tíu plötunum þá fara fimm af fyrstu sex plötunum í efstu fimm sætin. Það er ekki byltingarkennt.
En Innuendo var síðasta platan sem kom út meðan Freddie lifði. Hún minnir mjög á fyrri plötur, ekki það að lögin séu einhvern veginn eins heldur vegna þess að maður finnur sama hljóminn og stílinn.
Titillagið er án efa besta dæmið um þetta. Dramatískt, yfir toppinn og með frábærum texta Roger (sem er samfélagsgagnrýni að hans stíl sem er ekki hinn almenni stíll hljómsveitarinnar). Lagið Innuendo er snilld í gegn. Til að byrja með er eins og það sé verið að halda aftur af kraftinum sem er undir niðri, og þá kemur fyrra gítarsólóið er flamenkó (spilað af Steve Howe sem leit bara í heimsókn), síðan rólegur og draumkenndur millikafli og þegar maður heldur að lagið muni ekki ná kraftinum sem maður bjóst við kemur Brian með rafmagnsgítarsóló og dramað tekur aftur í textanum þegar Freddie veltir fyrir sér tilgangi lífsins.
I’m Going Slightly Mad er í uppáhaldi hjá mörgum. Það er líka svo fyndið, súrt og fáránlegt. Myndbandið er líka snilld. Þið vitið það sjálf.
Headlong er svona hefðbundið Queen rokklag. Flott.
I Can’t Live with You er svoltið skemmtilegt rokklag en ekki frábært.
Don’t Try So Hard er í uppáhaldi. Rólegt og svo kraftur. Rólegt og svo kraftur. Ó, þú fagra veröld.
Ride the Wild Wind er eftir Roger og er eitt af lögunum sem er skemmtilegast að hlusta á á fullum hraða á hjólinu.
All God’s People er auðvitað og augljóslega ættað úr Barcelona upptökunum, Mike Moran er meira að segja titlaður meðhöfundur. Á köflum er þetta líka bara eins og Freddie sé að prufa hvað hann getur gert með röddina. Blúskaflinn er í uppáhaldi.
These are the Days of Our Lives er kveðjulag en þó eftir Roger. Það kallast innilega á við Love of My Life. Þarna er hann eldri ennþá tilbúinn að segja að hann elski okkur (og leggur áherslu á það með því að segja það í myndbandinu og ganga síðan út úr rammanum). Nostalgía í mjög einföldum búningi. Bara yndislegt.
Síðan kemur lagið Delilah sem fjallar um samnefndan kött Freddie. Síðan mjálmar Freddie í laginu. Er tungan komin út úr kinninni? En fyndið er það. Væntanlega þarf maður að vera kattaaðdáandi.
The Hitman er þyngsta lag plötunnar. Fínt.
Bijou er aftur á móti yndislegt. Lag á röngunni þar sem gítarinn er söngurinn og söngurinn er sólóið. Innilega yndislegt.
The Show Must Go On er enn og aftur kveðjulag, núna eftir Brian en það er um Freddie, augljóslega. Textinn er frábært. Lagið er dramatískt og kraftmikið. Eitt af þeim bestu.