Queenplötur dæmdar – 7. Made in Heaven (1995)

Made in HeavenÍ sjöunda sæti kemur Made in Heaven frá 1995. Ég fékk allar hingar plöturnar beint í æð 1991-92 en þessi kom seinna þegar ég var orðinn rólegri í Queenaðdáun minni. Ég vissi ekki einu sinni að hún væri komin út fyrren bekkjarfélagi í MA sagði mér það (þarna var ég ekki orðinn aktívur netnotandi sumsé). Auðvitað fór ég beint í Hljómdeild KEA og fjárfesti í henni.

It’s a Beautiful Day er innilega lagið maður ætti alltaf að vakna við. Lagið var búið til úr bút sem Freddie hafði upphaflega tekið upp árið 1980. Þrátt fyrir það er lagið frábært. John á víst aðalheiðurinn á að klára lagið.

Made in Heaven er auðvitað sólólag frá Freddie af Mr. Bad Guy og er hér sett í fágaðri Queen útgáfu. Það er fyrirgefanlegt að taka lagið og endurskapa það af því að hljómurinn á Mr. Bad Guy var aldrei nógu góður. Auðvitað bætist við smá gítar frá Brian.

Let Me Live hefur vandræðasögu. Viðlagið þótti of líkt öðru lagi og það þurfti breyta því. Mögulega er til útgáfa með gestastjörnunum Jeff Beck og Rod Stewart (!) frá cirka 1984. En mér finnst það bara alltaf svoltið fallegt og skemmtilegt.

Mother Love er tilfinningalegur hápunktur plötunnar, maður þarf ekki að vita að þetta er (samkvæmt flestum) síðasta lagið sem Freddie tók upp til að skynja hvað liggur þarna að baki. Það er bókstaflega þannig að hann gat ekki klárað lagið og því klárar Brianlagið. Endirinn á lagi er líka frábærlega Queenlegur þar sem öllu er tjaldað til, Freddie að syngjast á við áhorfendur, bútur úr fyrsta laginu sem Freddie söng á plötu og síðan barnsgrátur.

“The last thing he ever sang was Mother Love. He was going for it harder and higher and more passionate than ever. He got to the penultimate verse and said, ‘I can’t do any more. I’ll come back and finish it another day when I feel good.’ But he never did.

My Life Has Been Saved var upprunalega B-hlið á Scandal en hefur hér verið uppfært. Það verður aldrei talið besta lagið á plötunni en rennur voðalega ljúflega í gegn.

I Was Born To Love You er annað Mr. Bad Guy lag og varla meira um það að segja en það sem áður var sagt um Made in Heaven. Svoltið skemmtilegt lag.

Heaven for Everyone er upprunalega af plötunni Shove It með The Cross – sumsé lag eftir Roger. Það er líka til útgáfa þar sem Roger syngur og hún er eiginlega í meira uppáhaldi hjá mér. Hún nær háðsk á köflum en útgáfa Freddie er einlægari. En gott er lagið. Mjög gott.

Too Much Love Will Kill You er upphaflega Queenlag þó það hafi fyrst komið út á sólóplötu Brian. Aftur er útgáfa Brian í meira uppáhaldi hjá mér. Það er líka tengt því að hann söng þetta á minningartónleikunum. Þetta eru líka lýsingar á tilfinningum Brian og því ekkert skrýtið að maður tengist því frekar. En útgáfa Freddie er frábær líka.

You Don’t Fool Me er búið til úr nær engu af upptökustjóranum Dave Richards (en með viðbótum frá eftirlifandi meðlimum). Það passar alveg ágætlega við klúbbatónlist 1995. Ágætt.

A Winter’s Tale er síðasti textinn sem Freddie samdi. Draumkennt lag um fegurðina sem var í kringum hann í Sviss á þessum síðustu dögum sem hann tók nokkuð upp. Líklega besta lagið á plötunni.

It’s a Beautiful Day (Reprise) er rokkaðri útgáfa af fyrsta laginu.

Í lok plötunnar eru ónefnd “lög”. Fyrst “yeah” sem er bara Freddie að syngja “yeah”. Síðan er lag 13 sem er 22 mínútna langt. Hér er Dave Richards aftur að leika sér og það má vel hlusta á þetta en ég veit ekki alveg hvort maður á að telja þetta með sem lag.