Queenplötur dæmar – 8. Queen (1973)

QueenÁ miðjum listanum, í áttunda sætinu, fær fyrsta platan Queen frá 1973 með Queen að dúsa.

Keep Yourself er fyrsta smáskífa Queen og fyrsta lagið á fyrstu plötunni. Það er ekki hægt að segja annað en að það gefi fögur fyrirheit (sem staðið var við). Kraftmikið rokklag.

Doing Alright er fyrsta, og lengst af, eina lagið sem var ekki eingöngu eftir Queenmeðlima. Þetta er líka eina lagið sem kemur frá tíma Roger og Brian í Smile. Það er sumsé eftir Brian og Tim Staffell. Það er líka til upptaka af þessu með Smile. En já, rólegheit og dynjandi rokk. Alveg Queenhljómurinn.

Ég ætti næstum að færa plötuna ofar á listann til heiðurs Great King Rat og afmælisdegi hans. En Great King Rat er frábært rokklag. Það skiptir oft um gír og væri besta lag Freddie á plötunni ef ekki væri fyrir….

My Fairy King er besta lag plötunnar. Þarna sýnir Freddie það sem hann gat gert. Lagið er kaflaskipt proggrokk. Það minnir eiginlega helst á Uriah Heep. En ég elska það gjörsamlega. Þarna tekur Freddie líka og býr til umgjörð utan um nafnaskipti sín.

Og Liar er já frábært líka. Maður getur bara stoppað skriftirnar og notið þess að hlusta, sérstaklega um rétt rúmlega fimm mínútna markið. Var Queen þungarokkshljómsveit sem spilaði líka popp?
The Night Comes Down er með texa sem ég náði að misheyra svoltið oft, það vantaði mjög innilega textana með disknum. En ég fattaði alltaf “Lucy was high, and so was I”. Mjög týpískur Brian texti að öðru leyti. Hljómar eins og maður sé í öðrum heima. Elsta upptakan sem lenti á stúdíóalbúmi því þarna var notast við upptökurnar sem Queen gerði þegar þeim var boðið a prufukeyra De Lane Lea upptökuverið.

Modern Time Rock ’n’ Roll er allt önnur skepna. Samið af Roger og er að mestu laust við dúlleríið sem Freddie og Brian voru í, bara blátt áfram rokklag. Texti er stórskemmtilegur:
Get you high heeled guitar boots and some groovy clothes
Get a hair piece on your chest
And a ring through your nose
Find a nice little man who says
He’s gonna make you a real big star
Stars in your eyes and ants in your pants
Think you should go far
Son and Daughter er svoltið blússkotið, næstum Sabbathlegt á köflum. Textinn er skrýtinn og, eins og í nokkrum öðrum lögum, hugsar maður hvort uppeldi Brian hafi verið eitthvað undarlegt.

Jesus fjallar um Jesús en er samið af Freddie sem var alinn upp í parsatrú. Reyndar gæti hann þegar þarna hafa orðið veikur í trúnni enda búinn að vera í enskum heimavistarskóla í mörg ár líklega með tilheyrandi trúarinnrætingu.

Seven Seas of Rhye er ekki fræga útgáfan. Hin lögin á plötunni voru frekar dæmi um það sem Queen hafði verið en þetta átti að gefa hugmynd um hvaða leiðir hljómsveitin væri að fara á næstunni. Það er sumsé ekkert sungið í þessari útgáfu.