Krúttið verslar í Iceland

Ég fór út í Iceland að versla. Þar eru þrír afgreiðslukassar og miðjukassinn var einn opinn og þar var löng röð. Rétt á eftir mér kemur stelpa, um það bil sjö ár, og er miður sín yfir lengdinni á röðinni. Hún ákvað því að fara bara og setja sínar vörur á færibandið á kassa þar sem var enginn að afgreiða.

Þá kemur afgreiðslumaður og opnar þriðja kassann og ég fer í þá röð. Stelpan vandræðast með að halda á sínum vörum yfir á þann kassa og ég hleypti henni fyrir framan mig.

Hún var að kaupa eins lítra flösku af appelsíni, frosna pizzu, bland í poka og piparkökudunk. Þegar búið er að skanna inn vörurnar opnar hún veskið sitt og lætur afgreiðslumanninn hafa lúkufylli af peningum. Ég sé að það er bara einn hundrað kall þar og afgreiðslumaðurinn tilkynnir henni góðlátlega að það sé ekki nóg. Hún lætur hann hafa aðra lúkufylli og í kjölfarið þá þriðju. Þá er hún komin með um fimm hundruð krónur sýndist mér.

Afgreiðslumaðurinn spyr hvort hún sé með meira og hún segist hafa tvo peninga í viðbót. Hún réttir afgreiðslumanninum fyrst einn krónupening og síðan annan eftir að hún fékk að vita að sá fyrri myndi ekki nægja.

Afgreiðslumaðurinn segir henni að hún þurfi að sleppa einhverju og hún sleppir piparkökunum. Það dugar ekki til og hún ákveður að sleppa namminu líka. En þá allt í einu tilkynnir hún að hún hafi fundið meiri pening í veskin. Þúsundkrónuseðil.

Hún gat þá keypt allt sem hún vildi. Þá fékk hún eitthvað af klinkinu til baka en lendir í miklum vandræðum með það og missir ítrekað krónupeninga í gólfið. Síðan tekur hún svona þykkan og góðan Iceland plastpoka, sem kostar einhvern pening, og byrjar að raða vörunum í hann. Þá varð afgreiðslumaðurinn mjög einbeittur í því að taka ekki eftir að hún hefði tekið poka sem hún hefði í raun átt að borga fyrir.

Á meðan á þessu stóð lengdist röðin fyrir aftan mig. Við vorum þrjú fullorðin á eftir henni og fylgdumst vel með þessu. Ég fylgdist með fólkinu og allir voru brosandi enda var hún algjört krútt.

Fjölskylduupplýsingar á bókaviðgerðarnámskeiði

Ég var á bókaviðgerðarnámskeiði í dag. Það er ekkert aðalatriði en þar sem ég var að líma eina bók þurfti ég að grípa eitthvað svona ruslblað til þess að taka aukalímið. Ég var að skera blaðið þegar ég tek eftir því að nöfnin þar eru kunnugleg. Ég skoða betur og sé að þar er verið að tala um ættarmót 2005 í Svarfaðardal – sem passar sko. Ég athugaði betur og sá að þarna voru líka yfirlit yfir systkinabarnamót í fjölskyldu Guðmars afa (kynslóð mömmu). Það fyrsta var víst 1983. Ég spurði að sjálfsögðu hvaðan blöðin væru og kom þá í ljós að þau höfðu verið prentuð út í Borgarbókasafninu Árbæ. Ætli það hafi ekki einhver ættingi prentað óvart tvö eintök og þar sem Borgarbókasafnið er duglegt að endurnýta pappírinn þá endaði þetta í mínum höndum. Frekar mögnuð tilviljun en maður má alveg muna að það eru allar líkur á því að ótalmargir lendi í óvanalegum atburðum.

Keyrt út af

Við fórum til Vopnafjarðar um áramótin með viðkomu á Akureyri. Við keyrðum um alveg stórkostlegt landslag þar sem sól, sólarljós, tungl og tunglskin léku við allt í ægilegu frosti. Alveg magnað.

Þegar við vorum að keyra til Vopnafjarðar hafði færið verið nokkuð gott og nær enginn á ferðinni. Þegar við nálguðumst vegamótin þar sem beygt er í átt að Vopnafirði breytist það. Í fyrsta lagi var allt í einu bíll að koma á móti okkur. Ég hægði ferðina en fann þá allt í einu að það var meinhált. Þar sem bíll var að koma fór ég frekar út í kant en á miðjan veg. Það gekk ágætlega þar til við fundum allt í einu að dekk var komið út af veginum. Snjórinn hafði verið ruddur þannig að engin brún sást og við alveg óviðbúin þessu. Við vorum ekki á neinni ferð þannig að við fórum ekkert meira út af.

Ég reyndi fyrst að bakka upp á veginn en það var ekki að hafast einn tveir og þrír. Eygló sá síðan að bíll var að koma og sagði mér að setja hazard ljósin á og stökk sjálf út. Það var svona jepplingur. Við báðum hann að kippa í okkur og hann samþykkti. Við tókum spottann okkar úr skottinu (alltaf tilbúinn, minnir að þetta hafi verið jólagjöf skrifuð á Smala gamla en við gleymdum af  einhverri ástæðu skóflunni sem fylgdi). Hann kippti og við komumst strax upp á veginn. Reyndar grunar mig að ég hefði getað reddað þessu með að ýta. Við þökkuðum fyrir og héldum áfram.

Ég kíkti á klukkuna þegar við vorum komin út af og þegar ég var kominn aftur í bíllinn eftir að hafa verið dreginn upp. Þetta tók allt einungis þrjár mínútur. Það var ágætt.

Ég gleymdi samt að spyrja manninn hvort hann væri að selja flugelda.

Carlos

Eitt sem ég held ég hafi ekki minnst á varðandi Cork er að hér er töluvert af betlurum. Ég íhugaði í töluverðan tíma hvort ég ætti að gefa þeim einhvern pening. Síðan var það einhvern tímann sem ég var að angra mig á öllu klinkinu mínu að ég áttaði mig á að það væri nú til auðveld lausn á þessu. Ef ég er svo ríkur að peningarnir pirra mig þá get ég bara losað mig við þá.

Ég byrjaði að gefa betlurum centin mín (yfirleitt hirði ég þó hálfu evrurnar). Ekki alltaf en þó reglulega. Það hefur almennt verið handahófskennt hverjum ég gef en þó er augljóst að þeir sem eru hérna í nágrenninu sem fá oftar. Sá sem ég hef oftast gefið, og það er ekkert rosalega oft, er hérna á MacCurtain stræti. Ég giska að hann sé um fertugt. Hann er mjög þakklátur. Mig grunar að hann fái ekkert sérstaklega mikið enda er hann ekki vel staðsettur. Þeir fá væntanlega mest sem eru á brúnni við enda Patreksstrætis. Þeir hafa reyndar horfið þegar líður á haustið.

Undanfarið hefur þessi kunningi minn ekki verið á sínum stað. Núna á þriðjudag var einhver annar þar þegar ég ætlaði að gefa honum smá. Í dag hins vegar rakst ég á hann niður við enda Cornmarket strætis. Hann fór að tala við mig og ég skyldi voðalega lítið þar sem hann talar aðallega spænsku. Ég náði samt að skilja að hann var að segja að barnið hans væri á spítala og að hann vildi gefa því kók eða þá að hann vildi hugsanlega sjálfur fá kók. Ég er ekki viss. Ég ákvað að gefa honum klinkið mitt sem var þó ekki nema rúm evra, kannski ein og hálf.

Kannski var þetta kjaftæði. Kannski á hann ekkert barn. Ég veit ekki. Mér finnst reyndar ólíklegt að maður myndi ljúga einhverju svona og síðan ljúka því á að biðja um peninga fyrir kók. En það skiptir ekki öllu máli. Sama hver baksagan er þá held ég að hann eigi ekki mikla peninga. Ef honum langaði bara sjálfum í kók þá vona ég að hann hafi notið þess. Það hefur þá allavega verið smá ánægja í erfiðu lífi.

Hann var líka að vanda mjög þakklátur. Hann tók líka upp á því að kynna sig fyrir mér í fyrsta skipti. Hann heitir Carlos. Ég heilsaði honum og sagði að ég héti Óli sem hann endurtók. Spænskumælandi fólk á ekki í miklum vandræðum með að bera fram nafnið mitt.

Mér líkar einhvern veginn vel við Carlos þó við tölum ekki sama tungumál. Hann virðist vera ágætisnáungi. Ég hef látið mér detta í hug að fá Rapha eða Alejandro með mér til að túlka á milli okkar en ég efast um að ég geri það. Ég mun væntanlega bara heilsa honum þegar ég geng framhjá, gefa honum klink þegar ég er með það. Síðan hverf ég á braut eftir mánuð og sé hann væntanlega aldrei aftur. Hvað ætli hann verði lengi að gleyma mér? Hvað ætli ég muni lengi eftir honum?
Mig langar næstum að eyða þessari færslu af því að mig grunar að einhverjir haldi að ég sé að skrifa þetta til að setja mig upp sem eitthvert voðalegt góðmenni. Það er alls ekki málið og mér finnst ég ekki vera neitt sérstaklega góður þó ég gefi þessum manni smápeninga og komi fram við hann af virðingu. Þetta eru í raun engar fórnir af minni hálfu. Mér finnst þetta bara áhugaverð lítil saga úr lífi mínu. Ég vil allavega muna eftir honum Carlos.

Röng Katrín

Ég er að skipuleggja smá mastersnemahitting. Sendi fólk sms. Þegar kom að senda henni Katrínu sms þá var ég ekki með hana undir fullu nafni. Ég ætlaði að kíkja á númer hjá einni Katrínu sem er í símaskránni minni en sendi skilaboðin óvart. Það var röng Katrín. Ég þurfti að senda henni póst þar sem ég afbauð henni í kvöldmat og bíó. Frekar leiðinlegt. En ég tek fram að í raun er þessi Katrín alveg velkomin með þó upprunalega boðið hafi verið óvart.

Tækifæri til að hitta Bob Saget

Ég skoraði áhugaverða körfu í dag.  Við Sigrún vorum að dunda okkur í íþróttasalnum, hefðum verið að spila bandí ef mæting hefði verið betri.  Ég dúndraði í fótboltann sem fór af veggnum í loftið og þaðan ofan í körfuna.  Ég sá fyrir mér sig í Americas Funniest Home videos ef við hefðum tekið þetta upp.  En nei.  Ég hitti bara Bob Saget við annað tækifæri.

Nýrnasteinn níðist á Óla

Dagurinn fór öðruvísi en vonir stóðu til. Ég ætlaði að eyða honum við eldhúsborðið glósandi fyrir Rannsóknirnar. Þetta plan varð að engu. Þegar ég vaknaði var ég með smá bakverk. Eftir smá tíma varð bakverkurinn verri. Ég reyndi að fara í bað til að lina verkinn en ekkert gerðist. Verkurinn versnaði bara og versnaði. Eftir að hafa reynt að koma mér vel fyrir í svona þrjú eða fjóra klukkutíma sá ég að þetta væri ekki neitt venjulegt.

Ég tók því og hringdi í Heilsugæslustöðina. Hjúkrunarfræðingurinn þar úrskurðaði að ég væri með væntanlega með nýrnastein. Hún sagði mér að ég þyrfti að koma mér á Landsspítalann við Hringbraut. Eygló var svo væn að skutla mér þangað. Sársaukinn var á þessum tímapunkti ógeðslegur. Ég fékk mitt eigið rúm á Bráðamóttökunni og tekin voru sýni af hinum og þessu. Einnig var ég kannaður á þann hátt að hjúkrunarfræðinemagreyið baðst voðalega afsökunar á. Ég fékk líka verkjalyf og þá minnkaði verkurinn sem betur fer.

Dagurinn fór að mestu í bið og í að neyta saltvatns. Ég fór í myndatöku, var skutlað þangað í hjólastól, þar sem var sprautað í mig einhverju efni sem ég man ekki hvað kallast. Ég man hins vegar að síðast þegar ég fékk þetta efni þá ældi ég. Ég ældi ekki núna. Ég bara lá á bakinu og leyfði konunni að skanna mig.

Myndatakan var endurtekin klukkutíma síðar. Þá fékk ég reyndar rosalegt samviskubit þegar grey stúlkan var að keyra mig til baka í hjólastólnum því verkurinn var alveg að hverfa. Ég beið síðan í klukkutíma og fékk þá að í fyrri myndatökunni hefði sést nýrnasteinn. Síðan beið ég í svona 20 mínútur og fékk þá lyfseðla og leyfi til að fara heim.

Læknirinn tók fram við mig að menn segðu að nýrnasteinar gætu verið sárari en barnsburður. Mig grunar einmitt að það séu frekar karlmenn en kvenmenn sem segja það. Þetta var samt djöfull sárt. Ég var alveg að fara yfir um af þessu. Ég á víst að snúa aftur eftir áramót í tjékköpp. Borða núna sýklalyf. En steininn er líklega ekki kominn alla leið ennþá.

Hér að neðan má sjá myndir (ekki fyrir viðkvæma). Halda áfram að lesa: Nýrnasteinn níðist á Óla

Strætósending

Ég var að spjalla við Hjalta í gær og við vorum að reyna að plana það hvernig ég ætti að koma eintaki af The God Delusion til hans. Ég var alveg að fara að ná Strætó til að komast í tíma þannig að ég ætlaði að kveðja hann. En þá fékk ég hugmynd.

Það er þannig að við Hjalti notum sama Strætóinn til að komast í Háskólann (hann kemur inn í Kópavoginum). Mér datt þess vegna í hug að ég tæki bara bókina með mér en Hjalti myndi koma upp að stoppistöðinni sinni. Ég myndi síðan rétta honum bókina þegar vagninn stoppaði þar.  Við ákváðum að framkvæma þetta. Farþegarnir horfðu svoltið undarlega á mig þegar ég rétti Hjalta bókina án þess að hann stigi inn í vagninn.

Þetta leit út einsog ódýr útgáfan af dópafhendingu. Easy-dope fíkniefnasalar, ekkert bruðl.

Sending og hræðsla

Ég var að fá sendingu frá Amazon. Eftir að hafa beðið lengi eftir að ná sambandi með gsm-posanum borgaði ég loks með peningum. Þegar póststúlkan var farinn fór ég að skoða kassann og opnaði hann fljótt því mér sýndist hann fullt lítill. Kemur þá í ljós að það vantar allavega 14 bækur þó ég hafi borgað alla. Ég hleyp út og næ ekki á stúlkunni áður en hún leggur af stað. En ég sé að hún er bara að fara í næstu blokk. Ég fer þangað og þegar ég kem að bílnum þá er hún að skoða einhverja pappíra við hliðina á sér. Ég banka á gluggann. Hún lítur upp og öskrar, frekar hátt. Skiljanlegt að henni hafi brugðið enda dimmt úti. Mér brá líka dáltið mikið.

Hjálpsami maðurinn…

Rakst á Véstein áðan í stiganum. Við förum að spjalla og hann spyr mig hvenær Alþingi sé sett. Ég var ekki alveg viss en akkúrat þá gengur maður framhjá sem myndi vita svarið.  Ég spyr því „hvenær er Alþingi sett Hannes?“ og Hannes svaraði mér að það væri yfirleitt sett 1. október.  Hjálpsamur maður.