Leikhús, prófkjör, ritgerð

Fór á Woyzeck í Borgarleikhúsinu. Gífurlega vel unnin og flott sýning eins og við var að búast af Vesturporti. Rúnar Freyr leysti Ólaf Egil af í kvöld. Það er svekkjandi að heyra þegar komið er í leikhús.

Við Ólafur skiptumst raunar á kveðjum fyrr í dag. Tók eftir því að hann var marinn um höfuðið og hafði stærðarinnar sólgleraugu á nefinu. Þegar ég svo sá Rúnar Frey í loftköstum í leikhúsinu í kvöld setti ég tvo og tvo saman. Oft munaði litlu að hann færi gegnum þakið.

Þegar ég kvaddi Ólaf í dag var hann á leiðinni að kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar. Aldrei þessu vant var ég ögn spenntur fyrir að vita úrslitin og ég verð að segja að það gladdi mig mjög að sjá Dag í fyrsta en Stefán Jón í því þriðja. Það er greinilegt að risaeðlur og pólitík fara ekki alltaf saman. Ekki vissi ég heldur að Steinunn Valdís væri vinsælli en Stefán Jón, sem er kannski það sem kom mér helst á óvart, ef ótalið er að Björk Vilhelms náði fjórða sætinu. Ég bjóst ekki við því að hún næði einu sinni inn á topp tíu. En þannig er það nú bara.

Morgundagurinn verður erfiður en vonandi góður, því á morgun eru síðustu forvöð að hefja fyrir alvöru vinnu á ritgerðinni minni. En það rúllar vonandi allt af stað fyrr en varir.