Of mikið

Ég er alltaf að ´átta mig betur og betur á því að það er ómögulegt að segja já við öllu til lengdar. Árum saman var ég spánýr, ungur fræðimaður og þá var hvort tveggja óhjákvæmilega satt, að allt var ferskt og spennandi og að ég þurfti að gera þetta sama allt til að eiga séns á að verða miðaldra fræðimaður. Nú er ég, nokkuð ungur að vísu, kominn í þau spor að þurfa ekki lengur að gera allt og einmitt þá, þegar ég hélt að orkan og starfsgleðin myndi aukast mér, þá finn ég að þetta er of mikið. Ég hef tekist of mikið á hendur og þarf að takast hvort tveggja í senn, að minnka verkefnastaflann áður en viðfangsefnið deyr í höndunum á mér og hætta að segja já við öllum mögulegum samstarfsverkefnum áður en ég dey í höndum kollega minna (ókei, kannski ekki alveg svo slæmt, en samt).

Þessi gaur veit nákvæmlega hvað ég á við

Það er nefnilega alls konar annað sem mig langar að gera en að vinna frítt úti um hvippinn og hvappinn, þó að ég fái að ferðast töluvert fyrir bragðið. Því meira sem ég ferðast, fyrirles og kenni kauplaust við erlenda háskóla þeim mun minni tíma hef ég til að sinna eigin rannsóknum — þessu sem er ástæða þess að mig langaði til að verða fræðimaður til að byrja með. Og mikið í þeim verkefnastafla er einmitt eitthvað sem ég hef líka skuldbundið mig til að skila af mér á tilteknum tíma.

Þessi gaur kemst aldrei heim til sín, of mörg verkefni

Ágætur kollegi benti mér raunar föðurlega á þetta fyrir ekki svo löngu, að utan frá séð (eins og hann sæi ekki í gegnum mig) liti út fyrir að ég hefði furðu mörg verkefni. Svo ég tók saman lista yfir það helsta sem ég þarf að klára til að koma aftur að hreinu borði og það er alveg sitthvað. Mig skortir í það minnsta ekki hugmyndaflug og af þeirri sök skortir mig víst ekki verkefni heldur. Listinn inniheldur til að mynda eftirfarandi atriði:

    • Ljúka við bókarhandrit fyrir ritrýni
    • Klára þrjár næstum því fullbúnar greinar
    • Klára tvær hálfkaraðar greinar
    • Skila af mér ritstjórnarverkefni

Það er mun fleira á þessum lista, en þetta er það mikilvægasta svo þarna verður áherslan lögð á næstunni. Og nú, undir lok janúar, hef ég óvænt fundið áramótaheit mitt fyrir næstu ár og hef þó aldrei strengt slíkt áður: ENGIN FLEIRI VERKEFNI.

Set þetta hér inn svo ég gleymi því ekki sjálfur.

———
Allar myndir sem hér fylgja eru ©Arngrímur Vídalín, teknar á Canon Powershot G1X Mark II

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *