Rannsóknamisseri

Ég veit aldrei alveg hvort fólk er að grínast þegar það spyr mig hvort við háskólafólkið séum ekki alltaf „í leyfi“, svona eins og goðsögnin um að kennarar séu alltaf í fríi. Trúið mér, að allt það frí sem kennarar fá er fyllilega verðskuldað. Ef eitthvað er þá er það of stutt.

Kannski er það þess vegna sem háskólafólk er farið að tala um rannsóknamisseri í stað rannsóknaleyfis áður. Þetta er náttúrlega ekki leyfi þó að við fáum eitt kennslulaust misseri á nokkurra ára fresti. Við erum ennþá í vinnunni þó að við séum ekki að kenna, í rauninni meira í vinnunni en vanalega því loksins fáum við tíma til að sinna stórum hluta starfsskyldna okkar. Og ef eitthvað einkennir háskólafólk eftir minni reynslu þá er það að við erum alltaf í vinnunni.

Ef ég les bók þá er ég í vinnunni. Ef ég horfi á mynd þá er ég í vinnunni. Ég fæ þá hugmynd að gera vel við mig eina kvöldstund, skelli mér í leikhús og er óvart eiginlega um leið að borga fyrir að vera í vinnunni. Ef ég dett niður á fróðlega umfjöllun um nýtrúarhreyfingar á Akureyri í upphafi 20. aldar þá, jú, er ég óvart mættur í vinnuna. Ég kveiki á sellunum, analýsera og tengi saman þræði. Ég vinn við að lesa og skrifa og kenna um bókmenntir og menningu og allt sem því tengist, og svo vill til að ég vinn við mitt helsta áhugamál, svo ég er stöðugt í gangi.

Ég segi ekki að þetta sé vandamál en áreiðanlega er það að einhverju marki óheppilegt. En í sannleika sagt, ef ég ynni við eitthvað allt annað, þá kæmi ég samt heim og læsi bók og færi ósjálfrátt að greina hana, tengja þræði og velta upp hugmyndum. Og um leið er alltaf þessi hugsun í bakheilanum að þetta, já eða þetta þarna, þetta væri sniðugt í kennslu (jafnvel í rannsóknaleyfinu hugsa ég um kennslu, og dreymir um hvað ég er misheppnaður kennari). Svo það er sennilega besta lendingin að ég vinni við þetta líka. Ég er ekki viss um að ég hefði nægt vinnsluminni til að njóta menningar í frítímanum ef ég þyrfti t.d. að díla við hagtölur í vinnunni.

En þetta var útúrdúr, ég ætlaði að tala um rannsóknamisserið mitt. Ég er núna á að ég held tíunda degi þess og hef sett upp drög að efnisyfirliti að bók sem ég ætla mér að skrifa. Hálfnað er verk þá hafið er, enda hef ég ekki annað gert. Ég hef sofið töluvert, úrvinda eftir árin sem ég varði í að byggja upp feril í von um að fá að lokum starf við þetta (ég var að vísu heppnari en flestir með hversu fá þau ár voru), og svo Covidkennsluna þegar ég loksins var kominn í draumastarfið, og áföll og ýmiss konar persónulegt álag sem hefur verið mér tryggir förunautar sömuleiðis. Hugurinn er í svolitlum graut eftir þetta allt, sem er kannski eðlilegt. Það er mikilvægt að kulna ekki í draumadjobbinu um leið og það er í hönd.

Einu sinni spurði Ragnar í Smára, að mig minnir, Þórberg Þórðarson, sem skrifaði öll sín verk með penna, hvort hann myndi nú ekki leysa verk sín betur af hendi ef hann keypti ritvél. Svar Þórbergs var að það væri óþarfi, enda hugsaði hann ekkert hraðar en hann gæti handritað. Á svipaðan hátt fer þetta misseri rólega af stað hjá mér ekki aðeins af nauðsyn, heldur einfaldlega á þeim hraða sem hugurinn leyfir.

Það eru greinar sem þarf að klára, bókarhandrit fyrir Háskólaútgáfuna sem þarf að klára og þó fyrr hefði verið, ný bók til að vinna í, fyrirlestrar sem þarf að halda, hugsanir sem þarf að hugsa, hugmyndir til að útfæra, fræði sem þarf að lesa, greina og tileinka sér, og svo má ekki gleyma því að hér er einnig líf sem þarf að lifa, og lifa því vel með sínu fólki.

Svo þetta er ekkert leyfi, nema ef til vill leyfi til að anda aðeins á meðan ég geri það sem ég geri best: að stunda rannsóknir. Og þær get ég best stundað á skrifstofunni minni, þaðan sem myndin að ofan er tekin, sem ég hef aðeins nýlega fengið eftir að hafa skrifað flest mín fræði við eldhúsborð seint um kvöld og fram á nótt þegar aðrir voru farnir að sofa, þessi ár sem maður bægslaðist um í akademíska harkinu. Það er nefnilega þetta með samband vinnu og einkalífs, það verður hratt toxískt ef maður hefur ekki vinnuaðstöðu við hæfi. Sérherbergi, bækur og skriffæri er að mínum dómi hæversk lágmarkskrafa til fræðastarfa sem ekki útheimta flóknari búnað. Með þessu þrennu er hægt að fremja einn ótrúlegasta galdur sem hugsast getur: að búa til þekkingu.

Þó að misserið fari hægt af stað hjá mér þá veit ég að það á eftir að verða gjöfult. Það er nefnilega mikils virði að fá hálft ár til að vinna úr eigin hugsunum, inni á eigin skrifstofu, umkringdur dýrmætum fræðibókum, og leiða áður óþekkta vitneskju fram fyrir sjónir fólks. Vísindin tilheyra almenningi, öll þekking er og á að vera almannaeign sama hvað sumir kynnu að segja, og það eru heimsins mestu forréttindi að hafa vísindastörf að atvinnu — að fá að auka þekkingu mannkyns og miðla henni. Fyrir það er ég óendanlega þakklátur.

Hvað er það svo sem ég ætla að gera næsta hálfa árið? Ég ætla að rannsaka og skrifa um frumkynþáttahyggju í íslenskum bókmenntum fyrri alda — hvernig hatursorðræða og afmennskun á grunni erfða og uppruna birtist okkur á tímum fyrir hið eiginlega kynþáttahugtak, sem sjálft er búið að vera í öllum skilningi öðrum en sögulegum (þ.e. saga þeirra gervivísinda sem gátu af sér hugtakið og afleiðingar þess) og menningarlegum. Enn eru til fræðimenn sem finnst óttalegt bull að rannsaka þetta, eins og sambærileg afmennskun sé einhverra hluta vegna ómöguleg bara vegna þess að fólk skorti kynþáttahugtakið og þá sértæku hugsun sem lá að baki því. Þetta er bara miklu flóknara en svo og það er vel hægt að fjalla um þetta, þetta er áþreifanlegt og raunverulegt vandamál sem nær árþúsundir aftur tímann.

Og til að sýna fram á það mun bókin mín að fjalla um svonefnda blámenn í íslenskum miðaldaritum. Eitt það sem er kannski mest sjokkerandi við þetta verkefni mitt er hversu erfitt það er að ræða það við Íslendinga, sem oft virðast halda að þetta sé sakleysislegt orð sem sé fullkomlega eðlilegt að nota í daglegu tali. Staðreyndin er hins vegar sú að langfæstir átta sig á marglaga merkingu þessa hugtaks og hvernig hún hefur þróast gegnum aldirnar.

Meira um það síðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *