Vanhugsað sumarmisseri

Það er áhugavert að lesa um það í fjölmiðlum að menntamálaráðherra ætli að veita fjármunum inn í skólakerfið svo að hægt verði að kenna í framhalds- og háskólum í sumar. Það að kennarar frétti þetta fyrst í fjölmiðlum gefur til kynna að ekkert samráð hafi verið við skólastjórnendur, og ég held að við séum allflest frekar hissa á þessu.

Svo ég byrji á sjálfum mér þá er ég aðjunkt við Háskóla Íslands. Starfsskyldur mínar eru að tveim þriðju hluta kennsla og að þriðja hluta rannsóknir. Svo vill til að almanaksárið skiptist gróflega þannig að kennsla fer fram frá september út apríl og síðan eru fjórir mánuðir sem ég á eftir til rannsókna. Allflestir háskólakennarar nýta sumrin í rannsóknir. Að vísu er ótalið að vinna í kringum lokaritgerðir, prófayfirferð og kennsluundirbúning fyrir haustið tekur töluvert af þessum fjórum mánuðum. Síðan er sumarfrí þarna inni í líka. Með öðrum orðum er rannsóknatími minn þegar skorinn niður miðað við allar eðlilegar forsendur. Virkir rannsakendur fá í raun ekki sumarfrí.

Mér er borgað fyrir að stunda þessar rannsóknir og þess er krafist að ég stundi þær. Rannsóknir eru líka forsenda framgangs í starfi, þær stýra röðun í launaflokka og í mínu tilviki eru þær sérstaklega mikilvægar af því ég er ekki í fastri stöðu. Eitt það sem helst er litið til við ráðningar í fastar stöður er rannsóknavirkni. Það getur því beinlínis kostað mig fast starf í framtíðinni ef ég stend mig ekki í rannsóknum.

Síðan lýsir ráðherra því yfir að það eigi að kenna í háskólum í sumar. Það er komið fast fram að mánaðamótum apríl-maí og ekkert í þessa veru hefur verið undirbúið. Ég hlýt að spyrja hvað nákvæmlega eigi að kenna, og hvaða fólk eigi að kenna það? Háskólakennarar fá ekki greidda yfirvinnu, við tökum alla yfirvinnu út í kennsluafslætti síðar. En nú er búist við sprengingu í nýskráningum í háskólana í haust, bæði vegna faraldursins en í kennaranámið sem ég kenni hefur þegar verið mikil fjölgun nemenda milli ára. Á ég þá að kenna í sumar og fórna til þess rannsóknatíma mínum og sumarfríi til þess eins að kenna minna í vetur þegar holskefla nemenda gengur yfir?

Það er nógu erfitt til að byrja með að manna þá kennslu sem fyrir er í allflestum deildum háskólans sem ég þekki til þó að þetta bætist ekki við, ekki síst vegna uppsafnaðrar yfirvinnu háskólakennara. Og fyrirvarinn er enginn, þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég sé ekki að háskólunum sé fært að bregðast við þessu. Þar við bætist að mínir nemendur eru allflestir uppgefnir eftir hryllilega erfitt misseri. Ég sé ekki fyrir mér að þau séu beinlínis ólm í að halda álaginu út sumarið.

Enn síður get ég ímyndað mér að framhaldsskólakennarar séu hressir með þessa yfirlýsingu. Það þekkir enginn sem ekki hefur kennt við framhaldsskóla hverslags ómanneskjulegt álag er á kennarana og hversu nauðsynlegt sumarfríið er þeim. Það er ekki hægt að ætlast til þess af nokkrum framhaldsskólakennara að hann kenni á sumrin líka. Nú eru sérstæðar kringumstæður sem hafa gert starf þeirra ennþá erfiðara en nokkru sinni fyrr og hreint út sagt furðulegt að láta sér detta í hug að halda úti kennslu yfir sumarið nema markmiðið sé hreinlega að sem flestir kennarar brenni yfir í starfi. Nemendum veitir heldur ekkert af fríinu, tíma til að pústa og hugsa um sjálf sig. Ég man það vel hve langur veturinn er framhaldsskólanemanum og hversu kærkomið sumrið var. Þá er ekkert aðalatriði að fá sumarvinnu, þessi vinnukúltúr meðal ungmenna er hvort sem er heldur yfirgengilegur hér á landi. Ungmennin okkar eiga skilið að fá frí til þess eins að vera ungmenni og njóta lífsins.

Í sem fæstum orðum sagt átta ég mig ekki á því hvaðan menntamálaráðherra fær þessa hugmynd sína. Hún er varla tekin í samráði við skólana, annars hefðu kennarar væntanlega frétt þetta fyrr. Ég hef ekki fengið neina orðsendingu frá rektor eða sviðsforseta þess efnis að verið sé að undirbúa sumarönn við Háskóla Íslands, þó að einhver orðsending hljóti að vera væntanleg. Við hljótum að þurfa að ræða þetta í skólunum. Fyrst mætti þó kanna hvaða heimtur voru á nemendum á sumarmisseri 2009 eftir bankahrun, sem tókst að skipuleggja með miklum mun lengri fyrirvara, áður en ráðist verður í þessa aðgerð. Það væri fróðlegt að vita hverjar þær voru, en þar sem ég þekki best til voru heimturnar ærið litlar og varla fyrirhafnarinnar virði.

En ég sé ekki hvernig í ósköpunum þetta á að vera gerlegt, með hvaða mannskap, og hvað eigi þá að kenna.

Í dag er sumardagurinn fyrsti og enginn veit hvernig eigi að útfæra þetta.

6 thoughts on “Vanhugsað sumarmisseri”

  1. Það var hent í svona last-minute sumarkúrsa sumarið eftir hrun. En þeir voru held ég mjög illa sóttir, ég var í Bóksölunni þetta sumar og við urðum allavega mjög lítið vör við þetta. Bæði af því atvinnuástandið varð ekki jafn skelfilegt og menn höfðu óttast, en líka bara af því þetta var illa hugsað og námsframboðið lítt spennandi.

  2. Það er nákvæmlega þetta sem mig grunaði. Og þetta yrði enn tilgangsminna núna með svona litlum fyrirvara.

  3. Ég tók annars breskan master – sem er eitt ár, en með sumarönn. Þrjár annir í röð var allt í lagi (hafði vit á að taka mér gott sumarfrí fyrir lokaverkefnið) – en svo fékk ég þá frábæru hugmynd að halda bara áfram og klára útistandandi MA-ritgerð frá HÍ um haustið.

    Þá var akademíski tankurinn hins vegar alveg búinn í bili. Þannig að fimm annir í beit væri örugglega ansi töff.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *