Að vetri loknum

Meira sem hefur gengið á þennan veturinn! Bara síðan í janúar höfum við séð:

  • Stórbruna í Ástralíu
  • Snjóflóð á Flateyri og í Esju
  • Landris við Grindavík
  • Endalausar appelsínugular og rauðar viðvaranir
  • Næstumþvístríð Bandaríkjanna við Íran (afstýrt, að líkindum, vegna annarrar uppákomu á þessum lista)
  • Veiruheimsfaraldur (sem að auki kostaði Daða og Gagnamagnið sigur í Eurovision, segja sumir)

Áreiðanlega er ég að gleyma einhverju; ég man ekki einu sinni hvernig lífið var fyrir áramót. En vírusinn hefur auðvitað aukið álag á alla, nemendur mínir og ég sjálfur erum víst ekki undanskilin, og ekki laust við að ég sé dálítið dasaður nú þegar einkunnir hafa verið veittar og lokaritgerðir á leið til prófdómara.

Hvað hef ég verið að gera þess utan? Ég velti því fyrir mér, því mér finnst ég aldrei gera neitt. Ég kláraði nýverið bók Michels Houllebecq um H.P. Lovecraft, Contre le monde, contre la vie (Ullabjakk um ullabjakk, gæti hún heitið á íslensku), sem Sverrir Norland benti mér á. Áhugavert í sjálfu sér að höfundur sem seinna meir átti ekki eftir að hata að vera umdeildur skuli hafa hafið feril sinn á bók um Lovecraft, svo mikinn rasista að fólki finnst það þurfa að réttlæta að það yfirleitt lesi hann. Margt sem hann segir um hann er gáfulegt, sumu er ég ósammála. Mæli með bókinni fyrir áhugasama.

Ég las líka meistaraverkið Í barndómi eftir Jakobínu Sigurðardóttur. Þrælmerkileg bók sem skilur margt eftir, mætti jafnvel kalla hana ritgerð um minnið.

Svo fékk ég víst styrk líka úr kennslumálasjóði til að hressa nokkuð laglega upp á eitt námskeiða minna með viðtölum við rithöfunda og fræðimenn. Æskilegt væri að hafa þetta tilbúið fyrir haustið svo ég hef nóg að gera í sumar.

Annars bara mest lítið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *