Þekkingarfræði skáldskapar

Fyrirsögnin hér er kannski helst til háfleyg. Ég var að velta fyrir mér hvernig aðdáendur kvikmynda á borð við Stjörnustríð vita það sem þeir telja sig vita um söguheiminn. Þetta er hugmynd sem kviknaði fyrst þegar ég fór að sjá Scream 2 í bíó árið 1997. Þar leikur Timothy Olyphant morðóðan kvikmyndanörð sem þykja bangsarnir í Return of the Jedi ekkert skemmtilegir. Eftirfarandi samskipti eiga sér stað milli hans og skólasystur hans:

Hallie: I like the little furry things.
Mickey: Ewoks, they blow.

Þarna man ég að ég hugsaði, í Stjörnubíó þar sem ég sá myndina: Ha? Persónan er greinilega að rugla böngsunum saman við dýrategundina Wookiee, nema hann segir nafnið aftur á bak. Seinna komst ég að því að þetta er í raun og veru það sem bangsarnir eru kallaðir – nema þeir eru aldrei kallaðir þetta í myndinni sjálfri. Þetta er lykilatriði. Bókmenntafræðingar læra það í námi sínu að ekki sé hægt að greina bækur út frá atriðum sem hvergi koma fyrir í þeim. Það er ekki hægt að skálda eitthvað inn í texta til að láta það passa betur við einhverjar hugmyndir (eins og Rósa B. Blöndals gerir í bók sinni Leyndar ástir í Njálu – svo leyndar eru ástirnar að Njála segir ekkert um þær). Hvernig er þá hægt að halda því fram að bangsategundin heiti Ewok ef það kemur hvergi fram nema á leikfangaöskjum, skrifum aðdáenda og öðru aukaefni sem stendur algerlega utan við myndirnar sjálfar?

Svarið felst í þeirri þekkingarfræðilegu afstöðu sem við, neytendur Stjörnustríðs, höfum til viðfangsefnisins. Margir aðdáendur vilja sökkva sér ofan í allt mögulegt ítarefni sem ekki er komið frá hinum upprunalegu höfundum. Þannig hafa margir skrifað langa myndasagna- og skáldsagnabálka, þá eru til teiknimyndaseríur sem eiga að fylla betur inn í heildarmyndina, tölvuleikir sem bæta við persónum og segja nýjar sögur og ýmislegt fleira í þessum dúr. Þessu fólki finnst ekkert mál að fella sig við að bangsarnir heiti Ewok.

Ég, aftur á móti, hef þá einstrengingslegu afstöðu að ég tek ekkert gilt sem ekki kemur fram í myndunum sjálfum. Myndirnar eru eina kanónan sem ég sætti mig við. Stundum búa aðdáendur til hugtök (t.d. Sith) sem rata inn í kvikmyndirnar sjálfar, en það er fátítt samspil.

Fyrir vikið hlýtur mín persónulega niðurstaða að vera á þá leið að heill helvítis hellingur sem margir ganga að sem vísu um heim Stjörnustríðs er einfaldlega ekki byggt á nægilega sterkum þekkingarfræðilegum grunni til að ég leyfi mér að fullyrða um það. Bangsana kalla ég einfaldlega bangsana, því þeir eru einhvers konar bangsar. Öll kristalsfræðin kringum geislasverðin eru þvæla sem kemur myndunum ekkert við, og þar með er engin raunveruleg skýring á bakvið hjöltin á sverði Kylo Ren (hann á að hafa notað brotinn kristal, þess vegna klofni geislinn svona). Einhver mun sömuleiðis hafa ákveðið að furðudýrin Tauntaun séu skriðdýr, en fyrir því höfum við enga staðfestu innan kvikmyndanna sjálfra. Og við vitum heldur ekkert hvað Kessel Run merkir af því enginn með réttu ráði viðurkennir tilvist kvikmyndarinnar um Han Solo. Vákarnir eiga að vera frá plánetunni Kashyyk. Það kemur hvergi fram í nokkurri bíómynd. Og svo framvegis og svo framvegis.

Þetta er mín leiðinlega og einstrengingslega afstaða til Stjörnustríðs og sömuleiðis annarra sambærilegra sagnabálka, ritaðra eða kvikmyndaðra. Ef J.K. Rowling segir eitthvað í viðtali um Harry Potter þá tek ég það heldur ekki gilt, ekki nema það hafi komið fram í bókunum eða myndunum (sem eru, vel að merkja, ekki sama eining – verða ekki greindar saman). Þetta er auðvitað virðingarverð afstaða hjá sjálfum mér og allir aðrir hafa augljóslega rangt fyrir sér. Og hananú.

 

Viðbætir
Mér var bent á að í kreditlistanum að Return of the Jedi komi heitið Ewok fyrir. Þá má velta fyrir sér hvort það gildi til að bangsarnir heiti þetta innan kvikmyndaheimsins, eða hvort kreditlistinn standi utan við myndina sjálfa (t.d. standa handritshöfundar og ljósahönnuðir og aðrir utan við myndina sjálfa, því þá ekki nöfn persóna sem aldrei eru nefnd í myndinni?).

Svo við höldum okkur við Stjörnustríð þá kemur fyrir aukapersóna í Attack of the Clones sem reynir að selja Obi Wan eiturlyf. Þessi persóna er aldrei nefnd á nafn. Í kreditlista er hann hins vegar kallaður Elan Sel’Sabagno. Hefur þetta nafn einhverja þýðingu fyrir myndina? Hægt er að hafa tvenna skoðun á því: annars vegar að taka kreditlistann gildan sem höfundarætlan, eða að líta aðeins á listaverkið sjálft og hafna því sem ekki kemur fyrir í verkinu sjálfu. Sjálfur undanskil ég kreditlistann frá verkinu því þessi ósögðu nöfn sem þar birtast eru í raun ekki annað en merkimiðar fyrir framleiðendur. Eiturlyfjasalinn í Attack of the Clones á sér enga baksögu og ekkert nafn þó að hann fái nafn til hægðarauka í framleiðsluferlinu.

En svo má auðvitað hafa aðra skoðun á því.

2 thoughts on “Þekkingarfræði skáldskapar”

  1. Í alvöru? Mér finnst það algjörlega skelfileg mynd. Get raunar ekki sagt að hún hafi valdið mér neinum vonbrigðum þar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *