Bannaður á Facebook

Það er kannski táknrænt að ég er rétt nýfarinn að blogga aftur þegar Facebook ákvað að loka á mig í sólarhring. Ég hef einu sinni hlotið aðvörun þar, þegar ég vitnaði í lagatexta The Pogues („you cheap, lousy faggot“ orti hinn prúði Shane MacGowan). Ég skil að það hafi lent í síunni, en Facebook tók ekkert mark á skýringum mínum sem innihéldu meðal annars hlekk á téðan lagatexta.

Núna setti ég inn gif-mynd við færslu hjá vini mínum, mynd sem Facebook sjálft býður mér að setja inn vel að merkja, af senu þegar Sómi úr Hringadróttinssögu er étinn í Stranger Things. Facebook tók færsluna út samstundis vegna þess að hún innihéldi nekt. Sem hún gerir alls ekki.

Þannig að nú er ég í sólarhringsbanni frá Facebook og mér er hótað með þriggja sólarhringa banni gerist ég „brotlegur“ aftur. Ég er nú ansi hræddur um að ég hreinlega hætti á Facebook ef það ætlar að láta svona, að banna mig fyrir efni sem þau bjóða mér sjálf upp á gegnum sinn eigin vef. Ég mun ekki sakna Facebook neitt meira en þau munu sakna mín. Það væri miklum mun betra ef fleira fólk fylgdi mér hingað á bloggið þess í stað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *