111533050464143760

Don Giovanni
Í dag fór ég á Don Giovanni eftir Mozart í Borgarleikhúsinu. Var þar pabbi í einhverju því flottasta hlutverki sem um getur, en það er hlutverk sjálfs Commendatore. Þetta var alveg ótrúlega flott sýning og eiga allir sem að henni stóðu mikið hrós skilið, sérstaklega Keith Reed sem leikstýrði og lék Leporello, en án hans hefði sýningin aldrei litið dagsins ljós og Ágúst Ólafsson sem fór á kostum sem Don Giovanni. Baksviðs fannst mér ég sjá Ólaf Egilson, leikstjóra Herranætur 2003. Gæti samt bara verið að mér sé að förlast. Einnig var gaman að hitta Snæbjörn en hann virtist njóta sýningarinnar jafn mikið og ég gerði.

Í nótt
sá ég mesta plebba er ég hefi nokkurn tíma augum litið. Sá stóð með aflitað hár sitt og hlýrabol við lúguna á BSÍ, rakkandi niður afgreiðslustúlkur, kallandi þær feitar jussur, leiðinlegar, ljótar, druslur, hórur, mellur og hafandi í fyrirrúmi margan álíka ljótan munnsöfnuð, með heilan leigubíl bíðandi eftir sér með gjaldmælinn í gangi. Ég þurfti að bíða í tuttugu mínútur án gríns meðan þessi glókollur var að ljúka sér af. Loksins þegar hann hafði svo fengið mat sinn gekk hann rakleiðis inn í leigubílinn, og munu allir viðstaddir minnast öskra hans er honum varð litið á gjaldmælinn. Þessi maður er hér með nefndur fífl vikunnar.

Gleðskapur
Áður en fífl vikunnar lét á sér kræla hafði ég verið í góðu yfirlæti hjá Bibba. Við grilluðum, drukkum og slógum á létta strengi gítara og mandólíns. Alveg hreint fyrirtaks skemmtun. Kúbönsku vindlarnir spilltu heldur ekki fyrir. Margir hverjir munu kannast við að ég hafi sent sér sms þar sem ég spurði hvort viðkomandi væru vakandi. Þetta var tilraun mín til að reyna að redda mér fari heim. Sá eini sem gat sinnt kalli mínu var Oddur vinnufélagi. Þó svo að hann hafi hringt of seint í mig til að bjóða mér far kann ég það vel að meta að hann hafi ætlað að sækja mig og á ég honum þakkir skildar.

Lögreglan
Það úði og grúði allt af lögreglubílum hvarvetna í Reykjavík í nótt og tel ég að lögreglan hafi sýnt styrk sinn vel. Væntanlega hafa margir hugsað sig tvisvar um áður en þeir stigu upp í bíla sína ölvaðir. Þetta var stórgott dæmi um afbragðs löggæslu.

Mánudagsfyllerí?
Ó já! Get ekki beðið!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *