Alveg hreint ótrúlegt

Ég gleymdi að greina frá svolítið merkilegu atviki sem henti vinnufélaga minn hann Odd í gær. Er ég og Oddur stóðum starfandi í eigin heimi eins og algerir vinnuþjarkar (ahem) hringdi síminn hans skyndilega. Í símanum var maður sem kvaðst vinna hjá Norðurljósum og að Oddur hefði fundist sekur um að gefa upp símanúmerið sitt á spjallrás Popptíví mánuði áður (sem er með öllu bannað) og ætti yfir höfði sér 200.000 króna sekt. Oddur gapti við þessi tíðindi og tók að afsaka sig með útskýringum þess efnis að hann hefði verið mjög ölvaður þegar atvikið átti sér stað og þvíumlíkt. Ráðlagði maðurinn svo Oddi að snúa sér til lögfræðings og kvaðst telja ágætar líkur á því að lögfræðingurinn gæti fengið sektina lækkaða um því sem nam 3/4 sektarinnar. Þar létti nokkru fargi af grey Oddi. Þegar maðurinn kvaddi benti hann Oddi á að hlusta meira á FM957 á morgnana og hváði Oddur: „Ha?“ Kom þar í ljós að um símaat var að ræða. Það merkilega þótti okkur hinum þó vera það að maðurinn í símanum hafði undir höndum kennitölu Odds, símann og heimilisfangið, en Oddur vildi meina að vinir hans hefðu gefið upp þær upplýsingar jafnframt því að þeir skipulögðu hrekkinn og fengu FM til að hringja. Þetta er einhver sá rosalegasti hrekkur sem ég hef heyrt um og glöggir hlustendur „topp-tónlistarstöðvarinnar“ hafa sjálfsagt heyrt þetta í morgun og hlegið dátt. Merkilegt hvað fólk getur verið grimmt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *