Enn einn launalaus vinnudagur liðinn

Öllum deginum eyddi ég í að setja upp einangrun í nýja húsinu hans pabba. Að sjálfsögðu vill hann fá menn með reynslu. Enga reynslu ef marka má sjálfan mig, og aldrei má efast um notagildi þess að spara. Sérstaklega með að fá lélegar sonarómyndir sínar fyrir handverksmenn til að reisa sér bústað.
Ég er ansi hræddur um að svona muni þetta ganga það sem eftir er sumars. Verslunarmannahelgin fer í þetta, ekki eins og ég hafi eitthvað betra að gera, og post-Krít mun ég snúa aftur undir rangan enda svipunnar. Hafa margir kvartað við mig undanfarið að ekki sé hægt að ná í mig og er það hverju orði sannara. Við hverju öðru er að búast þegar maður vinnur á stað án gsm-sambands. Ekki eins og það skipti nokkru máli. Það er ekki hægt að heyra í neinum símum fyrir vinnuvélum.
Ég er farinn að hlakka til vetrar. Þá fæ ég a.m.k. tækifæri til að slugsa við námið, en það er ekki hægt að slugsa við neitt þegar ekkert er að gera. Það er ekki hægt að slappa sómasamlega af við slíkar aðstæður.
Senn nálgast Krít. Þar verður drukkið (nema hvað?) og spilað á strengjahljóðfæri, etinn krítverskur matur og brunnið í sólinni. Ekki nema vika í það núna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.