Tillaga um breytingu

Sögnin að þjást er alveg skelfileg í viðtengingarhætti þátíðar. Tvennt set ég út á hana:
1. Hún lítur alveg eins út og þátíð, þ.e. þjáðist.
2. Ef miðað er við nær allar aðrar sagnbeygingar mætti sjá mynstur sem væri ákjósanlegra að fara eftir, þ.e. að á breytist í æ, sem yrði þá þjæðist.

Eða hvað finnst ykkur um það?

Fréttin á bak við fréttina

Morgunblaðið í dag greinir frá manni sem væri svo sannarlega rangt að kalla lukkunnar pamfíl, en svo er mál með vöxtu að í gærmorgun brann önnur íbúðin hans á rúmlega ári. Það hefur vafalaust verið lítið gaman hjá grey manninum að komast á snoðir um brunann í gegnum þann trausta fréttavef morgunblaðsins skömmu eftir að hann kom til vinnu.

Tvennt er þó í þessu. Annars vegar er þetta ágætis auglýsing fyrir mbl og hve fljótir þeir eru að uppfæra vef sinn og hins vegar ber fréttin keim af því hvurslags starfskraftur maðurinn er. Það fyrsta sem hann gerir þegar hann kemur í vinnuna er að kíkja á mbl.is. Já, ég er nú ansi hræddur um það að karlgreyið yrði skammað all rækilega af yfirboðurum sínum fyrir að rýna í fjölmiðla á vinnutíma, þjáðist hann ekki af tilfinningalegu tjóni vegna missis.

Varðandi Boltann

Svo virðist vera, kannski ekki að ósekju, að nær allir þýskir fjölmiðlar eru teknir að drulla yfir eigið landslið og þá ekki síst framkvæmdarstjóra þess. Hafa þá birst fyrirsagnir af enn verri greinum sem steita hnefanum ásakandi í átt að aumingjunum sem „töpuðu með jafntefli“ fyrir einhverju lélegasta fótboltaliði heims. Á meðan Þýskaland er af springa, í fyrsta sinn utan stríðsátaka, fyllast heilu íslensku dagblöðin og íþróttaþættir af viðtölum við strákana okkar og umsögnum um einhvern þann merkasta leik Íslendinga til þessa. Þar segir Heiðar Helguson frá því að Oliver Kahn sé „pirraða týpan“ og birtar eru myndir af rifrildi þeirra. Eiður Smári tjáir sig um ástandið og landsliðsþjálfari Íslendinga lofsyngur lið sitt og tjáir okkur að Íslenski fáninn, sem svo fríðlega blaktir á bolum þeirra, sé það sem hleypti stolti og andagift í brjóst leikmanna vorra.

Ekki misskilja mig. Mér þykir jafnteflið alveg jafn stórfengleg tíðindi fyrir framtíð Íslendinga sem fótboltaþjóð, en sýnir þetta dæmi okkur ekki hversu sorgleg þjóð við raunverulega erum?