Löng færsla

Ég er að spá í að reyna að skrifa þá lengstu færslu sem ég hef nokkurn tíma skrifað. En þá vaknar vissulega sú spurning um hvað í ósköpunum ég eigi að skrifa. Það má velta því fyrir sér í langan tíma án þess að fá nokkurt svar við því, en ég nenni hreinlega ekki að vera að standa í því. Ef ég gæti eytt tíma í það að velta því fyrir mér um hvað ég ætti að skrifa gæti ég allt eins eytt tíma mínum í að lesa bækur Þorgríms Þráinssonar, en það færi ég nú ekki að gera. Mann sem beitir hræðsluáróðri á ungdóminn í stað þess að beita rökum tel ég ekki vera mikið í spunnið. Þess fyrir utan skrifar hann lélegar bækur um unglinga sem skemmta sér án áfengis og reykefna, en slíkir krakkar eru sjaldgæfir á vorum tímum.

Annar höfundur sem ég hef aldrei getað lesið neitt eftir er Enid Blyton, en bækur hennar um krakka sem fyrir raðir tilviljana eru alltaf að leysa flókin glæpamál þegar þau eru í fríi hafa mér lengi þótt ein besta skilgreiningin á fáránleika. Nú eru sjálfsagt flestir ósammála mér með þetta. Bækur hennar hafa verið lofaðar af mörgum og lesnar af fleirum, en þetta er aðeins mín skoðun. Að sama skapi get ég hvorki lesið Harry Potter né Djöflaeyjusyrpuna hans Kárasonar.

Ég hef annars komist að því að sögu Radiohead er hvergi að fá hér á landi og þarf ég að panta hana á amazon ef ég vil lesa hana. Ætli ég láti mig ekki hafa það. Skyndilega verður mér hugsað til gærkvöldsins þegar Bjarki vinur Alla lét það óvart út úr sér að hann tryði ekki á dverga. Það eru nokkuð athyglisverð ummæli en þó tel ég að hann hafi verið að vísa í álfa og huldufólk. Það sem ég veit þó ekki er hvers vegna hann sagði þetta í fyrsta lagi. Ef ég man rétt var engin umræða um huldufólk í gangi. Nóg um það.

Mér er farið að þykja hálf-leiðinlegt að drekka. Það er alltaf eins, nema hversu mikið skemmtanagildin minnkar með hverju skiptinu. Það sem eru núna góðar minningar frá góðum kvöldum hefur tekið miklum breytingum yfir sumarið. Svo endar kvöldið alltaf niðrí bæ. Ég þoli ekki bæinn. Skemmtistaðina þoli ég minna. Ég hef aldrei almennilega náð að skilja hvers vegna fólk vill yfirgefa skemmtileg partí í góðu húsnæði til að fara niður í bæ á hvimleiða og þröngsetna skemmtistaði þar sem bjórinn kostar fimmhundruðkall, þar sem líkur á veseni eru yfirgnæfandi og tónlistin léleg. Mér virðist það þannig að eina góða ástæðan fyrir því að fara þangað sé til þess að verða sér úti um bólfélaga. Sé fólk ekki í tilhugapælingum virðist vera lítill tilgangur með förinni þangað.

Jæja. Ég hef skrifað heil reiðinnar býsn af þrugli og færslan er hér með orðin sú lengsta sem ég hef nokkurn tíma skrifað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *