Á þeim árum er ég var unglingur

Já, þetta er ein af þeim færslum. Það fór alltaf svo óstjórnlega í taugarnar á mér þegar ég var unglingur (og gerir raunar enn!) hvað fólk hélt alltaf að ungt fólk ætti að vera hresst og skemmtilegt. Ég var nefnilega hvorki hress né skemmtilegur og mér fannst leiðinlegt að valda fólki vonbrigðum við fyrstu kynni. Nei, raunar fannst mér það ekkert leiðinlegt. Ég naut þess að vera leiðinlegur (og geri enn, mouahhmouahh!!). Hvaða hálfvita dettur það líka í hug að unglingar séu eitthvað hressir og skemmtilegir? Veit slíkt fólk yfirhöfuð hvað unglingur er?
Það fer nefnilega enn í taugarnar á mér, þegar ég er kynntur fyrir einhverju fólki (það þarf alltaf að kynna mig fyrir öðru fólki því ég kynni mig aldrei sjálfur), hvernig það dæmir mig fyrirfram sem hressan eða skemmtilegan. Svo verður það fyrir vonbrigðum. Hvers vegna tekur enginn mig til fyrirmyndar? Ég geng nefnilega alltaf útfrá því að allir sem ég þekki ekki séu leiðinlegir, enda þekki ég allt skemmtilegasta fólkið. Þannig kemur það mér alltaf skemmtilega á óvart ef viðkomandi reynist skemmtilegur, eða jafnvel „hress“.

Svo hljómar hið heilaga orð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *